Og svo kom stríð og svo kom her. Og svo kom friður og enn meiri her. -Megas

föstudagur, júlí 30, 2004

Boyband

Ég er staðráðinn í að ganga í boyband.

Fjórir léttklæddir drengir, hver með sinn karakter. Dagur Snær nær til unga fólksins og leggur áherslu á mennta- og velferðarmál; Himmi nýtur mikillar kvenhylli með einlægninni og anarkistahugsjóninni; Arngrímur verður svona "posh-spice" og textarnir hans verða dýpri og hafa þrengri skírskotun en okkar hinna og sjálfur mun ég leggja áherslu á alþjóðamál í mínum stíl(með sérstöku tilliti til þriðja heimsins).

Sverrir Jak verður svo að sjálfsögðu heilinn á bak við þetta allt saman og við munum ávallt kalla hann pabba. Og svo verða gerðir "sjónvarpsþætti[r] um ferðir [okkar] í Kringluna og Bláa lónið og annað sem á brýnt erindi við landsmenn".

Svo segir fólk að vinstrimenn séu þurrir og leiðinlegir.

Nokkrar staðreyndir og athugasemdir

* Í dag er hönd mín á lofti!
* Flutningar sökka.
* Vinnan mín er skemmtilega leiðinleg, en umfram allt þreytandi.
* Ég vildi að ég væri ungabarn.
* Flutningar sjúga feitan.
* Breiðholtið sökkar.
* Ef guð er til þá er hann kapítalisti.
* Ég sé sjóinn út um gluggan við hliðina á skrifborðinu mínu.
* Í dag er rigning.
* Í dag fer fólk að tjalda.
* Ég spái því að eitthvað slæmt eigi eftir að gerast þessa verslunarmannahelgi.
* Ég er svartsýnn í dag.

fimmtudagur, júlí 29, 2004

Til hamingju

Congratulations and celebrations
When I tell everyone that you're in love with me
Congratulations and jubilations
I want the world to know I'm happy as can be

Who would believe that I could be
Happy and contented
I used to think that happiness
Hadn't been invented
But that was in the bad old days
Before I met you
When I let you
Walk into my heart.


Það er ótrúlegt til þess að hugsa að þetta lag hafi ekki unnið. En það varð í öðru sæti, aðeins einu stigi lægra en spænska lagið La, la, la. Orðið la kom fyrir 138 sinnum í laginu. Þetta var á því herrans ári 1968.

miðvikudagur, júlí 28, 2004

Nostragunnus

Það er ótrúlega gaman að skrá sig í kúrsa í Háskólanum. Maður treður sér í eins marga kúrsa og maður getur fyrir hverja önn og fyrstu tveir mánuðirnir í skólanum eru ótrúlega skemmtilegir. Svo þyngist róðurinn þegar nær dregur prófum og í lok október bölvar maður sjálfum sér í sand og ösku fyrir að leggja allt þetta á sig. Svo dettur maður vel í það eftir próf og þá eru öll vandræði að baki og maður er sáttur við það sem maður valdi.

Þetta er ekki spá. Þetta er sagt með fullri vissu! Í þessum bylgjum hefur líf mitt gengið undanfarin 17 ár án undantekninga - kannski fyrir utan fylleríin í lok desember fyrstu 10 árin af þessum 17.

þriðjudagur, júlí 27, 2004

Góð lesning

Þetta er ótrúlega skemmtileg lesning. Eins og besta framhaldssaga.

Vespur og geitungar

Ég er skíthræddur við geitunga og vespur, samt hef ég aldrei verið stunginn. Ég vil ekki að Reykvíkingar slátri öllum skorkvikindum sem eru tiltölulega ný af nálinni hér á landi. Þessi dýr eiga alveg jafn mikinn tilverurétt og önnur dýr, þetta eru bara fordómar hjá Íslendingum. Erlendis rýkur fólk ekki upp milli handa og fóta ef vespur og geitungar hreiðra um sig í görðum þess, það gerir ráðstafanir og getur auðveldlega grillað í garðinum eða farið í sólbað án þess að verða stungið. Við þurfum bara að bíta það í okkur að umhverfi okkar er að breytast og við verðum að aðlaga okkur að breytingunum en ekki drepa öll framandi dýr sem náttúran býður til landsins.

Mér er samt meinilla við þessi kvikindi.

mánudagur, júlí 26, 2004

Slök rannsóknarblaðamennska

Þessi frétt birtist á mbl.is í dag. Þar er sagt frá því að Sandra Bullock sé að fara að ganga í það heilaga með einhverjum bifvélavirkja. Það sem ótrúlegast er við fréttina að í henni kemur ekki fram að Sandra Bullock er fertug í dag, en hún fæddist á þessum degi árið 1964.

Fólk ætti nú að reyna að rannsaka aðeins betur það sem það skrifar um! En allavega; Til hamingju með stórafmælið Sandra.

Stuttbuxnaland

Ég skil vel af hverju það þótti sæta tíðindum að Solla hafi verið á bláum kjól, en af hverju þótti það svona merkilegt að Siggi hafi verið á síðum buxum? Gengu menn alltaf í stuttbuxum í gamla daga nema á jólunum? Spyr sá sem ekki veit.

föstudagur, júlí 23, 2004

Ógöngur

Mér tókst að villast á leiðinni frá gatnamótum Framnesvegar og Hringbrautar að Neshaga. Þetta endurspeglar það hversu mikið úthverfapakk ég er. Ég er sannur Breiðhyltingur og það felur í sér að rata ekki í Vesturbænum.

fimmtudagur, júlí 22, 2004

Þjóðaratkvæðagreiðsla

Ef fjölmiðlalögin hefðu farið í þjóðaratkvæði þá hefði atkvæðagreiðslan kostað 500-1000 krónur fyrir hvern atkvæðisbæran mann í mesta lagi.

Úff hvað lýðveldið er nú dýrt, það er eins gott að lögin voru afturkölluð.

Bretar

 Bretar eru svo yndislegir. Ohh.

Til hamingju konur í Evrópusambandinu með þennan nýja þingmann ykkar.

Brenglun

Hvað eiga Willie Nelson, Aerosmith,  Fine Young Cannibals, Van Morrison og hljómsveitin Poco sameiginlegt?

Crazy, I'm crazy for feeling so lonely

I go crazy, crazy, baby, I go crazy

She drives me crazy uh-uh

She gives me love love love  love, crazy love

It happens all the time. This crazy love of mine

 
Jú, þau syngja öll um hina brengluðu og geðsjúku ást.

miðvikudagur, júlí 21, 2004

Það er allt okkur að kenna (að hluta til)

Hvernig tengist ástandið í Afríku okkur, hinum týpísku vesturlandabúum? Er það okkar skylda að íhlutast og reyna að stilla til friðar þar sem stríð geysa? Hvaða ábyrgð berum við? Getur verið að velmegun og hröð þróun á Vesturlöndum undanfarnar aldir tengist því að Afríku var rústað og hún arðrænd á sama tíma af okkur, okkar kynstofni, okkar menningu? Hvaðan kemur olían sem knýr togaraflotann okkar og bensínið sem við dælum á bílana okkar? Hverjir eru vopnaframleiðendurnir – það er augljóst hverjir hagsmunir þeirra eru – eru þeir kannski vesturlandabúar eins og við? Dæla þeir e.t.v. peningum í kosningasjóði valdamestu manna í okkar heimshluta? Eða eru þetta kannski einir og sömu mennirnir?

þriðjudagur, júlí 20, 2004

Mávar

Af hverju gerir fólk upp á milli fugla? Af hverju eru mávar ekki metnir til jafns við aðra fugla... ha, af hverju? Þeir sem hata máva og skjóta þá út í fjöru eru fávitar. Hvað fær fólk eiginlega til að gera svoleiðis?

Sálmar og postillur

Ad Diøfullinn sie vor haskaste og skiædaste Saalar Ovinur. 
  
Postillur eru alltaf skemmtilegar.

mánudagur, júlí 19, 2004

Stíll dauðans

Vááááá... ég er að hugsa um að blogga.
Æðislegri helgi lokið og hið daglega amstur tekur aftur við. Það er samt einhver fiðringur í manni þegar sumarið skartar sínu fegursta eins og í dag :-)
 
Fór í innflutningspartý hjá Höllu og skemmti mér konunglega, ótrúlega skemmtilegt fólk og frábærar veitingar. Svo fórum við í ratleik (geðveikt skemmtilegt!!!) og mitt lið vann. Alltaf svo skemmtilegt fólk hjá henni Höllu. María, Diljá og Kata voru alveg í massastuði og sömuleiðis Dagur og Oddur. Huginn, Sverrir og Kata gleymdu sko ekki góða skapinu heima og Þrúða var geðveikt skemmtileg, og líka allt hitt fólkið t.d. Fífa og Hansi.
 
Svo er ég líka alveg orðinn geðveikt brúnn eftir að hafa legið í sólbaði á laugardaginn, alveg svona eins og epli.

föstudagur, júlí 16, 2004

Ísland úr Nató

Ef Ísland gengur úr Nató og herinn fer þá finnst mér að við eigum að bjóða Bobby Fisher íslenskan ríkisborgararétt. Hann gerist svo væntanlega félagi í Hróknum. Enn ein ástæða til að losa okkur við aumýkingartáknið á Miðnesheiði.
 
Það er ekki sniðugt að hella niður kaffi á vinnustað sem er fullur af bókum.
 
Afar áhugaverð grein á http://www.andriki.is>Vefþjóðviljanum í gær. Þar er rakin tregða stjórnarandstöðunnar og misræmi í málflutningi hennar frá umræðum áður en fjölmiðlalög 1 voru sett og til dagsins í dag. Væri fín grein ef einn agnarsmár faktor væri tekinn inn í umræðuna, sá að FORSETI ÍSLANDS NEITAÐI AÐ SKRIFA UNDIR LÖGIN OG VÍSAÐI ÞEIM TIL ÞJÓÐARATKVÆÐAGREIÐSLU! Ætli þau hafi gleymt því?

Ärzin

Það er ótrúlegt hvað það er skemmtilegt á spjallfundum þar sem er ekkert fyrirfram ákveðið umræðuefni, og það sakar ekki að fá sér einn kaldan með. Margar góðar hugmyndir koma fram í svona afslöppuðu umhverfi og sumar þeirra þróast síðan áfram og gerast (aftur í stíl Símans).
 
Til hamingju fröken Helga Tryggvadóttir - þrefalt húrra fyrir þér! (Hún komst inn í læknisfræðina). Héðan í frá mun ég aldrei kalla þig neitt annað en dr. Helgu. Einn góðan veðurdag færð þú að plástra mig eða brenna vörtu af tánum á mér.

fimmtudagur, júlí 15, 2004

Mogginn

Á mbl er afar áhugaverð frétt.

Nærri, ég endurtek nærri, þúsund manns safnast saman á götum Bagdad í kröfugöngu til að krefjast aftöku Saddams. Annað hvort var Geir Jón að telja eða er þetta mesta ekkifrétt sem ég hef lesið í langan tíma.

Af góðum myndum og slæmum

Fór einn í bíó í fyrradag á myndina Godsend. Það er ein af verstu hugmyndum sem ég hef gert (í stíl Símans). Myndin er alltof krípí og sendir frá sér alltof neikvæða strauma, ólík The Sixth Sense þar sem maður fór glaður heim úr bíóinu þrátt fyrir að hafa upplifað mikinn hrylling.

Mæli ekki með þessari mynd.

En ég sá hins vegar mjög góða mynd um daginn á Rúv; Iris, sem fjallar um írsku skáldkonuna Iris Murdoch en hún fæddist einmitt á þessum degi árið 1919. Myndin er hreint út sagt frábær. Ekki vegna þess hve listilega vel hún er skrifuð, heldur vegna leikaranna sem eru frábærir og vegna þess hve myndin er falleg. Fegurðina í myndinni er þó helst að finna í hugmyndafræði aðalperónunnar sem er sett fram í ákveðnu stefi. Inn á milli atriða eru sýnd brot þar sem Iris flytur fyrirlestur í háskóla og talar um ástina og fegurðina af gríðarlegri einlægni. Mjög flott.

Svo eru gömlu hjónin svo yndisleg - ég vil vera svona þegar ég verð gamall, eða bara núna???

Iris var fædd í Dyflinni og skrifaði alls 26 skáldsögur, fjölmörg leikrit og smásögur auk fjölda fræðigreina. Hún fékk stöðu við Oxfordháskóla 1948 og þar kynntist hún eiginmanni sínum John Bayley sem var nokkrum árum yngri en hún. Hann skrifaði bókina Elegy for Iris sem kvikmyndin er byggð á. Hún hlaut titilinn Dame frá breska heimsveldinu (svara til Sir hjá karlmönnum) 1987 (á ekki að fara að leggja þessa titla niður?) En eftir baráttu við Alzheimer lést hún árið 1999, áttræð.

En allavega, til hamingju með afmælið.

miðvikudagur, júlí 14, 2004

SÚF

Ég myndi ekki óska versta óvini mínum að vera ungur Framsóknarmaður í dag.

Vegasalt

Á að setja lög á fjölmiðla -
Á að bjóta stjórnarskrána - Nei

Eiga Íslendingar að gera dúnmjúka, bleika flauelisbyltingu -
Eiga Íslendingar að gefa lýðræðið upp á bátinn - Nei

Er háskólamenntun ókeypis - Nei
Eiga nemendur að borga til samfélagsins eftir að þeir útskrifast -

Á Ísland að vera friðsamt, herlaust land -
Á Ísland að vera tækifærissinnað í utanríkismálum - Nei

Eiga Íslendingar að bera ábyrgð á dauðsföllum í Asíu - Nei
Eiga Íslendingar að fyrirbyggja fleiri dauðsföll og lýsa aldrei yfir stríði á aðra þjóð -

Eigum við að óttast og hræðast hvert annað (og þá sérstaklega útlendinga) - Nei
Eigum við að bera virðingu fyrir og elska hvert annað -

Á veröldin að vera betri staður -
Eigum við að brenna í helvíti - Nei

þriðjudagur, júlí 13, 2004

Afmælisveisla

Þennan dag árið 2305 fæðist Jean Luc Picard, kafteinn í Star Trek Next Generation en hann er leikinn af hinum breska Patric Stewart sem heitir réttu nafni Patrick Mirfield I.

Patrick, sem er breskur er einkum þekktur fyrir að vera sköllóttur, byrjaði að missa hárið þegar hann var 19. ára en um þær mundir starfaði hann sem blaðamaður og húsgagnasali en lagði svo stund á leiklistarnám við Bristol Old Vic Theatre School frá arinu 1957.

Meðfram því að leika hefur Patric unnið að mannréttindamálum og hefur verið sæmdur heiðursorðu breska heimsveldisins og einnig er námsstyrkjasjóður Amnesty International kenndur við hann. Í frístundum styður hann jafnframt fótboltalið sitt Huddersfield Town í enska boltanum og hefur gaman að Beavis og Butthead og sagði m.a. þetta um þá félaga þegar blaðamaður ræddi við hann: "Oh, yes, my passion for them remains the same... I think it's one of the most original and brilliant pieces of television that we've seen in recent years. The dialogue is delightful. I simply sit and giggle and laugh all the time."

Allavega, til hamingju Jean Luc Picard með það að þú ert mínus 301 árs í dag.

Lukkupotturinn

Djöfulsins! Af hverju keypti ég ekki miða. Þeir sem voru svo heppnir að ná sér í eitt stykki eiga ennþá 1% sjens á að vinna Porsjinn.

Annars er klukkutímagamalt kaffi ekkert gott.

mánudagur, júlí 12, 2004

Ææ

Veit einhver um orð í íslensku þar sem tvö æ standa saman? Sá sem getur fundið það fær koss frá mér - rembings, beint á munninn. Þetta verður að vera orð sem er til í málinu, ég vil fá dæmi.

Spurning

Hver ætli vinni þessa keppni?

föstudagur, júlí 09, 2004

Jæja

Úff maður. Ég held bara áfram að tölvunördast. Var að prófa að setja saman persónuleikapróf (neðar á síðunni) og gekk bara helvíti vel (fyrir utan það að ég gat ekki gert íslenska stafi - kemur bara). En það verður enginn Íslandsmeistari á einum degi! Sagði kallinn það ekki?

Flanders

Detti mér nú allar dauðar lýs úr höfði!

Ég er á góðri leið með að verða hinn þokkalegsti tölvunörd sem kemur mér skemmtilega á óvart því fyrir ekki svo löngu kunni ég svo til eingöngu á Word. Eftir því sem ég grúska meira í forritinu sem ég vinn í, því fleiri lausnir finn ég sem spara mér vinnu. Þetta er alveg ótrúlegt.

Eftir vinnu ætla ég að kaupa mér Havæ-skyrtu. Þá verð ég alveg eins og tölvunördið sem er alltaf í fréttunum þegar einhverjir vírusar herja á tölvur landsmanna.

Sá afar skemmtilega auglýsingu frá 10-11 í Fréttablaðinu í gær. Framarlega í blaðinu auglýsir fyrirtækið grænmeti og ávexti - og hvaða leið er best til að sýna ferskleikann og þau gæði sem varan býr yfir? Jú auðvitað að sýna unga stúlku á hlýrarbol (eða brjóstarhaldi - það sést ekki) með galopinn munn að búa sig undir að borða banana (eða troða honum lengst ofan í kokið á sér). Þegar ég sá auglýsinguna langaði mig strax að ríða melónu. Eða... voru það annars ekki skilaboðin sem var verið að senda???

fimmtudagur, júlí 08, 2004

Áhugavert

bush-league, l. Óforml. lélegur á sínu sviði, annars eða þriðja flokks.

Þetta segir orðabókin, og hún lýgur aldrei.

Mæli í mót mótmæla???

Mótmæli klukkan hálf eitt í dag á Austurvelli. Frelsis- og lýðræðissinnað fólk er hvatt til að mæta.

miðvikudagur, júlí 07, 2004

Ástin er...

Margt hefur verið sagt um ástina í gegnum tíðina. Þetta er sígilt, enda íslensk dægurlagatónlist sú besta í heimi.


Ástin er eins og sinueldur. Ástin er segulstál.

Kannski er ástin sumum sæluhús í svörtum norðanbyl.

Ástin spyr hvorki um stétt né stöðu. Ástin fæst hvorki keypt né seld.

Ástin vex á trjánum.

Ástin er ljúf og eftir lát, lævís þig leikur skák og mát.

hmmm...

Hverjum ætli sé lýst svo:

Í einni svipan var fótunum kippt undan ferli hennar og frægasta stelpa landsins háði harða baráttu við eiturlyf, ofbeldi og átröskun.

???

þriðjudagur, júlí 06, 2004

Dagbókarfærsla

Ég ætla að elda í kvöld. Það er orðið langt síðan ég borðaði almennilegan mat; er alltaf étandi súpur og brauð. Samt hefur meltingin staðið sig ótrúlega vel.

Í gærkveldi skellti ég mér í sund með tveimur undurfögrum dömum í ákveðnu ferðafélagi. Eftir slökun í heitapottinum (og 200m sprett) var förinni heitið í hjólreiðaleiðangur í Öskjuhlíðina, en einn ferðafélaginn ákvað að fara heim (enda latur og með blaðamannseðli). Kvöldsólin var ótrúlega falleg en þó var svolítið kalt. Þegar ég svo loksins kom heim var þreytan farin að segja til sín svo ég náði ekki að klára eina blaðsíðu í Dís, heldur sofnaði strax og kipptist til og stundi.

Nú ætla ég að hætta að blogga því ég ætla að vera mjög duglegur að vinna í dag. Ég ætla að klára b-ið eins og það leggur sig og skila því af mér.

mánudagur, júlí 05, 2004

Guð minn góður!

Ég var að skoða heimasíður nokkurra frjálshyggjumanna og nú líður mér frekar illa. Ég veit ekki hvort ég á að hlægja eða gráta. Einn heldur úti afar áhugaverðri síðu. Á henni skrifar hann um frjálshyggju í stíl kristinlegrar ofstækistrúar og baunar á feminista. Ekki það að ég sé móðgaður. Svona vitleysa nær bara ekki til mín.

Á síðunni er einnig myndasíða þar sem hann montar sig af öllum ráðstefnunum sem hann hefur sótt út í hinum stóra heimi og er greinilega mikill stórborgari. Þetta er hrikalegt dæmi um ungan mann sem þráir að vera 40 árum eldri en hann er og verða reglulegur álitsgjafi í Silfrinu og fá að besservisserast þar á hverjum sunnudegi.

Hvort ætli sé verra, að vera virkilega 50 í anda eins einn ungur framsóknarþingmaður eða þrá að vera það eins og þessu ungi frjálshyggjumaður.

Er að safna í Saddam

Ég er að safna í Saddam. Það er rétt, safna í Saddam - ekki að safna fyrir Saddam eða eitthvað í þeim dúr. Ég er nefninlega með skegg og ætla að koma á stað Saddam bylgju þar sem ungir menn á Íslandi safna í skegg líkt því sem Saddam hafði þegar hann náðist. Ég ætla þó ekki að ganga í Armani eins og Saddam var vanur og vona að íslenskir drengir geri slíkt hið sama.

Dís

Er að lesa Dís. Hef aldrei lesið hana áður en samt hef ég oft vitnað til hennar og lent í heitum umræðum um hana. Bókin er nákvæmlega eins og ég hélt að hún væri. Mér var sagt að endirinn kæmi á óvart og hlakka því mikið til.


 

Powered by Blogger