Og svo kom stríð og svo kom her. Og svo kom friður og enn meiri her. -Megas

sunnudagur, október 14, 2007

Úr annars iðrum

Um ellefuleytið í gærkvöldi sé ég að maður, nokkuð kenndur, gengur jafnvægissnauður út af veitingastað, sem er í sama húsi og hótelið sem ég vinn á, og á eftir honum hleypur þjónn með fötu. Mig grunaði hvað væri í vændum. Nokkru síðar kemur maðurinn af salerninu með blóðhleypt augun og hverfur aftur inn á veitingastaðinn. Þjónninn birtist í dyragættinni, brosir til mín og hristir höfuðið.

Þau voru þung skrefin sem ég steig inn á salernið til að skoða verksummerkin. Varlega greip ég um kaldan hurðarhúninn, sneri og opnaði dyrnar. Vit mín fylltust af ólykt og um stund kúgaðist ég. Fyrsta hugsun sem skaust upp í huga minn var sú að nú skyldi ég gleyma tilvist þessa atviks og láta þá sem sjá um ræstingar á hótelinu um höfuðverkinn.

Í fyrra skiptið þessa næturvakt knúði samviskan dyra.

Ég lét heitt vatn renna í fötu, bætti við sápu, setti upp hanskana og tók með mér moppuna. Þegar ég kom að salerninu dró ég andann djúpt, lauk upp hurðinni og hófst handa. Í fyrstu atrennu náði ég fimmtán sekúndum áður en lungun heimtuðu súrefni. Atrennurnar reyndust níu, hver lengri en sú á undan gekk.

Þegar svo salernið var orðið hreint, þreif ég hendurar upp að olnbogum, hellti upp á tvöfaldan espresso, kveikti mér í sígarettu og fyllti lungun af reyk. Ég fann fyrir doða í höndum og fótum og vellíðunartilfinning heltók mig.

Um hálftíma síðar birtist þjónninn aftur í dyrunum, snýr sér hálfhring og gengur að afgreiðsluborðinu þar sem ég sit og ræð laugardagskrossgátuna í Lesbókinni. Hann heldur á bakka í annarri hendi. Á honum er svo jökulkaldur bjór að vatnstaumarnir renna stríðum straumum niður hélað glasið og svo barmafullt stupglas þar að auki. Hann þakkar mér fyrir liðlegheitin varðandi þrifin og biður mig vel að lifa. Bros færðist yfir edrú andlit mitt.

Í síðara skiptið þessa vakt knúði samviskan dyra.

Mér fannst ég ekki geta verið undir áhrifum í vinnunni. Ég tók lítinn sopa af bjórnum, svona rétt til að finna bragðið og hellti honum í vaskinn. Staupið setti ég inn í ísskáp þar sem það bíður þess að ég helli því í mig að vakt lokinni. Vaktaskipti verða eftir tólf mínútur, nú á sunnudagsmorgni.

3 Comments:

  • Ég er stolt af þér. Hefði ekki getað þrifið þetta sjálf.

    By Anonymous Nafnlaus, at 5:26 e.h.  

  • ja það er enginn smá dugnaður. Þetta hefur ekki verið skemmtilegt. En eg er stolt af þer lika eins og systir þin :) og hlakka til að koma i heimsókn í nýju íbúðina.

    By Anonymous Nafnlaus, at 8:22 e.h.  

  • Ég hefði drukkið bjórinn

    By Anonymous Nafnlaus, at 9:33 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home


 

Powered by Blogger