The Passanger
Í gærkvöldi þegar ró var komin yfir hótelið blasti við mér löng nótt. Ekkert að gera í níu tíma nema horfa upp í loftið. Ég bölvaði sjálfum mér í hljóði fyrir að hafa ekki komið með skólatöskuna mína því ég hafði ekkert að lesa og var búinn með bloggrúntinn minn. Jæja, fór niður í kjallara og fékk mér mátulega þunnt kaffi. Á leiðinni til baka í móttökuna sá ég ræstingarvagn og í neðstu hillunni glitti í kilju sem vakti forvitni mína.
Einhver gestur hafði greinilega gleymt spánýju eintaki af Farþeganum eftir þá Árna Þórarinsson og Pál Kristinn Pálsson. Það er skemmst frá því að segja að ég lagði bókina vart frá mér í nótt og undir morgun kláraði ég hana. Þarna er hörku krimmi á ferð.
Bókin sækir efni sitt í íslenskan raunveruleika samtímans og er alls ekki ótrúverðug. Einnig er persónunsköpun stillt í hóf og persónurnar eru trúverðugar. Höfundar brjóta upp hefðina með einkennum söguhetjunnar. Rannsakandinn í þessum krimma er hvorki drykkfelldur rannsóknarlögreglumaður með óbilandi sjálfseyðingarhvöt, né drykkfelldur blaðamaður með óbilandi sjálfseyðingarhvöt, og þaðan af síður drykkfelldur lesbískur lögfræðingur með annarlegar kenndir. Söguhetjan er gjaldþrota þrítugur strákur sem er jarðbundinn draumóramaður, svolítill lúði, áhugamaður um sagnfræði og heimspeki og smakkar varla áfengi. Það sem gerir hann áhugaverðan sem rannsakanda er það að hann er alls ekki góður sem slíkur þó hann þroskist í því hlutverki. Afar áhugaverð persóna sem lætur lítið fyrir sér fara.
Helsti kostur bókarinnar er stíllinn, samtölin eru lifandi og auðlesin auk þess hve lágstemmd sagan er. Höfundar missa sig hvorki í hollívúdd-drama né lýsingum á óraunhæfum atburðum sem geta aðeins átt sér stað í milljónaborgum. Þetta er knöpp Reykjarvíkursaga.
Persónusköpunin er áhugaverð fyrir tilstilli söguhetjunnar en einnig er annar spennandi karakter í bókinni, trúaður lögreglumaður sem er einhverskonar Geir Jón nema hvað hann hefur gáfur. Aðrar persónur standa ekki sérstaklega uppúr en engin persóna er, eins og áður sagði, óraunveruleg og virkilega óáhugaverð. Þó er skondið að skoða útlitslýsingu á Einari blaðamanni sem svipar ekki lítið til Árna sjálfs, sem er jú blaðamaður.
Vankantar á verkinu eru þó nokkrir, og þá helst til einstaka atriði sem fara í taugarnar á mér eins og tungutak fólksins sem er á mínum aldri, en fléttan er fyrirsjánleg þó hún sé vel upp byggð en fyrir það bæta höfundar með einkar skemmtilegu antiklímaxi. Semsagt, á heildina litið hinn fínasti krimmi.
Að lokum vil ég bæta við að mér finnst skemmtilegt að bókin skuli bera nafnið Farþeginn í ljósi þess að þeir krimmar sem Árni skrifar einn bera nöfn dægurlaga frá sjöunda áratugnum en The Passanger er einmitt nafn á lagi eftir Iggi Pop, þó frá öðrum áratug. Líklegast er það tilviljun. Þó tónlist skipi ekki stóran sess í Farþeganum þá er skemmtilegt stef í henni, lagið Don’t You Lie to Me eftir Chuck Berry sem var einnig kóverað af The Rolling Stones.
Uppáhalds bók mín eftir árna Árna er þó Hvíta kanínan, en það er nú bara vegna þess að ég elska Lísu í undralandi, hvers kyns sýrutripp og Jefferson Airplane.