Og svo kom stríð og svo kom her. Og svo kom friður og enn meiri her. -Megas

sunnudagur, apríl 13, 2008

Góður húmor



Einhverjir grínistar tóku sig til nú í janúar og stofnuðu Jafnréttindafélag Íslands. Meintum félögum finnst frekar halla á karlpeninginn og telja að kyn sé aukaatriði í jafnréttisumræðunni.

Þegar þeir settu grínið fram réðu þeir greinilega leikara til að fara fyrir hópnum og heitir karakterinn Ólafur Hannesson og er leikarinn mjög sannfærandi í hlutverki sínu.

En grínistarnir létu ekki þar við sitja. Þeir héldu karakternum á lífi og nú er hann búinn að fá sinn eigin sjónvarpsþátt á hinni virtu stöð ÍNN ásamt því að halda úti bloggsíðu.

Bloggið er frábært en sérstaklega mæli ég með sjónvarpsþættinum sem ber nafnið Óli á Hrauni. Í fyrsta þættinum plötuðu grínistarnir Sigurð Kára og Sóleyju Tómasdóttur upp úr skónum og þau mættu í sjónvarpssal og sátu fyrir svörum hjá Ólafi. Annar þátturinn er gullmoli því í honum er uppáhalds vitleysingurinn minn, Viðar Guðjohnsen ásamt Einari Skúlasyni. Ég verð nú að viðurkenna að ég vorkenndi greyjinu honum Einari því hann er svo góður drengur og ljótt að stríða honum með því að plata hann í grínþátt undir fölskum forsendum.

Ég hvet alla þá sem hafa gaman af góðu gríni að horfa á þættina. Heimskulegar spurningar, vandræðalegar þagnir og tíð mismæli einkenna þá og því ættu allir góðir húmoristar að skemmta sér yfir þeim.

Þættina má nálgast hér.

Ég er mjög forvitinn um hverjir standa að þessu gríni og leikarinn sem leikur Ólaf Hannesson á lof skilið fyrir frammistöðu sína. Á stundum fer hann hreinlega á kostum.

1 Comments:

  • Aumingja Einar. Þetta hefur tekið á.

    By Anonymous Nafnlaus, at 10:14 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home


 

Powered by Blogger