Og svo kom stríð og svo kom her. Og svo kom friður og enn meiri her. -Megas

miðvikudagur, október 31, 2007

Róninn og ég

Ég er kominn í viku frí! Jibbí. Labbaði niður Laugarveginn eins og venjulega en óvenju glaður í bragði. Mætir mér ekki róninn sem ég bloggaði um. Hann spyr mig hvort ég eigi sígarettu. Ég játti því og tók fimm eða sex sígarettur úr pakkanum og rétti honum. Þegar ég horfði framan í hann sá ég að hann skalf og titraði, jafnt af kulda sem þynnku. Ég heyrði glamrið í tönnum hans. Ég spurði hann hvort hann vildi ekki smá aur og það birti yfir honum. Við gengum að hraðbankanum og ég tók út fimmhundruð kall og gaf honum. Hann tjáði mér að ég væri góður maður. Ég vissi nú svo sem að ég væri alla vega ekki skíthæll. Því næst horfði ég á eftir honum upp Laugarveginn. Þegar ég kom inn í upphitað herbergið mitt, það sem kynda tveir ofnar, settist í mjúkan sófann og blastaði Megas í i-podnum, fékk ég samviskubit. Ég hefði nú alla vega getað boðið honum inn í hálftíma eða svo. Gefið honum einn bjór og leyft honum að ylja sér. Nagaður af samviskubiti fór ég að taka til svo ég myndi ekki fá fleiri viðbjóðslegar glósur frá meðleigjendum mínum, eins og þá sem ég lýsti í síðustu færslu. Fór í náttbuxurnar og hellti upp á kaffi.

Um það bil þrem korterum síðar fór ég út á svalir að reykja. Hvað sé ég nema rónann gangandi hægum, en þó beinum skrefum niður Laugarveginn. Greinilega ekki búinn að fá sér afréttarann. Ég hóaði á hann og benti honum á útidyrahurðina fyrir neðan, gekk niður stigann og opnaði fyrir kauða, beindi honum upp spurði hvort hann vildi ekki ylja sér aðeins. Hann elti mig upp tvístígandi. Vissi greinilega ekki hvað hann ætti að halda. Þegar hann sá mig fyrr um morguninn var ég íklæddur jakkafötum með skólatösku á bakinu rétt eins og mormóni í trúboði. Hann hélt greinilega að Guðs maður hefði gefið honum aur fyrr um morguninn. En nú blasti við honum kærulaus fátækur námsmaður í náttfötunum með kaffibolla í hendi og sígarettu í kjaftinum. Þegar við komum upp bauð ég honum sæti og spurði hvort hann vildi eitthvað að drekka. Hann spurði mig þá flóttalegur hvort hann mætti blanda sér í glas og spurði hvar vaskurinn væri. Ég benti honum inn í eldhús og þar tók hann upp kókbrúsa og sótthreinsunarspritt. Hellti obbanum af kókinu í vaskinn og blandaði helmingnum af 100 ml flöskunni ofan í. Því næst sagði hann að það væri mér að þakka að hann myndi hætta að vera veikur innan skamms. Ekki gat ég tekið undir þá fullyrðingu enda þótt honum myndi eflaust líða aðeins betur og sprittið slá á skjálftann. Eftir fimm mínútur sá ég líf í augum hans sem áður voru glær og tóm. Ég spurði hann í hörgul út í líf heimilislausa ógæfumannsins í Reykjavík og hann svaraði mér samviskusamlega. Til að öðlast betur traust hans fékk ég mér bjór honum til samlætis. Ekki fannst það mér verra. Hann sagði mér að hann fengi inni í gistiskýlinu við Þingholtsstræti en að þeim væri hent út klukkan átta á morgnana. Þó væri þeim sem væru verst á sig komnir boðið að vera uppi í sjónvarpsherbergi aðeins lengur. Hann tjáði mér að þar vildi hann ekki vera. Líkurnar á barsmíðum væru of miklar auk þess sem líkamlegt ástand hans væri svo slæmt að það biði ekki boðanna að redda sér afréttara. Hann hafði gengið niður Þingholtsstræðið og upp Bankastræti með hundraðogfimmtíu kall í vasanum vitandi það að sprittbrúsinn kostaði fjögurhundruðogfimmtíukall. Þá rakst hann á mig.

Þegar sprittið var komið inn í meltingafærin hætti skjálftinn og losnaði um málbeinið. Í ljós kom að maðurinn var vel að máli farinn og hinn skemmtilegsti í samræðum. Frá því ég sá hann fyrst hafði mér ekki fundist hann vera rónalegur. Bara maður sem hafði farið út af sporinu um stundarsakir. Þó hafði hann verið á götunni meira og minna allt sitt líf en átt sína góðu spretti. Hann spurði mig hvort hann mætti hringja hjá mér og ég rétti honum símann. Þá spurði hann mig hvort ég gæti flétt upp númerinu hjá Vogi og Hlaðgerðarkoti í símaskránni sem ég og gerði. Hann hringdi á báða staðina og staðfesti umsókn sína. Þá sagði hann mér að maður þyrfti að hringja reglulega, annars færi maður neðst á biðlistan. Þetta minnti mig á umsókn mína á stúdentagörðunum. Það er ekki sömu að jafna.

Nú varð hann allur hressari og við tók sögustund. Ég undi mér ekki illa. Ég heyrði vel slípaðar yfirborðslegar sögur sem höfðu verið sagðar þúsund sinnum áður. Það var sagt frá frægum Íslendingum í neyslu, erlendum rokkstjörnum sem hann hafði djammað með, skemmtilegum fylleríissögum, félögum sem fallið höfðu í stríðinu við Bakkus og þar fram eftir götunum. Það sem vakti athygli mína var þó það sem ekki var sagt. Ég sá að í þessum fallega, góðlega, manni að þarna var stærri saga, miklu stærri saga. Hann sagði mér fyrr um morgunuinn að hann væri heiðarlegasti róninn á Íslandi. Hann stæli aldrei og þegar örorkubæturnar (sem eru um 90.000 kr.) kæmu um hver mánaðarmót þá væri það fyrsta sem hann gerði að borga sínar skuldir við félagana, Mónakó (Casino Bar) og bankann. Þá er nú lítið eftir. Til að kanna heiðarleika hans gerði ég smá tilraun. Ég setti veskið mitt með öllum kortunum á borðið ásamt sígarettupakka með fjórtán rettum í. Aukinheldur var fartölva og margt annað verðmætt inni í hergerginu. Sagðist síðan þurfa að skíta og afsakaði mig á klósettið. Ég fór inn á klósett en skeit hvorki né meig. Ég fylgdist með ganginum úr skráargatinu í góðar fimm mínútur. Þegar ég kom til baka inn í herbergið spurði hann mig með föðurlegum svip hvort mér væri nokkuð illt í maganum. Ég neitaði og bauð honum sígó. Ég taldi og þrettán voru eftir. Þetta var heiðarlegur róni eins og mig grunaði.

Í ljós kom að við áttum margt sameignlegt. Við erum báðir einfarar, höfum sama smekk á tónlist og höfum svipuð samfélagsviðhorf. Ég hafði eignast nýjan vin. Systkini hans höfðu snúið við hann bakinu. Þau voru öll vel stæð, lögfræðingar og bankastarfsmenn. Hann gekk eitt sinn nokkur póstnúmer á enda til að biðja eitt af vel stæðum systkinum sínum um fimmhundruð kall. Hurðinni var skell framan í hann. Nú í nevember á hann stórafmæli. Hann verður fimmtugur. Hann sagði mér að einn vinur hans hefði áhyggjur af því að hann myndi ekki tóra til afmælisins. Ég deili þeim áhyggjum með vininum miðað við líkamlegt ástand rónans í morgun. Ég ætla að hafa dyr mínar opnar fyrir rónanum. Ef hann vill koma inn í hlýjuna og leggja sig í sófanum mínum þá er það honum velkomið. Ég vil ekki hafa það á samvisku minni að hann frjósi í hel á götunni.

Við spjölluðum saman í rúma tvo tíma og þá kom spurningin. Hún var öðruvísi tónuð en þegar hann spurði mig um hundrað kall fyrir rúmum sólahring og svo sígarettu nokkrum tímum fyrr. Nú var hann ekki að spyrja votta eða mormóna um gjöf. Nú var hann að biðja mann sem hann hafði fest sinn trúnað á um styrk. Hann bað bara um pening fyrir einum sprittbrúsa í viðbót. Ég klæddi mig úr náttfötunum og fór í gallabuxur og peysu. Því næst fór ég með hann út í Vísi og spurði hvað hann reykti. Hann reykti Marlborough rauðan. Keypti einn pakka af þeim, lét taka þúsundkall yfir og gaf honum. Hann spurði mig af hverju ég væri svo góður við hann. Ég spurði hann á móti af hverju hann væri svo góður við mig.

Róninn klæðist þunnum jakka og flís-peysu. Ég ætla að fara í heildsöluna þar sem mamma vinnur og kaupa handa honum þykka úlpu og gefa honum í snemmbúna afmælisgjöf.
Því næst kvöddumst við. Nú finnst mér ég knúinn til þess að fá mér diktafón og fá þennan vin minn í heimsókn sem oftast og skrá sögu hans.

þriðjudagur, október 30, 2007

Nostalgía

Ætli húsið geti látið sig dreyma? Ætli það fái martaðir?

Hús hafa sál! Herbergi hafa sál!

Kaffistofan í Árnagarði var svipt sálinni! Viðbjóðsega ljótum bólstruðum bekkjum, grænum eins og gubb, var skipt út fyrir sótthreinsaða skurðsofu, hvíta eins og Hörpu-Sjafnar (Flugger) málningu með gljástig 80%.

Þó gamla kaffistofan hafi verið ljót þá hafði hún sál. Rétt eins og gamla sjóðsvélin með sinn klingjandi áslátt. Nú er þar hljóðlaus tölva sem tekur á móti aurunum mínum.

Einu sinni fórum við í bað og ferðuðumst til Balí.

Djöfull hefði ég verið með mikla standpínu í því baði.

Samt finnst mér rigningin ekkert góð.

mánudagur, október 29, 2007

My own fucking shit!

Í gær vaknaði ég við það að einhver bankaði á dyrnar. Ég stóð upp, nuddaði stýrurnar úr augunum og opnaði. Meðleigjandi minn, lettnesk kona, var í einhverjum vandræðum með tölvuna sína. Ég bauð henni innfyrir og hún settist í sófann. Ég sagði henni að setja tölvuna á borðið meðan ég tók af því tómar bjórdósir og bækur. Þá spurði hún mig: "Gúnar, why you not have girlfriend to clean your room?" Ég fann hvernig blóðið streymdi upp í haus svo enni og kinnar roðnuðu. Mig langaði að lesa yfir hausamótunum á henni sögu jafnréttisbaráttunnar á Íslandi og um staðlaðar kynjahugmyndir. Þess í stað dró ég andann djúpt, setti upp tilgerðarlegt bros og svaraði: "I have many girlfriends, but I clean upp my own fucking shit".

sunnudagur, október 28, 2007

Kynslóðabil

Í gærkvöldi benti samstarfskona mín (sem er n.b. einni og hálfri kynskóð eldri en ég) á risa stóran flakkara og spurði:

Er þetta þinn i-pod?

Það er korters gangur frá Norðurmýri niðrá Lækjartorg

Mætti róna áðan á leiðinni heim úr vinnunni, klukkan átta á sunnudagsmorgni. Okkar samskipti fóru þannig fram:

Róni: Fyrirgefðu en geturðu nokkuð gefið mér hundraðkall?
Ég: Fálma eftir aur í öllum vösum. Nei, því miður ég er bara með kort.
Róni: Horfir á mig dapur. Það er svo erfitt að vera róni í Reykjavík nú til dags. Ég þyrfti helst að fá mér posa. Það eru allir bara með kort.
Ég: Enn með hendur í vösum að leita að aur. Reykirðu?
Róni: Já.
Ég: Viltu Marlboraough Lights?
Róni: Já, endilega!

Ég rétti honum hálfan sígarettupakkann og hélt áfram göngu minni niður Laugaveginn. Nokkrum andartökum síðar fatta ég að það er hraðbanki hinum meginn við götuna. Ég leit við og róninn var horfinn. Beygði líklega upp Klapparstíginn. Ég nennti ekki að hlaupa á eftir honum. Enda var ég að fara að stunda minn eigin rónaskap. Fór heim, fékk mér einn bjór fyrir svefninn og bloggaði um samskipti mín við rónann.

Ég og Dóri B.

Ég hélt að ég og Halldór Blöndal ættum ekkert sameiginlegt (fyrir utan áhuga á skák) þegar ég rakst á pistil eftir hann í Mogganum í morgun undir yfirskriftinni Rjúpnaveiðar eru tímaskekkja. Mig rak í rogastans. Eða alveg þangað til hann byrjaði að pönkast á máfinum. Við erum þá svona líka ólíkir eftir allt saman.

föstudagur, október 26, 2007

Mjöööööög áhuavert!!!!!

Var að láta mér leiðast í vinnunni áðan og ákvað að fara á Wikipedíu og flétta upp frægum Dönum. Hvern sé ég annan þar en Leif den Lykkelige! Danir eru búnir að eigna sér Leif heppna! Hvað er að gerast? Hvílík ósvífni!

Drullist þið í heimsókn til mín! - 10 góðar ástæður fyrir því að þú ættir að koma í heimsókn til mín:

  1. Hjá mér þarftu aldrei að fara úr skónum.
  2. Hjá mér er alltaf til kaldur bjór.
  3. Hjá mér er yfirleitt til rauðvín.
  4. Ef þú ert of full/ur til að komast heim til þín úr bænum eða þá að leigubílaröðin er of löng þá er lítill sætur svefnsófi hjá mér sem bíður eftir því að þú hvílir lúin og drukkin bein á.
  5. Þegar þú vaknar þunn/ur daginn eftir og vilt þynnkumat, kaffi eða afréttara þá eru tólf skref á Kofann og sautján skref á Prikið.
  6. Ég á ekki sjónvarp svo að heima hjá mér fara einungis fram (mis)málefnalegar umræður um heimsmálin og bókmenntir.
  7. Ég á flottustu og stærstu svalir á Íslandi.
  8. Ég er snilldar kokkur og alltaf til í að bjóða þér mat.
  9. Hjá mér máttu alltaf fá lánaðar þær bækur sem þú vilt og engar sektargreiðslur eru eftir síðasta skiladag. Skiladagur er í flestum tilvikum einhvern tímann eftir eilífðarnón.
  10. Ég er svo fokking sætur og skemmtilegur.

fimmtudagur, október 25, 2007

The Passanger

Í gærkvöldi þegar ró var komin yfir hótelið blasti við mér löng nótt. Ekkert að gera í níu tíma nema horfa upp í loftið. Ég bölvaði sjálfum mér í hljóði fyrir að hafa ekki komið með skólatöskuna mína því ég hafði ekkert að lesa og var búinn með bloggrúntinn minn. Jæja, fór niður í kjallara og fékk mér mátulega þunnt kaffi. Á leiðinni til baka í móttökuna sá ég ræstingarvagn og í neðstu hillunni glitti í kilju sem vakti forvitni mína.

Einhver gestur hafði greinilega gleymt spánýju eintaki af Farþeganum eftir þá Árna Þórarinsson og Pál Kristinn Pálsson. Það er skemmst frá því að segja að ég lagði bókina vart frá mér í nótt og undir morgun kláraði ég hana. Þarna er hörku krimmi á ferð.

Bókin sækir efni sitt í íslenskan raunveruleika samtímans og er alls ekki ótrúverðug. Einnig er persónunsköpun stillt í hóf og persónurnar eru trúverðugar. Höfundar brjóta upp hefðina með einkennum söguhetjunnar. Rannsakandinn í þessum krimma er hvorki drykkfelldur rannsóknarlögreglumaður með óbilandi sjálfseyðingarhvöt, né drykkfelldur blaðamaður með óbilandi sjálfseyðingarhvöt, og þaðan af síður drykkfelldur lesbískur lögfræðingur með annarlegar kenndir. Söguhetjan er gjaldþrota þrítugur strákur sem er jarðbundinn draumóramaður, svolítill lúði, áhugamaður um sagnfræði og heimspeki og smakkar varla áfengi. Það sem gerir hann áhugaverðan sem rannsakanda er það að hann er alls ekki góður sem slíkur þó hann þroskist í því hlutverki. Afar áhugaverð persóna sem lætur lítið fyrir sér fara.

Helsti kostur bókarinnar er stíllinn, samtölin eru lifandi og auðlesin auk þess hve lágstemmd sagan er. Höfundar missa sig hvorki í hollívúdd-drama né lýsingum á óraunhæfum atburðum sem geta aðeins átt sér stað í milljónaborgum. Þetta er knöpp Reykjarvíkursaga.

Persónusköpunin er áhugaverð fyrir tilstilli söguhetjunnar en einnig er annar spennandi karakter í bókinni, trúaður lögreglumaður sem er einhverskonar Geir Jón nema hvað hann hefur gáfur. Aðrar persónur standa ekki sérstaklega uppúr en engin persóna er, eins og áður sagði, óraunveruleg og virkilega óáhugaverð. Þó er skondið að skoða útlitslýsingu á Einari blaðamanni sem svipar ekki lítið til Árna sjálfs, sem er jú blaðamaður.

Vankantar á verkinu eru þó nokkrir, og þá helst til einstaka atriði sem fara í taugarnar á mér eins og tungutak fólksins sem er á mínum aldri, en fléttan er fyrirsjánleg þó hún sé vel upp byggð en fyrir það bæta höfundar með einkar skemmtilegu antiklímaxi. Semsagt, á heildina litið hinn fínasti krimmi.

Að lokum vil ég bæta við að mér finnst skemmtilegt að bókin skuli bera nafnið Farþeginn í ljósi þess að þeir krimmar sem Árni skrifar einn bera nöfn dægurlaga frá sjöunda áratugnum en The Passanger er einmitt nafn á lagi eftir Iggi Pop, þó frá öðrum áratug. Líklegast er það tilviljun. Þó tónlist skipi ekki stóran sess í Farþeganum þá er skemmtilegt stef í henni, lagið Don’t You Lie to Me eftir Chuck Berry sem var einnig kóverað af The Rolling Stones.

Uppáhalds bók mín eftir árna Árna er þó Hvíta kanínan, en það er nú bara vegna þess að ég elska Lísu í undralandi, hvers kyns sýrutripp og Jefferson Airplane.

laugardagur, október 20, 2007

Yndislegur morgunn - þynnkan í prósa - engin lifrarbólga

Vaknaði í morgun í fósturstellingunni uppi í sófa í öllum fötunum sem er óskiljanlegt því rúmið mitt er um það bil 25 cm frá sófanum sem er nota bene örsófi. Fór fram og hitaði ofninn og setti í hann afganginn af pítsunni sem ég eldaði fyrir Ingu á fimmtudaginn. Á pítsuna setti ég lauk, hvítlauk, hvítkál, brokkólí, gulrætur og ost. Mæli með þessari blöndu. Að sjálfsögðu fékk ég mér svo einn bjór með pítsunni svona rétt til að losna við broddinn af þynnkunni. Svo fór ég í heita sturtu og velti því fyrir mér meðan vatnið streymdi niður bakið hvort ég ætti að raka mig eða ekki. Ég ákvað að raka mig ekki. Hélt síðan niður Bankastrætið og kom við á Kaffitári og lap latté með vampýrum. Síðan lá leið mín í Kolaportið þar sem ég gerði snilldarkaup. Keypti nokkrar bækur, þar á meðal Kvennafræðarann sem ég fékk á fimmtíu kall! Verslaði svo ljóta lopapeysu sem er samt asnalega flott á sjöhundruð krónur. SJÖ HUNDRUÐ KRÓNUR. Fékk mér meira kaffi og ráfaði um þar til ég sá viðbjóðslega ljóta gömlukerlinga-eyrnalokka hjá Tælendingunum og keypti þá af sjálfsögðu og ætla að vera með lokkinn í eyranu fram á manudagskvöld. Lokkarnir eru auðvitað einungis seldir í pörum og því óska ég eftir eyrnalokka vin/vinkonu sem hefur áhuga á að afbyggja sjálfið með því að byggja utan á sig viðbjóðslegt glingur. Því næst fór ég í Ríkið og verslaði mér bjór en gleymdi auðvitað að kaupa rauðvínið sem var tilgangur ferðarinnar. Á leiðinni til baka hitti ég fyrir Lalla Johns og rónagengið hans og gaf þeim fimmhundruð kall. Þau ætluðu að kyssa mig en ég afþakkaði kossinn og slapp þar með við að sýkjast af lifrarbólfu C. Því næst fór ég heim að blogga.

Speki dagsins

Fjöldamorð eru merkingarlaus nema fjórir séu drepnir í Ohio.

fimmtudagur, október 18, 2007

Æludagbók; þriðja færsla!

Nei! Þessi færsla verður ekki um uppköst, enda þótt hún gæti hafa orðið það því uppseljurnar urðu fleiri, miklu fleiri.

Nú er ég búinn að koma þessu frá mér og hér verður ekki bloggað meira um gubb fyrr en eftir næsta fyllerí.

Búinn að fá tvær nýjar ljóðabækur í hendurnar. Annars vegar Blótgælur Kristínar Svövu Tómasdóttur sem er vægast sagt snilldarleg í alla staði og hins vegar Þjónn það er Fönix í öskubakkanum mínum! eftir Eirík Örn Norðdahl.

Verður nú mikill ljóðalestur framundan.

þriðjudagur, október 16, 2007

Enn af ælu

Ég er þunnur. Já þú last rétt. Ég er að drepast úr þynnku nú á þriðjudagskvöldi. Þegar ég vaknaði seint í gærkvöldi ákvað ég að fá mér bjór og fagna því að nú væri ég kominn í viku frí. Það er skemmst frá því að segja að bjórarnir urðu alltof margir og þegar ég fór að sofa í morgun var ég orðinn sótölvaður.

Þegar ég vaknaði svo um sexleytið í kvöld ákvað ég að fara í göngutúr og ná úr mér þynnkunni. Ég gekk niður Bankastætið og náði um það bil tuttugu skrefum áður en ég vatt mér inn á hliðargötu og upp úr mér stóð spýjan. Tók nokkur skref í viðbót og ældi aftur. Ágætis byrjun.

Og hvað gerir maður þegar maður er að drepast úr þynnku? Kaldur sviti rennur niður bak og snjóhvítt enni. Jú, maður fer á tólf tíma aukavakt.

Ég er svo mikill auli.

sunnudagur, október 14, 2007

Úr annars iðrum

Um ellefuleytið í gærkvöldi sé ég að maður, nokkuð kenndur, gengur jafnvægissnauður út af veitingastað, sem er í sama húsi og hótelið sem ég vinn á, og á eftir honum hleypur þjónn með fötu. Mig grunaði hvað væri í vændum. Nokkru síðar kemur maðurinn af salerninu með blóðhleypt augun og hverfur aftur inn á veitingastaðinn. Þjónninn birtist í dyragættinni, brosir til mín og hristir höfuðið.

Þau voru þung skrefin sem ég steig inn á salernið til að skoða verksummerkin. Varlega greip ég um kaldan hurðarhúninn, sneri og opnaði dyrnar. Vit mín fylltust af ólykt og um stund kúgaðist ég. Fyrsta hugsun sem skaust upp í huga minn var sú að nú skyldi ég gleyma tilvist þessa atviks og láta þá sem sjá um ræstingar á hótelinu um höfuðverkinn.

Í fyrra skiptið þessa næturvakt knúði samviskan dyra.

Ég lét heitt vatn renna í fötu, bætti við sápu, setti upp hanskana og tók með mér moppuna. Þegar ég kom að salerninu dró ég andann djúpt, lauk upp hurðinni og hófst handa. Í fyrstu atrennu náði ég fimmtán sekúndum áður en lungun heimtuðu súrefni. Atrennurnar reyndust níu, hver lengri en sú á undan gekk.

Þegar svo salernið var orðið hreint, þreif ég hendurar upp að olnbogum, hellti upp á tvöfaldan espresso, kveikti mér í sígarettu og fyllti lungun af reyk. Ég fann fyrir doða í höndum og fótum og vellíðunartilfinning heltók mig.

Um hálftíma síðar birtist þjónninn aftur í dyrunum, snýr sér hálfhring og gengur að afgreiðsluborðinu þar sem ég sit og ræð laugardagskrossgátuna í Lesbókinni. Hann heldur á bakka í annarri hendi. Á honum er svo jökulkaldur bjór að vatnstaumarnir renna stríðum straumum niður hélað glasið og svo barmafullt stupglas þar að auki. Hann þakkar mér fyrir liðlegheitin varðandi þrifin og biður mig vel að lifa. Bros færðist yfir edrú andlit mitt.

Í síðara skiptið þessa vakt knúði samviskan dyra.

Mér fannst ég ekki geta verið undir áhrifum í vinnunni. Ég tók lítinn sopa af bjórnum, svona rétt til að finna bragðið og hellti honum í vaskinn. Staupið setti ég inn í ísskáp þar sem það bíður þess að ég helli því í mig að vakt lokinni. Vaktaskipti verða eftir tólf mínútur, nú á sunnudagsmorgni.

Trillusjómaður og sauðfjárbóndi

37 ára Tælendingur trillusjómaður á Bakkafirði og Pólverji orðinn sauðfjárbóndi við Bakkaflóa.

Afskaplega er gaman að heyra fréttir af því að samlögun innflytjenda og eldri Íslendinga gengur vel. Einnig gaman að heyra að nýbúar stundi aðra atvinnu en verkamannavinnu og ræstingar.

laugardagur, október 13, 2007

Colorless green ideas sleep furiously

Mér finnst alltaf jafn merkilegt að Chomsky sé eini núlifandi einstaklingurinn á topp 10 listanum yfir þá sem vitnað er mest í. En þeir eru eftirfarandi:

1. Marx
2. Lenín
3. Shakespeare
4. Aristóteles
5. Biblían
6. Plató
7. Freud
8. Chomsky
9. Hegel
10.Cicero

Það er reyndar liðinn svolítið langur tími síðan þessi rannsókn var framkvæmd, kannski að röðin sé önnur í dag?

Hvað er annars að frétta af fyrirhugaðri Íslandsheimsókn Chomskys? Var þetta bara eitthvert bull allt saman?

fimmtudagur, október 11, 2007

Nóbelinn

Enn berast mér góðar fréttir. Feministinn Doris Lessing fékk nóbelinn. Hún er elsti verðlaunahafinn í bókmenntum og næst elst allra sem hafa fengið nóbelsverðlaun. Hún er bresk en fædd í Íran 1919.

Fokking snilld!!!

Djöfull á gamli vondi Villi (þessi útgáfa stuðlar líka) eftir að naga sig í handarbökin eftir þessa vitleysu. Sögulegur dagur og bjart framundan í henni Reykjavík.

miðvikudagur, október 10, 2007

Fluttur

Þá er maður loksins fluttur. Bankastræti er staðurinn.

Það að setja saman IKEA-húsgögn er dauði og djöfull, jafnvel fyrir jafn vanan mann og mig. Svo stendur í leiðbeiningunum að það megi ekki nota hleðsluborvél við samsetninguna. Á þá fólk að vera marga daga að setja saman einn helvítis skáp? Auðvitað notar maður hleðsluborvél. Annað er ekki mönnum bjóðandi.

Keypti mér bókahillu í Rúmfatalagernum og auðvitað var hún gölluð. Að sjálfsögðu! Og svo þegar ég fer að skila gallaða hlutnum verður varan búin. Því skal ég lofa ykkur.

þriðjudagur, október 09, 2007

Hugmynd endurvakin

Þetta póstaði ég fyrir röskum þremur árum:

Boyband
Ég er staðráðinn í að ganga í boyband.

Fjórir léttklæddir drengir, hver með sinn karakter. Dagur Snær nær til unga fólksins og leggur áherslu á mennta- og velferðarmál; Himmi nýtur mikillar kvenhylli með einlægninni og anarkistahugsjóninni; Arngrímur verður svona "posh-spice" og textarnir hans verða dýpri og hafa þrengri skírskotun en okkar hinna og sjálfur mun ég leggja áherslu á alþjóðamál í mínum stíl(með sérstöku tilliti til þriðja heimsins).

Sverrir Jak verður svo að sjálfsögðu heilinn á bak við þetta allt saman og við munum ávallt kalla hann pabba. Og svo verða gerðir "sjónvarpsþætti[r] um ferðir [okkar] í Kringluna og Bláa lónið og annað sem á brýnt erindi við landsmenn".

Svo segir fólk að vinstrimenn séu þurrir og leiðinlegir.


Hvað segið þið strákar. Til í það?

mánudagur, október 08, 2007

Níu af tíu

Sá tíu myndir á kvikmyndahátíðinni á fjórum dögum. Það er ágætt. Aðeins ein slæm mynd og níu góðar. Það segir mikið til um gæði hátíðarinnar.


 

Powered by Blogger