Róninn og ég
Ég er kominn í viku frí! Jibbí. Labbaði niður Laugarveginn eins og venjulega en óvenju glaður í bragði. Mætir mér ekki róninn sem ég bloggaði um. Hann spyr mig hvort ég eigi sígarettu. Ég játti því og tók fimm eða sex sígarettur úr pakkanum og rétti honum. Þegar ég horfði framan í hann sá ég að hann skalf og titraði, jafnt af kulda sem þynnku. Ég heyrði glamrið í tönnum hans. Ég spurði hann hvort hann vildi ekki smá aur og það birti yfir honum. Við gengum að hraðbankanum og ég tók út fimmhundruð kall og gaf honum. Hann tjáði mér að ég væri góður maður. Ég vissi nú svo sem að ég væri alla vega ekki skíthæll. Því næst horfði ég á eftir honum upp Laugarveginn. Þegar ég kom inn í upphitað herbergið mitt, það sem kynda tveir ofnar, settist í mjúkan sófann og blastaði Megas í i-podnum, fékk ég samviskubit. Ég hefði nú alla vega getað boðið honum inn í hálftíma eða svo. Gefið honum einn bjór og leyft honum að ylja sér. Nagaður af samviskubiti fór ég að taka til svo ég myndi ekki fá fleiri viðbjóðslegar glósur frá meðleigjendum mínum, eins og þá sem ég lýsti í síðustu færslu. Fór í náttbuxurnar og hellti upp á kaffi.
Um það bil þrem korterum síðar fór ég út á svalir að reykja. Hvað sé ég nema rónann gangandi hægum, en þó beinum skrefum niður Laugarveginn. Greinilega ekki búinn að fá sér afréttarann. Ég hóaði á hann og benti honum á útidyrahurðina fyrir neðan, gekk niður stigann og opnaði fyrir kauða, beindi honum upp spurði hvort hann vildi ekki ylja sér aðeins. Hann elti mig upp tvístígandi. Vissi greinilega ekki hvað hann ætti að halda. Þegar hann sá mig fyrr um morguninn var ég íklæddur jakkafötum með skólatösku á bakinu rétt eins og mormóni í trúboði. Hann hélt greinilega að Guðs maður hefði gefið honum aur fyrr um morguninn. En nú blasti við honum kærulaus fátækur námsmaður í náttfötunum með kaffibolla í hendi og sígarettu í kjaftinum. Þegar við komum upp bauð ég honum sæti og spurði hvort hann vildi eitthvað að drekka. Hann spurði mig þá flóttalegur hvort hann mætti blanda sér í glas og spurði hvar vaskurinn væri. Ég benti honum inn í eldhús og þar tók hann upp kókbrúsa og sótthreinsunarspritt. Hellti obbanum af kókinu í vaskinn og blandaði helmingnum af 100 ml flöskunni ofan í. Því næst sagði hann að það væri mér að þakka að hann myndi hætta að vera veikur innan skamms. Ekki gat ég tekið undir þá fullyrðingu enda þótt honum myndi eflaust líða aðeins betur og sprittið slá á skjálftann. Eftir fimm mínútur sá ég líf í augum hans sem áður voru glær og tóm. Ég spurði hann í hörgul út í líf heimilislausa ógæfumannsins í Reykjavík og hann svaraði mér samviskusamlega. Til að öðlast betur traust hans fékk ég mér bjór honum til samlætis. Ekki fannst það mér verra. Hann sagði mér að hann fengi inni í gistiskýlinu við Þingholtsstræti en að þeim væri hent út klukkan átta á morgnana. Þó væri þeim sem væru verst á sig komnir boðið að vera uppi í sjónvarpsherbergi aðeins lengur. Hann tjáði mér að þar vildi hann ekki vera. Líkurnar á barsmíðum væru of miklar auk þess sem líkamlegt ástand hans væri svo slæmt að það biði ekki boðanna að redda sér afréttara. Hann hafði gengið niður Þingholtsstræðið og upp Bankastræti með hundraðogfimmtíu kall í vasanum vitandi það að sprittbrúsinn kostaði fjögurhundruðogfimmtíukall. Þá rakst hann á mig.
Þegar sprittið var komið inn í meltingafærin hætti skjálftinn og losnaði um málbeinið. Í ljós kom að maðurinn var vel að máli farinn og hinn skemmtilegsti í samræðum. Frá því ég sá hann fyrst hafði mér ekki fundist hann vera rónalegur. Bara maður sem hafði farið út af sporinu um stundarsakir. Þó hafði hann verið á götunni meira og minna allt sitt líf en átt sína góðu spretti. Hann spurði mig hvort hann mætti hringja hjá mér og ég rétti honum símann. Þá spurði hann mig hvort ég gæti flétt upp númerinu hjá Vogi og Hlaðgerðarkoti í símaskránni sem ég og gerði. Hann hringdi á báða staðina og staðfesti umsókn sína. Þá sagði hann mér að maður þyrfti að hringja reglulega, annars færi maður neðst á biðlistan. Þetta minnti mig á umsókn mína á stúdentagörðunum. Það er ekki sömu að jafna.
Nú varð hann allur hressari og við tók sögustund. Ég undi mér ekki illa. Ég heyrði vel slípaðar yfirborðslegar sögur sem höfðu verið sagðar þúsund sinnum áður. Það var sagt frá frægum Íslendingum í neyslu, erlendum rokkstjörnum sem hann hafði djammað með, skemmtilegum fylleríissögum, félögum sem fallið höfðu í stríðinu við Bakkus og þar fram eftir götunum. Það sem vakti athygli mína var þó það sem ekki var sagt. Ég sá að í þessum fallega, góðlega, manni að þarna var stærri saga, miklu stærri saga. Hann sagði mér fyrr um morgunuinn að hann væri heiðarlegasti róninn á Íslandi. Hann stæli aldrei og þegar örorkubæturnar (sem eru um 90.000 kr.) kæmu um hver mánaðarmót þá væri það fyrsta sem hann gerði að borga sínar skuldir við félagana, Mónakó (Casino Bar) og bankann. Þá er nú lítið eftir. Til að kanna heiðarleika hans gerði ég smá tilraun. Ég setti veskið mitt með öllum kortunum á borðið ásamt sígarettupakka með fjórtán rettum í. Aukinheldur var fartölva og margt annað verðmætt inni í hergerginu. Sagðist síðan þurfa að skíta og afsakaði mig á klósettið. Ég fór inn á klósett en skeit hvorki né meig. Ég fylgdist með ganginum úr skráargatinu í góðar fimm mínútur. Þegar ég kom til baka inn í herbergið spurði hann mig með föðurlegum svip hvort mér væri nokkuð illt í maganum. Ég neitaði og bauð honum sígó. Ég taldi og þrettán voru eftir. Þetta var heiðarlegur róni eins og mig grunaði.
Í ljós kom að við áttum margt sameignlegt. Við erum báðir einfarar, höfum sama smekk á tónlist og höfum svipuð samfélagsviðhorf. Ég hafði eignast nýjan vin. Systkini hans höfðu snúið við hann bakinu. Þau voru öll vel stæð, lögfræðingar og bankastarfsmenn. Hann gekk eitt sinn nokkur póstnúmer á enda til að biðja eitt af vel stæðum systkinum sínum um fimmhundruð kall. Hurðinni var skell framan í hann. Nú í nevember á hann stórafmæli. Hann verður fimmtugur. Hann sagði mér að einn vinur hans hefði áhyggjur af því að hann myndi ekki tóra til afmælisins. Ég deili þeim áhyggjum með vininum miðað við líkamlegt ástand rónans í morgun. Ég ætla að hafa dyr mínar opnar fyrir rónanum. Ef hann vill koma inn í hlýjuna og leggja sig í sófanum mínum þá er það honum velkomið. Ég vil ekki hafa það á samvisku minni að hann frjósi í hel á götunni.
Við spjölluðum saman í rúma tvo tíma og þá kom spurningin. Hún var öðruvísi tónuð en þegar hann spurði mig um hundrað kall fyrir rúmum sólahring og svo sígarettu nokkrum tímum fyrr. Nú var hann ekki að spyrja votta eða mormóna um gjöf. Nú var hann að biðja mann sem hann hafði fest sinn trúnað á um styrk. Hann bað bara um pening fyrir einum sprittbrúsa í viðbót. Ég klæddi mig úr náttfötunum og fór í gallabuxur og peysu. Því næst fór ég með hann út í Vísi og spurði hvað hann reykti. Hann reykti Marlborough rauðan. Keypti einn pakka af þeim, lét taka þúsundkall yfir og gaf honum. Hann spurði mig af hverju ég væri svo góður við hann. Ég spurði hann á móti af hverju hann væri svo góður við mig.
Róninn klæðist þunnum jakka og flís-peysu. Ég ætla að fara í heildsöluna þar sem mamma vinnur og kaupa handa honum þykka úlpu og gefa honum í snemmbúna afmælisgjöf.
Því næst kvöddumst við. Nú finnst mér ég knúinn til þess að fá mér diktafón og fá þennan vin minn í heimsókn sem oftast og skrá sögu hans.
Þú ert, hefur ávallt verið og munt ávallt vera hetjan mín og fyrirmynd.