Og svo kom stríð og svo kom her. Og svo kom friður og enn meiri her. -Megas

miðvikudagur, október 31, 2007

Róninn og ég

Ég er kominn í viku frí! Jibbí. Labbaði niður Laugarveginn eins og venjulega en óvenju glaður í bragði. Mætir mér ekki róninn sem ég bloggaði um. Hann spyr mig hvort ég eigi sígarettu. Ég játti því og tók fimm eða sex sígarettur úr pakkanum og rétti honum. Þegar ég horfði framan í hann sá ég að hann skalf og titraði, jafnt af kulda sem þynnku. Ég heyrði glamrið í tönnum hans. Ég spurði hann hvort hann vildi ekki smá aur og það birti yfir honum. Við gengum að hraðbankanum og ég tók út fimmhundruð kall og gaf honum. Hann tjáði mér að ég væri góður maður. Ég vissi nú svo sem að ég væri alla vega ekki skíthæll. Því næst horfði ég á eftir honum upp Laugarveginn. Þegar ég kom inn í upphitað herbergið mitt, það sem kynda tveir ofnar, settist í mjúkan sófann og blastaði Megas í i-podnum, fékk ég samviskubit. Ég hefði nú alla vega getað boðið honum inn í hálftíma eða svo. Gefið honum einn bjór og leyft honum að ylja sér. Nagaður af samviskubiti fór ég að taka til svo ég myndi ekki fá fleiri viðbjóðslegar glósur frá meðleigjendum mínum, eins og þá sem ég lýsti í síðustu færslu. Fór í náttbuxurnar og hellti upp á kaffi.

Um það bil þrem korterum síðar fór ég út á svalir að reykja. Hvað sé ég nema rónann gangandi hægum, en þó beinum skrefum niður Laugarveginn. Greinilega ekki búinn að fá sér afréttarann. Ég hóaði á hann og benti honum á útidyrahurðina fyrir neðan, gekk niður stigann og opnaði fyrir kauða, beindi honum upp spurði hvort hann vildi ekki ylja sér aðeins. Hann elti mig upp tvístígandi. Vissi greinilega ekki hvað hann ætti að halda. Þegar hann sá mig fyrr um morguninn var ég íklæddur jakkafötum með skólatösku á bakinu rétt eins og mormóni í trúboði. Hann hélt greinilega að Guðs maður hefði gefið honum aur fyrr um morguninn. En nú blasti við honum kærulaus fátækur námsmaður í náttfötunum með kaffibolla í hendi og sígarettu í kjaftinum. Þegar við komum upp bauð ég honum sæti og spurði hvort hann vildi eitthvað að drekka. Hann spurði mig þá flóttalegur hvort hann mætti blanda sér í glas og spurði hvar vaskurinn væri. Ég benti honum inn í eldhús og þar tók hann upp kókbrúsa og sótthreinsunarspritt. Hellti obbanum af kókinu í vaskinn og blandaði helmingnum af 100 ml flöskunni ofan í. Því næst sagði hann að það væri mér að þakka að hann myndi hætta að vera veikur innan skamms. Ekki gat ég tekið undir þá fullyrðingu enda þótt honum myndi eflaust líða aðeins betur og sprittið slá á skjálftann. Eftir fimm mínútur sá ég líf í augum hans sem áður voru glær og tóm. Ég spurði hann í hörgul út í líf heimilislausa ógæfumannsins í Reykjavík og hann svaraði mér samviskusamlega. Til að öðlast betur traust hans fékk ég mér bjór honum til samlætis. Ekki fannst það mér verra. Hann sagði mér að hann fengi inni í gistiskýlinu við Þingholtsstræti en að þeim væri hent út klukkan átta á morgnana. Þó væri þeim sem væru verst á sig komnir boðið að vera uppi í sjónvarpsherbergi aðeins lengur. Hann tjáði mér að þar vildi hann ekki vera. Líkurnar á barsmíðum væru of miklar auk þess sem líkamlegt ástand hans væri svo slæmt að það biði ekki boðanna að redda sér afréttara. Hann hafði gengið niður Þingholtsstræðið og upp Bankastræti með hundraðogfimmtíu kall í vasanum vitandi það að sprittbrúsinn kostaði fjögurhundruðogfimmtíukall. Þá rakst hann á mig.

Þegar sprittið var komið inn í meltingafærin hætti skjálftinn og losnaði um málbeinið. Í ljós kom að maðurinn var vel að máli farinn og hinn skemmtilegsti í samræðum. Frá því ég sá hann fyrst hafði mér ekki fundist hann vera rónalegur. Bara maður sem hafði farið út af sporinu um stundarsakir. Þó hafði hann verið á götunni meira og minna allt sitt líf en átt sína góðu spretti. Hann spurði mig hvort hann mætti hringja hjá mér og ég rétti honum símann. Þá spurði hann mig hvort ég gæti flétt upp númerinu hjá Vogi og Hlaðgerðarkoti í símaskránni sem ég og gerði. Hann hringdi á báða staðina og staðfesti umsókn sína. Þá sagði hann mér að maður þyrfti að hringja reglulega, annars færi maður neðst á biðlistan. Þetta minnti mig á umsókn mína á stúdentagörðunum. Það er ekki sömu að jafna.

Nú varð hann allur hressari og við tók sögustund. Ég undi mér ekki illa. Ég heyrði vel slípaðar yfirborðslegar sögur sem höfðu verið sagðar þúsund sinnum áður. Það var sagt frá frægum Íslendingum í neyslu, erlendum rokkstjörnum sem hann hafði djammað með, skemmtilegum fylleríissögum, félögum sem fallið höfðu í stríðinu við Bakkus og þar fram eftir götunum. Það sem vakti athygli mína var þó það sem ekki var sagt. Ég sá að í þessum fallega, góðlega, manni að þarna var stærri saga, miklu stærri saga. Hann sagði mér fyrr um morgunuinn að hann væri heiðarlegasti róninn á Íslandi. Hann stæli aldrei og þegar örorkubæturnar (sem eru um 90.000 kr.) kæmu um hver mánaðarmót þá væri það fyrsta sem hann gerði að borga sínar skuldir við félagana, Mónakó (Casino Bar) og bankann. Þá er nú lítið eftir. Til að kanna heiðarleika hans gerði ég smá tilraun. Ég setti veskið mitt með öllum kortunum á borðið ásamt sígarettupakka með fjórtán rettum í. Aukinheldur var fartölva og margt annað verðmætt inni í hergerginu. Sagðist síðan þurfa að skíta og afsakaði mig á klósettið. Ég fór inn á klósett en skeit hvorki né meig. Ég fylgdist með ganginum úr skráargatinu í góðar fimm mínútur. Þegar ég kom til baka inn í herbergið spurði hann mig með föðurlegum svip hvort mér væri nokkuð illt í maganum. Ég neitaði og bauð honum sígó. Ég taldi og þrettán voru eftir. Þetta var heiðarlegur róni eins og mig grunaði.

Í ljós kom að við áttum margt sameignlegt. Við erum báðir einfarar, höfum sama smekk á tónlist og höfum svipuð samfélagsviðhorf. Ég hafði eignast nýjan vin. Systkini hans höfðu snúið við hann bakinu. Þau voru öll vel stæð, lögfræðingar og bankastarfsmenn. Hann gekk eitt sinn nokkur póstnúmer á enda til að biðja eitt af vel stæðum systkinum sínum um fimmhundruð kall. Hurðinni var skell framan í hann. Nú í nevember á hann stórafmæli. Hann verður fimmtugur. Hann sagði mér að einn vinur hans hefði áhyggjur af því að hann myndi ekki tóra til afmælisins. Ég deili þeim áhyggjum með vininum miðað við líkamlegt ástand rónans í morgun. Ég ætla að hafa dyr mínar opnar fyrir rónanum. Ef hann vill koma inn í hlýjuna og leggja sig í sófanum mínum þá er það honum velkomið. Ég vil ekki hafa það á samvisku minni að hann frjósi í hel á götunni.

Við spjölluðum saman í rúma tvo tíma og þá kom spurningin. Hún var öðruvísi tónuð en þegar hann spurði mig um hundrað kall fyrir rúmum sólahring og svo sígarettu nokkrum tímum fyrr. Nú var hann ekki að spyrja votta eða mormóna um gjöf. Nú var hann að biðja mann sem hann hafði fest sinn trúnað á um styrk. Hann bað bara um pening fyrir einum sprittbrúsa í viðbót. Ég klæddi mig úr náttfötunum og fór í gallabuxur og peysu. Því næst fór ég með hann út í Vísi og spurði hvað hann reykti. Hann reykti Marlborough rauðan. Keypti einn pakka af þeim, lét taka þúsundkall yfir og gaf honum. Hann spurði mig af hverju ég væri svo góður við hann. Ég spurði hann á móti af hverju hann væri svo góður við mig.

Róninn klæðist þunnum jakka og flís-peysu. Ég ætla að fara í heildsöluna þar sem mamma vinnur og kaupa handa honum þykka úlpu og gefa honum í snemmbúna afmælisgjöf.
Því næst kvöddumst við. Nú finnst mér ég knúinn til þess að fá mér diktafón og fá þennan vin minn í heimsókn sem oftast og skrá sögu hans.

53 Comments:

  • Þú ert, hefur ávallt verið og munt ávallt vera hetjan mín og fyrirmynd.

    By Anonymous Nafnlaus, at 7:51 e.h.  

  • Gunnar. Ef þú býður ekki öllum vinum rónans er ég til í að mæta í megaafmælið hans og gefa honum mannbætandi ljóðabók mína.

    (er ég aðeins of mikið eins og...?)

    Kvestu,
    KST

    By Anonymous Nafnlaus, at 1:05 f.h.  

  • Ég skal halda lítið hóf, með fjórum, fimm gestum. Upplítandi systir og tilvonandi költskáld. Auk títtnefnds róna og undirritaðs ásamt Jóni Erni. Hvernig hljómar það? Ekki slæm blanda þar á ferð.

    By Anonymous Nafnlaus, at 1:29 f.h.  

  • Skemmtilegt dót.

    By Blogger Jón Örn, at 11:25 f.h.  

  • Gunni, þú tekur húmanistakonseptið og teygir það útyfir allan þjófabálk. Ég er stoltur af þér.

    By Anonymous Nafnlaus, at 2:18 e.h.  

  • Því oftar sem ég les um samskipti þín við meintan róna því meiri mætur hefi ég á málshættinum góða "sjaldan fellur eplið langt frá eikinni"

    Ps. Gunnar! haltu áfram að vera þú!

    Kv Pabbi

    By Anonymous Nafnlaus, at 10:45 e.h.  

  • Enda þótt eik sé ekki eplatré, þá kenndir þú mér vel minn kæri faðir. Þú hefur afar fallegt hjartalag og ég vona að ávextir þínir hafi ekki fallið of langt frá mínum rótum.

    Koma svo allir saman. Gerum þetta að væmnustu kommentum í bloggsögunni!

    By Anonymous Nafnlaus, at 1:24 f.h.  

  • þetta þykir mér vera góð saga Gunnar, les ég þetta hér í nettri þynnku og með skjálfta útí Danaveldi.
    eftir lesninguna er ég klökkur að vita til þess að til er svona gott fólk eins og þú ! ég er stolltur af þér, ég hugsa að ég fari út á eftir og bjóði einum rónanum hér í hverfinu inn í súpu og með því !

    keep up the good work

    By Anonymous Nafnlaus, at 10:58 f.h.  

  • Ég þekki þig ekki en datt inn á þetta í gegnum b2.is og þessi skrif snertu mig og sérstaklega þetta síðasta með að eignast vin.
    Ert greinilega með hjartað á réttum stað.
    Ef þú ert enn í námi segi ég bara gangi þér sem allra best og ef þú ert ekki í námi að þá segi ég bara líka gangi þér sem allra best.

    By Anonymous Nafnlaus, at 11:11 f.h.  

  • Þessi saga snerti mig mikið. Þekki þig ekki neitt en þú átt klárlega allt gott skilið:)

    By Anonymous Nafnlaus, at 11:28 f.h.  

  • ef það væru nú bara fleiri einsog þú mar. the world would be a better place.

    God bless

    By Anonymous Nafnlaus, at 2:20 e.h.  

  • og fleiri lukkulegir ólukkumenn!

    Góður ertu :)

    By Anonymous Nafnlaus, at 2:22 e.h.  

  • Þekki þig ekkert en þú ert greinilega með hjarta úr gulli. Þú átt allt gott skilið og þér á eftir að farnast vel í lífinu. Ef fleiri væru eins og þú væri heimurinn betri.
    Ég vildi óska að ég þekkti þig.

    By Anonymous Nafnlaus, at 2:24 e.h.  

  • vá... ég ég væri ekki á föstu myndi ég heimta að fá að fara með þig á deit ;)

    By Anonymous Nafnlaus, at 3:19 e.h.  

  • Ef ég væri ekki í sambúð og gagnkynhneigður þá myndi ég "heimta að fá að fara með þig á deit" :D

    Það liggur við að ég gráti vitandi það að enn sé svona fólk til.

    P.s.: Ég var einusinni í svipuðum sporum og róninn...

    By Anonymous Nafnlaus, at 4:03 e.h.  

  • ég þekki þig nú ekkert en ef ég vissi hver þú værir þá mundi ég gefa þér medalíu....það mættu vera fleiri eins og þú

    By Anonymous Nafnlaus, at 4:36 e.h.  

  • váá! Ég þekki þig ekki neitt en ef það væru til fleiri eins og þú væri heimurinn milljón sinnum betri staður....

    By Anonymous Nafnlaus, at 4:48 e.h.  

  • vá hvað mér fannst þetta góð grein.
    snart mig mjög svo að ég lét móður mína lesa þetta og hún fór að gráta, henni fannst þett svo sætt :)

    By Anonymous Nafnlaus, at 5:18 e.h.  

  • Það ætti að búa til kvikmynd um þessa sögu, ásamt sögu rónans.

    By Anonymous Nafnlaus, at 5:51 e.h.  

  • Það þarf fleiri þína líka,

    By Anonymous Nafnlaus, at 6:52 e.h.  

  • Ég vinn mikið í miðbænum og labba oft framhjá rónunum sem halda til í kringum Austurvöll á leið til vinnu.

    Það er sérstaklega einn maður þar sem hefur vakið athylgi mína, hann er oft í svörtum ullarfrakka og ljóshærður með svolítið sítt ár. Hann er oft bara eineygður og örin í andliti hans benda til að hann hafi prófað ýmislegt.

    Þetta er kannski sami maður? En hvað um það, ég væri rosalega til í að lesa meira frá samskiptum þínum við þennan mann og hvet þig til að halda áfram að rita sögu hans (ykkar).

    Kveðja, Anonymous.

    By Anonymous Nafnlaus, at 7:37 e.h.  

  • Bara ef allir hugsuðu eins og þú, þetta var frábær lestur. Takk fyrir

    By Anonymous Nafnlaus, at 8:09 e.h.  

  • Halló ég þekki þig ekki neitt en Váá þú ert bara ótrúleg manneskja!! Þessi saga snerti mig mikið.
    Haltu áfram að hugsa með hjartanu.
    Gangi þér vel í lífinu.

    By Anonymous Nafnlaus, at 8:25 e.h.  

  • það kreft ekki aðeins manngæsku, heldur líka hugrekkis að að koma svona fram við útigangsmann. Mér þætti leitt að sjá mann í þessu ástandi, en ég gæti líklegast aldrei komið mér til að gera eitthvað í málinu, nema kannski núna. þú hefur sýnt okkur að þeir sem samfélagið hefur afneitað eru alveg eins líklegir til að vera einstaklega góðar manneskjur. Ég finn engin góð orð til að loka þessari umsögn, en haltu því áfram sem þú gerir.

    By Anonymous Nafnlaus, at 9:20 e.h.  

  • Váááá, ég er örlítið heimskari eftir að hafa lesið þetta.

    En haltu bara áfram að hjálpa rónanum að drekka sig í hel.

    Annars hlakka ég mikið til að sjá hann í nýju úlpunni sinni.

    kveðja
    Nafnlaus

    By Anonymous Nafnlaus, at 9:54 e.h.  

  • Ef þú vilt gera honum vel, endilega farðu með hann á alla fundi AA yfir eina helgi, hvern inn og einasta, það ætti að hjálpa honum meir en nokkur þúsundkall.

    By Anonymous Nafnlaus, at 10:22 e.h.  

  • Jiminn, Gunnar, ég vona að þetta fólk sem nú stormar unnvörpum niður í miðbæ til að taka róna upp á arma sína séu jafn ágætir mannþekkjarar og þú. Annars gæti þetta orðið skrautlegt.

    By Anonymous Nafnlaus, at 10:36 e.h.  

  • Bara helvíti góð frásögn af skemmtilegum fundum. Hef lent í þessu sjálfur á fylleríum og það getur verið mjög áhugavert að gerast "róni" í nokkra daga. Flottur!

    By Blogger Einar, at 11:15 e.h.  

  • Eins falleg og sagan er hjá þér, þá er þetta líklega það versta sem hægt var að gera fyrir manninn.

    Ég geri fastlega ráð fyrir að þú trúir mér ekki, en fólk í neyslu þarf virkilega á því að halda að þeim séu allra dyr lokaðar varðandi áframhaldandi neyslu, til að það taki meðferð við fíknini.

    Athugasemdin sem er skrifuð kl "10:22 PM" er rétt.

    Ef þú vilt gera eitthvað fyrir þennann mann sem hjálpar honum í alvöruni, farðu þá með hann á fundi og hjálpaðu honum þegar hann er edrú, ekki þegar hann er í neyslu.

    By Anonymous Nafnlaus, at 11:37 e.h.  

  • Góðverk? já. En fyllir þetta kröfu þína um viðurkenningu? Viðurkenningu á að þú sért góð sál. Því ertu í vafa um það? Gangi þér vel í þeirri leit kall.

    By Anonymous Nafnlaus, at 11:37 e.h.  

  • Nice

    By Anonymous Nafnlaus, at 12:12 f.h.  

  • váá þetta er mjög fallega gert , ég vissi ekki að til væri svona gott fólk enn í dag .. yfirleitt er farið illa með svona menn sem minna mega sín , en biðst afsökunar á að ráðast á bloggið en það er by the way á www.b2.is !

    By Anonymous Nafnlaus, at 12:21 f.h.  

  • Þið sem segið að hann eigi að fara með hann á fundi, jú gott og blessað og hann hjálpar honum vissulega með því, en alkóhólisti getur ekki hætt að drekka einntveir og tíu, hann fær fráhvörf. Þess vegna þarf hann að minnka neysluna stigmagnandi eða fara í meðferð. Svo finnst mér það heldur ekki í þessa góðhjartaða manns verkahring að koma karlhróinu á AA fundi. Nóg er hann búinn að gera fyrir hann. Ekkert smá ánægð með þig, ef það væru fleiri svona væri heimurinn betri!

    By Anonymous Nafnlaus, at 8:53 f.h.  

  • þetta er mögnuð saga gott að það eru enþá góðhjartaðir íslendingar til

    By Anonymous Nafnlaus, at 9:37 f.h.  

  • Ég þekki þig ekki en eins og margir datt ég inná þetta í gegnum b2.is. Það er gott að vita af fólki sem hjálpar öðrum no questions asked. Ég reyni að gera það sama sjálf og get alveg sagt þér að allir þeir rónar sem ég þekki eru með hjarta úr gulli alveg eins og þú.

    By Anonymous Nafnlaus, at 11:33 f.h.  

  • Frábært blogg og ennþá betri manneskja.
    Tók mér leyfi til að linka á það á mínu bloggi

    By Blogger Heiða, at 11:59 f.h.  

  • þú átt skilið verðlaun fyrir einskæra mannúð og þetta sínir að það er en skær ljós í myrkrinu sem vinna upp allt það vonda í heimi þessum og góðvild þín í garð náunga þín er gott dæmi um það,

    p.s ef ég má spyrja hver er aldur þinn

    By Anonymous Nafnlaus, at 12:33 e.h.  

  • sá þetta inn á B2, verð bara að segja að ég hélt að svona fólk eins og þú, með stórt og heitt hjarta og góða sál væru útdauð....þú hefur bjargað deginum mínum...takk!!!!

    By Anonymous Nafnlaus, at 1:21 e.h.  

  • Mesta hjálpin þín var eflaust fólgin í símtalinu sem þú lyfðir honum að hringja. þú ert með gott hjarta og það er ekki hægt að segja með alla. meðferð/AA er besta hjálpin fyrir alkóhólisma og funasókn þar til hann getur farið í meðferð er bara til að hjálpa. guð blessi þig og þína líka.

    By Anonymous Nafnlaus, at 1:26 e.h.  

  • Mig langar til að forvitnast, veistu þá hvort það sé mikið af heimilislausu fólki á Íslandi? Mér finnst það svo ótrúlegt að það geti átt sér stað hér á landi.
    En ef það væru nú fleiri eins og þú, sem myndu ekki hræðast heimilislausu eins og morðingja og bara bjóða þeim inn í kaffi eða bara spritt og kók!

    By Anonymous Nafnlaus, at 12:33 f.h.  

  • Þetta er alveg frábært hjá þér Gunni minn!

    Ólafur M. ... Jói sendi mér þetta efni

    By Anonymous Nafnlaus, at 9:46 f.h.  

  • Frábært framtak hjá þér.
    Held að það besta við það sem þú gerðir er að sýna manninum að það er ekki öllum sama.
    Auðvitað væri best fyrir manninn að hætta en það er ekki í þínum verkahring að sjá til þess. Hann verður að finna það hjá sjálfum sér.
    Mér finnst það sem þú gerðir einstaklega fallega gert.
    Áfram þú
    kv.
    Kristín María

    By Anonymous Nafnlaus, at 12:52 e.h.  

  • Ææææðisleg frásögn. Þú ert nú meira krúttið. Kveðja, Jóna

    By Anonymous Nafnlaus, at 12:38 f.h.  

  • bíddu bíddu!! vá afhverju ert þu ekki á blíföstu? eg væri sko alveg til í að vera með svona góðum manni sem er með hjarta úr gulli

    By Anonymous Nafnlaus, at 7:45 e.h.  

  • Mikið ertu hjartahlýr, gaman að lesa um góðverk eins og þetta, þau eru alltof sjaldgæf.

    By Anonymous Nafnlaus, at 9:32 e.h.  

  • Mjøg hofdingjalegt ad koma svona vel fram vid olukkumanninn. Eg hefdi ekki bodid honum inn til min. Gott karma fyrir thig..

    By Anonymous Nafnlaus, at 10:48 f.h.  

  • Sæll vertu, haltu áfram góðverkum þínum...ég vill benda þér á góða bók sem heitir random acts of kindness eftir danny wallace...algjör snillingur á ferð, eitt góðverk á dag kemur lífinu í lag

    By Anonymous Nafnlaus, at 5:00 e.h.  

  • jæja.... þetta yljar manni að svona random góðverk gerist ennþá :)
    keep it up...
    btw... kauptu þér miða í víkingalottó... good karma = good things... ;) gefðu svo rónanum 50%

    By Blogger Unknown, at 6:55 f.h.  

  • Nunni þú ert bestur og ég elska þig

    Kv. Íris Björk

    By Anonymous Nafnlaus, at 10:29 e.h.  

  • Þú ert með mjög stórt hjarta, vildi að ég væri meira eins og þú.

    By Anonymous Nafnlaus, at 11:30 e.h.  

  • þú ert einstakur:) er stolt af þer. Þegar eg kem í heimsókn býst ég við jafn höfðinglegum móttökum. þykir endalaust vænt um þig

    Kv Thelma Dögg

    By Anonymous Nafnlaus, at 12:46 f.h.  

  • Ókei... það er góðverk að bjóða þessum ógæfumanni inn í hlýjuna til þín. En gerðu þér grein fyrir því hversu mikilli olíu þú skvettir á eldinn með því að stuðla að áframhaldandi sprittdrykkju mannsins. Ég færi varlega í peningagjafir ef ég væri þú. Starf rauða krosssins hefur að miklu leyti einkennst af þessu; gefa börnunum í afríku matarpakka - en ekki reyna að hafa langvarandi áhrif á aðstæður...

    By Anonymous Nafnlaus, at 6:59 e.h.  

  • Ertu að reyna drepa manninn með því að dæla ofan í hann spritti?
    Þú ert eflaust góður maður og sýndir það. En reyndu frekar að styðja hann í gegnum þynnkuna heldur en framlengja hana með spritti.

    Hjálpaðu honum upp í stað þess að ýta honum ofan í holuna sem hann datt.

    By Anonymous Nafnlaus, at 11:03 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home


 

Powered by Blogger