Og svo kom stríð og svo kom her. Og svo kom friður og enn meiri her. -Megas

þriðjudagur, apríl 29, 2008

Gættu þín mamma höfuðborgin er með sýfilis

Um daginn skammaði Elías skoðanabróðir minn mig fyrir að finnast Reykjavík ljót og minnti mig á að: "Ekkert er fegurra en vorkvöld í Reykjavík!"

Vissulega er útsýnið fallegt frá Reykjavík á vorkvöldum. En fúll er hann fnykurinn í klofinu á henni höfuðborginni í 101. En innan um píkudaun andlega vanhæfs arkitektúrs og almennrar illgresisræktunar þar sem drullukunturnar eru allar á pensilini, þar þrífast skáldin.

Minn kæri Elías

Þessar myndir voru teknar á fögru vorkvöldi í Reykjavík:


Eftir þessa stuttu bæjarferð mína í dag er ég heillaður af fegurðinni í ljótleikanum í Reykjavík. Viðurstyggileg er fundvísi Ingólfs en þar bý ég og vil hvergi annars staðar búa.

Gættu þín mamma höfuðborgin er með sýfilis.

Sturlaður sími Sturlu

Sturla Jónsson í DV:

Ég hef átt þennan síma í mörg ár og aldrei hafa verið þessir smellir og bergmál í honum. Ég er sannfærður um að síminn sé hleraður.


Það kæmi mér ekkert á óvart þó síminn hjá Sturlu sé hleraður en þó gætu verið aðrar skýringar á trufluninni:

a) Þar sem Sturla hefur átt símann í mörg ár og líftími síma er ekki ýkja langur þá er hann einfaldlega að gefa upp öndina.

b) Síminn er andsetinn af ærsladraug.

Hórur, ríðingar og helvíti

Pólverjinn segir kurwa - hóra.

Kaninn og tjallinn segja fuck - ríðingar.

En hvað segir Íslendingurinn?

Hann segir helvítis, andskotans, djöfulsins, fjandans og fjárans.

Afskaplega erum við trúrækin og miðaldaleg í blótsyrðanotkun.

mánudagur, apríl 28, 2008

Social security number

Kennitala.

Alltaf finnst mér jafn fyndið að ameríska heitið fyrir kennitölu sé social security number, eða félagslegt öryggisnúmer, þar sem nánast ekkert félagslegt öryggi er í Bandaríkjunum.

Óvinsælasti maður Íslands?

Um daginn sýndi félagi minn mér innheimtubréf frá lögmannstofu þar sem farið var fram á að hann greiddi smávægilega skuld. Á umslaginu og hausnum á bréfinu stóð stórum stöfum:

Lögmannsstofa
Jón Egilsson hdl.


Ég minntist þess að hafa séð fleiri innheimtubréf frá þessari stofu í gegnum tíðina og er ekki frá því að hafa einhvern tímann fengið eitt sjálfur.

Ef ég ætti lögmannsstofu og sérhæfði mig í innheimtu myndi ég velja afar hlutlaust nafn á stofuna og forðast í lengstu lög að persónugera rukkunina. Annars gæti maður átt á hættu að verða nokkuð óvinsæll.

Góðir nafnar


Gunnar veit greinilega hvert hann á að fara til að þvo af sér saurugu hugsanirnar þegar hann yfirgefur strípibúllurnar.

sunnudagur, apríl 27, 2008

Takk sömuleiðis, asninn þinn

Oft og iðulega koma ferðamenn til mín í vinnunni og segja mér að Ísland sé afar fallegt land og ætlast um leið til þess að ég þakki þeim fyrir að segja það. Yfirleitt segi ég einfaldlega að ég sé þeim sammála því mér þykir Ísland einnig fallegt. Mér finnst fáránlegt að ég þurfi að þakka nokkrum manni fyrir að finnast landið fagurt. Ég ber enga ábyrgð, hvorki á fegurð landsins né ljótleika, ef því er að skipta. Það vill bara svo til að ég fæddist hér og ég bý hér.

Þetta finnst mér álíka fáránlegt og að ég myndi ætlast til þess að fólk þakkaði mér fyrir að segja að stjörnurnar á himnum séu fallegar, aðeins vegna þess að viðkomandi býr undir þeim.

###

Um daginn báðu tveir Svíar mig um að panta fyrir sig leigubíl í IKEA.

Ég ætla rétt að vona að þeir séu tengdir fyrirtækinu á einhvern hátt.

laugardagur, apríl 26, 2008

K(v)islingar

Í morgun þegar ég kom heim úr vinnunni beið mín á tröppunum kisan sem býr í næsta húsi. Henni finnst gaman að koma í heimsókn því hún fær alltaf eitthvað gott að borða. Í morgun fékk hún sushi.

Kettir eru latir tækifærissinnar. Þeir haga seglum eftir vindi og eru engum háðir. Þeir geta auðveldlega leikið tveimur skjöldum, ef ekki fleirum, og þjóna oft fleiri en einum húsbónda. Segja má að þeir séu nokkurs konar kvislingar.

föstudagur, apríl 25, 2008

In memoriam

Módernisminn er dauður. Hann framdi sjálfsmorð því hann var einmana og enginn skildi hann lengur. Enda var hann genginn í barndóm og þjakaður af hrörnunarsjúkdómi. En rétt áður en hann fargaði sér reið hann rómantíkinni og er hún nú stefna ekki einsömul og á von á sér fljótlega. Margir munu koma til með að fagna afsprenginu en einnig verður það fordæmt af miðaldra afturhaldssinnuðum hrokkinhærðum ístrubelgjum og aftaníhnýtingum þeirra. En það breytir engu. Sá heimur sem við þekkjum verður óþekkjanlegur því við verðum einu skrefi nær því að skyggnast inn í veruleikann á bak við veruleikann. Nú skulum við syrgja, en aðeins hæfilega lengi því okkar bíður mikið starf.

fimmtudagur, apríl 24, 2008

Með brjálæðisglampa í augum og froðu í munnvikum

Ég rak upp stór augu þegar ég horfði á fréttatíma RÚV áðan á netinu. Var þetta Viðar Guðjohnsen sem var dreginn á brott í handjárnum af tveimur lögreglumönnum? Getur það verið? Ég gat ekki betur séð.

Með brjálæðisglampa í augum og froðu í munnvikum öskrar hann af óstjórnlegri heift:

Þeir eru að berja Íslendinga! Þeir eru að berja samlanda sína!


Ekki veit ég hvaða útlendinga lögreglan ætti að lúskra á í stað skrílsins í múgæsingunni. Þankagangur þessa manns er stórfurðulegur.

Ég ákvað að kíkja á heimasíðu drengsins í kjölfarið og athuga hvað hann segði um málið en þar var aðeins myndskeið af löggunni buffa pabba hans eftir að pabbinn öskraði og steytti hnefa í átt að henni. Það er greinilegt að pabbinn er jafn mikið hyski og afkvæmið.

Fréttamaður sjónvarps sagði í upphafi fréttatímans að uppþotið í dag kæmi á óvart. Þvílík vitleysa. Það var aðeins tímaspursmál hvenær slægi harkalega í brýnu milli mótmælanda og lögreglu. Ekki ætla ég að leggja dóm á það hver byrjaði, enda skiptir það ekki máli. Ofbeldið var óumflýjanlegt. Lögreglan og mótmælendurnir eru nefninlega margir hverjir af sama sauðahúsi.

Lögguna var farið að kitla í hnúana sem sást best þegar snældugeggjaður lögregluþjónn sprautaði eitri í andlit mótmælendanna meðan hann öskraði eins og manískur: „GAS GAS“ rétt eins og í útrýmingarbúðum. Þeir hafa ekkert aksjón fengið síðan í sumar greyjin. Stundum held ég að það sé frekar greindarskortur en fjárskortur sem plagar lögregluna.

Að sama skapi eru bílstjórarnir þreyttir og pirraðir á því að enginn hlusti á þá, enda hafa þeir afar lítið að segja. Þeir þrá að láta berja á sér og gefa kannski eitt eða tvö högg áður en þeir eru snúnir niður í jörðina. Þeir þarfnast þess að vera píslarvættir.

Í nótt sá ég Kastljósið endursýnt. Hvernig datt bílstjórunum í hug að láta Sturlu, þennan bavíana vera talsmann sinn? Það hlýtur einhver í stéttinni að hafa aðeins meira vit í kollinum en þessi einfeldningur. En það er kannski ekki greindinni fyrir að fara hjá þeirri stétt rétt eins og hjá löggunni.

Í lokin verð ég að bæta því við að það var svolítið fyndið að um leið og myndskeiðið af Viðari var á enda var strax klippt inn brot þar sem útskriftakrakkar mættu á staðinn í SS-búninum með hakakrossinn á upphandleggnum.

Myndbrotið má sjá með því að spóla 4 min og 50 sek inn í fréttatímann.

þriðjudagur, apríl 22, 2008

Yddað rúnk

Í morgun horfði ég á Kastljós gærkvöldsins á vef RÚV. Ég gubbaði óvart smá þegar Davíð Stefánsson las endurskrifað ástarbréfið. Svo gubbaði ég aðeins meira þegar hann sagðist myndi hórast almennilega í ástarbréfabransanum fyrir rétta upphæð.

mánudagur, apríl 21, 2008

Dauður forseti

Afskaplega finnst mér það aumt þegar menn troða pólitískum stimplum á löngu dauða kalla. Mér finnst það bera vott um að menn eru annað hvort rökþrota eða hafa vondan málstað að verja. Viddi G. segir Jón Sigurðsson hafa verið frjálslyndan þjóðernissinna.

Öllum má vera ljóst að Jón Sigðurðsson var sjálfstæðissinni, en að fullyrða eitthvað umfram það er heimskulegt.

laugardagur, apríl 19, 2008

Felling eða fall

Í svartnættinu þegar kristur kynnir

sér í kauphöllinni hvort gengið verði fellt

og menn segja: jújú og hann uppí hjólbarðann

að hamstra dekk til að geta geymt og selt

en guð býr í gengishruni amma

æ geymdu handa mér meyjarblómið amma


Ekki er ég sannfærður um að guð búi í gengishruni, eða í nokkrum hlut ef því er að skipta, en svo orti Megas í ljóðinu Vertu mér samferða inní blómalandið amma.

Eftir fall krónunnar undanfarnar vikur hef ég séð hvern fjármálaspekinginn á fætur öðrum tala um gengisfellingu.

Fyrir mér er gengisfelling þegar gengið er fellt með handafli (pólitískri ákvörðun), rétt eins og Megas yrkir um. Hins vegar er hrun krónunnar nú ekki felling heldur fall. Því finnst mér rangnefni að segja gengisfelling, réttara væri að segja gengisfall.

fimmtudagur, apríl 17, 2008

Ó-ó

Í gærmorgun ætlaði ég í Bónus á Laugarveginum að versla í matinn en kom að læstum dyrunum því búðin opnar ekki fyrr en á hádegi. Það sökkar.

Þess í stað fór ég í nærliggjandi sjoppu og fékk mér pylsu. Á meðan ég át pylsuna flétti ég í gegnum gamalt Séð og heyrt og las þar viðtal við Kötu Jakobs um óléttuföt. Þar kom fram að Kata á peysu sem bæði óléttar konur sem og ó-óléttar konur geta klæðst.

Ó-ólétt er mjög heimskulegt orð.

Þegar ég var búinn með pylsuna var enn hálftími þangað til Bónus opnaði og ég nennti ekki að bíða og ákvað að fara frekar upp í Hallgrímskirkuturn. Ég var einn í turninum í góða stund og gat því fengið mér sígó þar uppi og horft yfir ógeðslega ljótu borgina mína.

þriðjudagur, apríl 15, 2008

Vörubílstjóravæl

Vörubílstjórar væla yfir því að þurfa hvíla sig í þrjú korter á níu klukkustunda vinnudegi.

Ef ég væri vörubílstjóri og þyrfti að keyra í níu tíma á dag myndi ég taka mér tvær pásur. Ég myndi stoppa tvisvar á hvíldarsvæðum í 22.5 mínútur í senn, leggjast aftur í koju og setja Family Guy í dvd spilarann, smella einhverju gómsætu í örbylgjuofninn og fá mér eitthvað kalt að drekka úr ísskápnum.

sunnudagur, apríl 13, 2008

Góður húmorEinhverjir grínistar tóku sig til nú í janúar og stofnuðu Jafnréttindafélag Íslands. Meintum félögum finnst frekar halla á karlpeninginn og telja að kyn sé aukaatriði í jafnréttisumræðunni.

Þegar þeir settu grínið fram réðu þeir greinilega leikara til að fara fyrir hópnum og heitir karakterinn Ólafur Hannesson og er leikarinn mjög sannfærandi í hlutverki sínu.

En grínistarnir létu ekki þar við sitja. Þeir héldu karakternum á lífi og nú er hann búinn að fá sinn eigin sjónvarpsþátt á hinni virtu stöð ÍNN ásamt því að halda úti bloggsíðu.

Bloggið er frábært en sérstaklega mæli ég með sjónvarpsþættinum sem ber nafnið Óli á Hrauni. Í fyrsta þættinum plötuðu grínistarnir Sigurð Kára og Sóleyju Tómasdóttur upp úr skónum og þau mættu í sjónvarpssal og sátu fyrir svörum hjá Ólafi. Annar þátturinn er gullmoli því í honum er uppáhalds vitleysingurinn minn, Viðar Guðjohnsen ásamt Einari Skúlasyni. Ég verð nú að viðurkenna að ég vorkenndi greyjinu honum Einari því hann er svo góður drengur og ljótt að stríða honum með því að plata hann í grínþátt undir fölskum forsendum.

Ég hvet alla þá sem hafa gaman af góðu gríni að horfa á þættina. Heimskulegar spurningar, vandræðalegar þagnir og tíð mismæli einkenna þá og því ættu allir góðir húmoristar að skemmta sér yfir þeim.

Þættina má nálgast hér.

Ég er mjög forvitinn um hverjir standa að þessu gríni og leikarinn sem leikur Ólaf Hannesson á lof skilið fyrir frammistöðu sína. Á stundum fer hann hreinlega á kostum.

laugardagur, apríl 12, 2008

Feit lessa

Fyrir nokkru urðu ég og Hallgrímur Pétursson vinir á feisbúkk. Þegar hann addaði mér þá nennti ég ekki að skoða prófælinn hans því ég hélt að þetta væri aumt grín. Annað kom þó á daginn því Hallgrímur þessi er nokkuð skemmtilegur. Þeir sem skrifa á vegginn hans fá oft frábær svör í bundnu máli undir margvíslegum háttum. Einu sinni falaðist kona ein að nafni Guðrún Margrét eftir níðvísum frá honum og hann svaraði um hæl:

Guðrún Margrét, góð og fríð
gættu vel að þessu:
Aldrei myndi ég yrkja níð
um svo feita lessu.

fimmtudagur, apríl 10, 2008

Áróra

Þegar heiðskýrt er og ég er í vinnunni eru túristar duglegir að koma til mín og spyrja mig um norðurljósin. Þessar samræður eru nær undantekningarlaust afar heimskulegar. Rétt í þessu voru einar á þessa leið:

Túristi: Sjást norðurljósin í kvöld?

Ég: Kannski, ég veit það ekki.

Túristi: Hvernig er hægt að vita það?

Ég: Með því að horfa.

Túrist: Hvar get ég séð þau?

Ég: Á himninum.

Túristi: Hvar á himninum?

Ég: Aaaa, þarna uppi.

Auðmenn eða útlendingar?

Það kemur mér ekki á óvart að Viðar Guðjohnsen heldur varla vatni yfir mótmælum vörubílstjóranna. Mig rekur ekki minni til þess að hann hafi áður dásamað mótmæli, til dæmis friðar- og umhverfisverndarsinna.

Ef til vill finnst honum mótmæli friðar- og umhverfisverndarsinna leiðinleg. Enda eru þau skipulögð og friðsöm og alveg skýrt hverju er verið að mótmæla.

Mótmæli vörubílstjóranna eru hins vegar af allt öðrum toga. Þau eru óskipulögð, tilviljanakennd og einkennast af ringulreið. Í þeim felst einnig ákveðið ofbeldi, þó það sé ekki líkamlegt (enn sem komið er að minnsta kosti). Svo er líka erfitt að henda reiður á hverju virkilega er verið að mótmæla. Viðar er hins vegar ekki í nokkrum vafa um það (feitletranir eru mínar):

Á síðastliðnum árum er markvisst búið að strípa landið og erlendir sem innlendir auðmenn búnir að kaupa upp stóran hluta af náttúruauðlindum okkar. Auðmenn sem svífast einskis til þess að ræna af okkur auðlindum okkar, landinu okkar og svo að lokum frelsinu, þeir sem eru að veðsetja landið, þeir sem eru í óða önn að gera okkurþrælaþjóð.


Og svo á öðrum stað:

Þessi ummæli ráðamanna þjóðarinnar um að bílstjórarnir séu glæpamenn eru varla við hæfi þegar þessir sömu ráðamenn hafa gefið öll völd til auðmanna, auðmanna
sem nú eru í óða önn að ræna af okkur öllu því sem okkur er heilagt.


Notkun Viðars á persónufornöfnum er áhugaverð sem og orðanotkun hans almennt. Hann segir að einhver óskilgreindur hópur manna, “erlendir sem innlendir auðmenn”, séu að stela af þér landinu og frelsinu og ætli hvorki meira né minna en að hneppa þig í þrældóm. Og ekki nóg með það, þeir ætla að stela trúnni líka, öllu sem þér er heilagt.

Svona hræðsluáróður auðvitað vel þekkur, að æsa og espa fólk upp í að kenna einhverjum “öðrum” um allt sem miður fer og ef þú stendur ekki upp og verð þig með kjafti og klóm þá stela “þeir” ekki bara lífinu, heldur sálinni af þér á endanum.

Hitler pönkaðist á minnihlutahópum. Það má auðvitað segja að auðmenn séu minnihlutahópur. En hverjum á Viðar eftir að kenna um ef hér verður raunveruleg kreppa og fólk tapar eignum og atvinnu? Varla auðmönnum.

miðvikudagur, apríl 09, 2008

Stétt með stétt

Nýjustu fréttir herma að einhver leikarinn sé farinn að negla annan leikara.

Svona gæti önnur hver frétt á slúðurmiðlunum hafist. Það er með ólíkindum hversu margir leikarar sækja sér maka og bólfélaga í eigin stétt. Þetta er áhugaverð stúdía. Ég tel líklegustu ástæðuna vera athyglissýki. Enda þótt fræga fólkið kveinki sér undan áreyti þá elskar það athyglina sem það fær og bókstaflega þrífst á henni.

Verst er þegar tveir hollívúdd leikarar mæta saman á mannfagnaði þar sem er allt morandi í fjölmiðlafólki og segjast bara vera vinir.

Kennarar er önnur stétt sem leitar ekki langt yfir skammt í makavali og á mörgum kennarastofum má finna hjón og pör.

Af hverju ætli að þetta einhæfa munstur einkenni aðeins þessar stéttir? Eru ef til vill fleiri stéttir sem haga sér svona? Stjórnmálamenn?

Mér finnst þetta fyrirkomulag hið besta mál og vil sjá fleiri starfsstéttir tileinka sér þennan sið. Gaman væri til dæmis að sjá rafvirkja giftast í stórum stíl. Já og leigubílstjóra, kokka eða lögreglumenn.

fimmtudagur, apríl 03, 2008

Þegar ég negldi Betu

Í fyrradag dreymdi mig að ég ætti í kynferðissambandi við Elísabetu I.

Hún var ekkert lík Cate Blanchett.


 

Powered by Blogger