Og svo kom stríð og svo kom her. Og svo kom friður og enn meiri her. -Megas

laugardagur, október 20, 2007

Yndislegur morgunn - þynnkan í prósa - engin lifrarbólga

Vaknaði í morgun í fósturstellingunni uppi í sófa í öllum fötunum sem er óskiljanlegt því rúmið mitt er um það bil 25 cm frá sófanum sem er nota bene örsófi. Fór fram og hitaði ofninn og setti í hann afganginn af pítsunni sem ég eldaði fyrir Ingu á fimmtudaginn. Á pítsuna setti ég lauk, hvítlauk, hvítkál, brokkólí, gulrætur og ost. Mæli með þessari blöndu. Að sjálfsögðu fékk ég mér svo einn bjór með pítsunni svona rétt til að losna við broddinn af þynnkunni. Svo fór ég í heita sturtu og velti því fyrir mér meðan vatnið streymdi niður bakið hvort ég ætti að raka mig eða ekki. Ég ákvað að raka mig ekki. Hélt síðan niður Bankastrætið og kom við á Kaffitári og lap latté með vampýrum. Síðan lá leið mín í Kolaportið þar sem ég gerði snilldarkaup. Keypti nokkrar bækur, þar á meðal Kvennafræðarann sem ég fékk á fimmtíu kall! Verslaði svo ljóta lopapeysu sem er samt asnalega flott á sjöhundruð krónur. SJÖ HUNDRUÐ KRÓNUR. Fékk mér meira kaffi og ráfaði um þar til ég sá viðbjóðslega ljóta gömlukerlinga-eyrnalokka hjá Tælendingunum og keypti þá af sjálfsögðu og ætla að vera með lokkinn í eyranu fram á manudagskvöld. Lokkarnir eru auðvitað einungis seldir í pörum og því óska ég eftir eyrnalokka vin/vinkonu sem hefur áhuga á að afbyggja sjálfið með því að byggja utan á sig viðbjóðslegt glingur. Því næst fór ég í Ríkið og verslaði mér bjór en gleymdi auðvitað að kaupa rauðvínið sem var tilgangur ferðarinnar. Á leiðinni til baka hitti ég fyrir Lalla Johns og rónagengið hans og gaf þeim fimmhundruð kall. Þau ætluðu að kyssa mig en ég afþakkaði kossinn og slapp þar með við að sýkjast af lifrarbólfu C. Því næst fór ég heim að blogga.

2 Comments:

  • Hey það er ekkert minnst á ælu í þessari færslu!

    By Anonymous Nafnlaus, at 7:32 e.h.  

  • Nei, engin æla núna. Samt er fólk búið að kasta upp allt í kringum mig undanfarna daga.

    By Anonymous Nafnlaus, at 2:37 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home


 

Powered by Blogger