Og svo kom stríð og svo kom her. Og svo kom friður og enn meiri her. -Megas

fimmtudagur, janúar 31, 2008

Fyrirmyndarsamfélag – loksins aftur ælublogg

Á laugardaginn lýsti Zizek samfélagi sem honum hugnaðist vel, kannski ekki útópísku fyrirmyndarsamfélagi, en samfélagi þar sem hann gæti vel hugsað sér að lifa og hrærast. Í samfélaginu fullnægðu menn grunnþörfum sínum hvað sem það kostaði og köstuðu um leið fyrir róða gildum og viðmiðum sem siðferðisþrek okkar myndi þola illa, en gerðu ekkert umfram það að fullnægja grunnþörfum sínum. En það sem mestu máli skipti að allt þetta var gert með fullkomnu tilgerðarleysi.

Eflaust er tilgerðin eitt mesta samfélgasmein vesturlanda því með tilgerðinni verður ákveðið rof í samskiptum manna og allt tjáningarferli heftist. Ég fór að velta vöngum yfir því hvernig mitt fyrirmyndarsamfélag væri og langar því að segja frá tilteknu atviki í mínu lífi.


Snemma í haust fór ég á fjáföflunarmálsverð í Friðarhúsinu og skemmti mér konunglega eins og alltaf því félagsskapurinn þar er óviðjafnanlegur. Eins og svo oft þegar maður er staddur meðal skoðanasystkina er vel staupað og málbeinið lausara en alla jafna. Þegar klukkan nálgaðist miðnættið var ég orðinn vel við skál og kvaddi, labbaði á Hlemm og tók síðasta vagninn heim til mömmu í Gravarvoginn. Eitthvað fór bílferðin illa í mig og mér varð bumbult en hélt ég gæti haldið öllu niðri þangað til ég kæmi til mömmu. Svo gerðist það óumflýjanlega, strætóbílstjórinn hemlaði snarlega þegar Miklubrautin var á enda og upp úr mér stóð spýjan og hún var ekki fögur. Björk Vilhelmsdóttir eldaði fyrr um kvöldið lambalifur í bláberjasósu (!) og innhald ælunnar því eftir því í bland við rauðvín og bjór. Í örvæntingu minni rauk ég upp, útataður í ælu, hringdi bjöllunni og bjóst til að fara út í Ártúni og labba þaðan eða taka leigubíl heim til mömmu. Strætóbílstjórinn stöðvaði vagninn á stoppustöðinni en opnaði ekki dyrnar. Ég leit í átt að bílstjóranum og augu okkar mættust í baksýnisspeglinum og við það tók hann af stað. Verksummerkin blöstu við mér og ég reyndi að gera mig ósýnilegan því ég blygðaðist mín verulega. Nokkrum mínútum síðar staðnæmdist vagninn við biðskýlið hjá stoppustöðinni við heimili mömmu og dyrnar opnuðust og ég var frjáls.

Kvöldið eftir rölti ég í átt að strætóskýlinu allsgáður og velti fyrir mér atburðum gærkvöldsins og undraðist viðbrögð strætóbílstjórans. Þegar vagninn kom steig ég um borð og mér til mikillar skelfingar var þar sami vagnstjórinn og kvöldið áður. Felmtri sleginn arkaði ég aftst í vagninn og reyndi að gera mig eins smáan og ég gat og sálartetrið eftir því. Þegar ég nálgaðist áfangastað minn þrýsti ég á hnappinn, stóð upp og tók mér stöðu fyrir framan dyrnar. Vagninn staðnæmdist en dyrnar opnuðust ekki. Ég leit skelkaður í andlit bílstjórans í speglinum og hann ók af stað. Ég settist í sæti mitt og bjóst við því að hann keyrði mig inn inn á eitthvert verkstæði þar sem biðu mín tuttugu bandbrjálaðir strætóbílstjórar sem myndu fá útrás fyrir margra ára uppsafnaða bræði með því að buffa mig í köku.

Þegar ég var niðursokkinn í þessar pælingar mínar stöðvaðist vagninn og dyrnar opnuðust. Ég stóð upp undrandi því enginn hafði hringt bjöllunni og stöðvunarljósið logaði ekki. Svo leit ég í andlit bílstjórans í baksýnisspeglinum og hann glotti til mín. Þá fattaði ég hvernig lá í öllu saman, ég færði höndina upp að enni og heilsaði að hermannasið og við fórum báðir að hlæja og ég steig brosandi út úr vagninum.


Ég gæti vel hugsað mér að búa í samfélagi þar sem reglurnar væru með þessum hætti. Ég kem ölvaður í vagninn og bílstjórinn ber kennsl á mig og veit hvar ég fer alltaf út. Hann sér mig hringja bjöllunni eftir að ég kasta upp en sér aumur á mér og ákveður að aka með mig heim til mömmu í stað þess að skilja mig eftir í öðru hverfi, sótölvaðan í nístingskulda. Daginn eftir ekur hann mér aftur og ákveður að refsa mér þá með því að láta mig labba tvöhundruð metra til viðbótar og hleypir mér út á næstu stoppustöð eftir þá sem ég hafði hugsað mér að fara út við. Þetta var bráðsniðugt hjá honum og meinfyndið. Réttlætinu var fullnægt með bestu mögulegu útkomu fyrir alla og algerlega án allrar tilgerðar. Þetta var grímulaust og snilldarlegt.

Nú þurfum við öll að tileinka okkur þesslags hugsunarhátt, látum ekki skapið fara með okkur þegar náungar okkar fremja óverknaði, stillum okkur og hefnum okkar hæfilega með húmorinn að leiðarljósi.

mánudagur, janúar 28, 2008

Uppgjör

Síðasti laugardagur á seint eftir að líða mér úr minni. Hann hófst með heilusbótagöngu því krankleiki sökum synda gærkvöldsins er óásættanlegur þegar Zizek messar yfir hausamótunum á manni. Fyrirlesturinn var vægast sagt hressandi og ég kiknaði í hnjánum eins og fermingarstelpa þegar hann áritaði bókina fyrir mig og leyfði mér að taka mynd af sér.

Ekki versnaði það svo um kvöldið þegar ég sá Sigurrós spila á Sirkus. Ég sá líka Hjaltalín sem kom mér skemmtilega á óvart. Þessi hljómsveit hefur afar ferskt og áhugavert sánd sem ég fíla í tætlur. Ég fæ alltaf ánægjuhroll þegar ég heyri í klarínettu og samspil hennar og fiðlunnar hjá krökkunum í Hjaltalín var snilldarlegt.

Eins og allir vita er ég fordómafullur maður og ég fyrirlít saxófón jafn mikið og ég elska klarínettu. Ég veit ekki af hverju en það hlýtur að vera níunda áratugnum og fyrri hluta þess tíunda að kenna. Það er varla til sá sjónvarpsþáttur frá þessum tíma þar sem saxófónninn spilar ekki stóra rullu. Hljóðfærið var svo ofnotað að ég fæ grænar bólur þegar saxófónn á að tákna eða undirstrika trega í þáttum og bíómyndum, í staðinn framkallar hann viðbjóð.

###

Ég horfði á Spaugstofuna í endursýningu í gær og mér brá illilega í brún. Mér finnst grafalvarlegt mál hvernig þeir Spaugstofumenn gerðu grín af Ólafi borgarstjóra. Ég hef það á tilfinningunni að þessir menn geti gert hvað sem þeim sýnist og lúti engri yfirstjórn inni á RÚV. Það sem þeir sýndu á laugardaginn er glæpur ; glæpur gegn góðum húmor. Málið er einfaldlega það að þátturinn var ekki vitund fyndinn. Hann var illa skrifaður, illa leikinn og mér var misboðið sem aðdáanda góðs húmors en ekki sem geðsjúklings. Auðvitað á að gera grín að geðsjúklingum og geðsjúkdómum eins og öðrum sjúklingum og sjúkdómum. Ef Spaugstofumenn hefðu einhverja hæfileika, væru frumlegir og ekki gjörsamlega útbrunnir þá hefði verið hægt að gera þennan þátt mjög fyndinn því eins sorglegir og geðsjúkdómar eru þá geta þeir oft verið bráðfyndnir.


P.S.

Ólafur, hættu þessu fokking væli með að heilsan þín sé þitt einkamál því hún er það ekki. Ef þú ætlar að starfa í umboði okkar Reykvíkinga þá höfum við fulla heimtingu á því að þú upplýsir okkur um heilsufarsástand þitt. Mér þætti ágætt ef þú skilaðir inn læknisvottorði einu sinni í mánuði.

P.P.S.

Hey, þú þarna stelpa sem rakst tunguna upp í mig á dansgólfinu á Kofanum um fimmleytið á sunnudagsmorguninn, endilega sendu mér ímeil. Mér finnst þú svolítið sæt.

laugardagur, janúar 19, 2008

Valhopp

Um daginn var ég að koma úr vinnu og labbaði Rauðarárstíginn að Hlemmi þar sem ég ætlaði að taka strætó heim því það var mjög kalt og ég nennti ekki að labba. Þegar ég nálgaðst Hlemm laust niður í huga mér hugmynd, frábærri hugmynd. Hugdettan var snilldarleg því hún var ekki aðeins hugmynd sem veitti mér mikla fróun og blés í brjóst mér mikinn sköpunarkraft, heldur greiddi hún um leið úr smá sálarflækju sem hafði angrað mig um hríð.

Þegar hugmyndin datt í huga mér tók ég lítið hopp; valhopp, algerlega ósjálfrátt. Heilanum fannst hugmyndin greinilega jafn góð og mér og sendi því rafstrauma sem ferðuðust með taugakerfinu niður í fætur og aftur til baka svo ég valhoppaði algerlega ósjálfrátt. Mér stökk bros á kinn og ég roðnaði, svo leit ég flóttalegur í kring um mig í þeirri von að enginn hafi séð mig.

Ég fór að velta vöngum yfir því af hverju ég skammaðist mín fyrir valhoppið. Maður á ekki að skammast sín fyrir að valhoppa þegar hjartað tekur auka kipp og hugurinn fer á flug. Ekki frekar en maður ætti að skammast sín fyrir að hlæja af fyndni eða gráta af sorg.

Svo tók ég annað valhopp mér til ánægju og yndisauka og mundi hvað það er gaman að valhoppa. Klukkan var átta á laugardagsmogni. Ég fálmaði í vösunum eftir i-podinum mínum og setti Just Like Heaven með The Cure í botn. Svo ákvað ég að hundsa Hlemm og strætóinn og valhoppa heim. Því næst tók ég á rás og valhoppaði niður mannlausan Laugaveginn framhjá ælu og brotnum bjórflöskum. Þegar ég svo lenti í Bankastrætinu var ég endurnærður. Ég hafði fundið aftur fyrir barninu í sjálfum mér og það er gulls ígildi.

Kæri lesandi. Næst þegar þér líður illa, mæli ég með að þú farir út og valhoppir aðeins, úti í garði eða á bílastæðinu, jafnvel í Víðihlíð því auðvitað var Megas búinn að uppgötva dásemdir valhoppsins löngu á undan mér:

Ef þú ert kvalin örgum pínslum
illra meina sífelldri nauð
og vondra manna mörgum klækjum
mildi guðs að þú ert ekki dauð.

###

Þá valhoppaðu inn í Víðihlíð.
Í Víðihlíð og Víðihlíð
og vertu þar síðan alla tíð
alla þína tíð - alla þína tíð.

fimmtudagur, janúar 17, 2008

Áran(s)

Á menntaskólaárunum heillaðist ég af fólki sem heillaðist af spíritisma og fannst magnað að miklir hugsuðir og þjóðþekkt skáld hafi safnast saman á miðilsfundum til að ná sambandi við andaheima og eilífðina. Í dag finnst mér þetta spaugilegt.

Á baksíðu 24 stunda í dag talar Ellý við Ragnheiði Ólafsdóttur árulesara og miðil. Þar segir hún:

Árulestur er þegar þú ert búin að læra að tengja þig við einstaklinga og lest árurnar í kring um þá. Áran er sex metrar í radíus í kring um okkur. Það greinast óteljandi litir í áru hvers og eins. Á meðan við erum lífs er þessi áruhjúpur greinilega í kring um okkur og ég les úr því árusviði sem fólk hefur í kring um sig.


Nú er kærkomið tækifæri til að sanna að þessir miðlar og árulesarar séu ekkert annað en peningaplokkandi falsspámenn.

Ég legg til að við tökum fimm lík og fimm lifandi einstaklinga og komum þeim fyrir í beinni línu með tólf metra millibili á gólfinu í Laugardalshöll og fáum svo árulesarana upp í stúku og látum þá segja okkur hvar líkin séu og hvar árugeislandi lifendurnir séu. Það ætti ekki að vera mikið mál. Eða hvað?

miðvikudagur, janúar 16, 2008

Aumingja drengurinn

Mér finnst ómaklega vegið að persónu Þorsteins Davíðssonar og gleðst yfir að sjá vini hans verja hann í fjölmiðlum. Ragnheiður Clausen fyrrverandi þula tíundar kosti hans og segir meðal annars að ekki hafi þó mikið farið fyrir eldamennsku þegar hann bjó í foreldrahúsum, en þegar hann flutti í eigið húsnæði fyrir rúmu ári hafi komið henni á óvart hvað hann hafi staðið sig vel í eldhúsinu.

Látið nú drenginn í friði. Það er ekki nóg með að hann sé nýfluttur að heiman, nú þarf hann að flytja út á land, langt langt í burtu frá mömmu og pabba.

Það skal tekið fram að drengurinn er á 37. aldursári.

Svarthærður á sandölum

Nú er Raúl farinn aftur norður og ég kominn úr sveitinni. Ég slappaði vel af og er endurnærður. Samt var eins og ég fyndi fyrir timburmönnum á mánudaginn enda þótt ég hafi verið bláedrú fyrir norðan. Svo er ég líka með undarlega dökkt hár, eins og versti fm-hnakki.

###

Síðastliðið sumar fékk ég í afmælisgjöf sandala sem eru einstaklega þægilegir og bestu skór sem ég hef nokkurn tímann átt. Þegar sumarið var liðið og tekið að hausta þurfti ég að huga að skóbúnaði mínum, því ekki gengur maður í sandölum á veturna. Ég ákvað að ekkert annað kæmi til greina en skór af sömu tegund og sandalarinir; Ecco. Þegar komið var í skóbúðina fékkst ég ekki einu sinni til að máta því ódýrustu skórnir kostuðu það sama og fjórir kassar af bjór! Ég gekk út í strætóskýli á sandölunum mínum og hef gengið í þeim síðan og það hefur ekkert truflaði mig þangað til í gærmorgun. Þá fyrst blotnaði ég í fæturna þegar ég gekk niður fjórar tröppur fyrir utan vinnustað minn því það var ekki búið að moka snjóinn af þeim. Annars hef ég verið þurr í fæturna í allan vetur þrátt fyrir að ganga í sandölum.

Ég mæli sterklega með því að fólk gangi í sandölum á veturna en eigi ódýra kuldaskó úr Hagkaup fyrir þessa tvo daga á ári sem það er meira en eins sentímetra snór á gangbrautum borgarinnar. Svo er líka aldrei táfýla af manni og ég get hæglega prjónað ullarsokka fyrir kuldaskræfur.

föstudagur, janúar 11, 2008

Raúl bloggar

Sæl öll og takk fyrir hlýjar móttökur. Ég vil byrja á því að biðjast afsökunar á bloggleysi en ég er bara svo feiminn, ólíkt Gunna. Ég er búinn að vera í Reykjavík síðan á mánudaginn og dvel í Bankastrætinu þar sem Gunni býr. Ég heyrði í honum í morgun og honum líður vel á Sauðárkróki og biður að heilsa.

Reykjavík er lítil, krúttleg og hlýleg borg en umfram allt er hún ljót. Skipulagsleysið og kaosið í arkitektúrinum er mjög einkennilegt. Gunni býr við hliðina á húsum númer 4 og 6 við Laugaveg og mér finnst ótrúlegt að hann vilji ekki að klambrarnir verði rifnir. Svona ljótir kofar misbjóða fegurðarmati mínu.

Nú sakna ég Havana en ég sór þess eið að koma þangað aldrei aftur. Ástæðuna fyrir því er ég ekki tilbúinn að upplýsa að svo stöddu.

Annars er ég búinn að vera duglegur við að ganga um bæinn og skoða mannlífið. Í gærmorgun var ég staddur á Ingólfstorgi og sá þá róna. Mér varð hugsað til bókarinnar sem Gunni er að skrifa og því bauð ég rónanum heim til Gunna þar sem við spjölluðum saman. Ég heyrði fullt af skemmtilegum sögum og tók upp tvær klukkustundir af efni inn á diktafóninn sem aðdáandi Gunna gaf honum í jólagjöf. Ég held að Gunni muni þakka mér kærlega fyrir þegar við hittumst á mánudaginn.

Í kvöld ætla ég að lyfta mér upp og skemmta mér með einhverjum af vinum Gunna. Í vikunni fór ég með Oddi og Jóni Erni á krá þar sem við fengum okkur bjór. Mér líst afar vel á vinahópinn hans Gunna og vona að ég fái að kynnast sem flestum. Ef þið viljið ná í mig þá er ég með símann hans Gunna, 659-9604.

Kær kveðja,

Raúl Gonzáles

mánudagur, janúar 07, 2008

Ef hann bara væri akademíker

Djöfull talar Páll Óskar oft af mikilli skynsemi. Ég vildi óska að hann væri fræðimaður. Hann gæti orðað flókna hluti á einfaldan og skilmerkilegan hátt.

###

Nú er vinnutörninni minni að ljúka og það styttist í Raúl láti sjá sig. Sauðárkrókur bíður mín og ég hlakka til að geta slappað af í heila viku. Ég er lukkunnar pamfíll og hamingjuhrólfur.

laugardagur, janúar 05, 2008

Morð

Undanfarið hef ég verið afar meyr og berdreyminn. Ég held að ástæðan fyrir því sé að ég hef verið að pæla mikið í viðurstyggilegum morðum undanfarið.

Fyrir nokkru las ég Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson sem fjallar um íslenskt sakamál, morð, og sú bók situr í mér. Hún ætti að vera skyldulesning allra kynþroska Íslendinga. Nú er ég að lesa In Cold Blood eftir Truman Capote sem fjallar einnig um hræðileg morð. Milli þess sem ég les hlusta ég á Murder Ballads Nick Caves.

Eitt eiga þessir snillingar sameiginlegt. Þeir geta þvingað mann til að hafa samúð með ófreskjum svo að maður hefur nagandi samviskubit og fyllist um leið sjálfsfyrirlitningu. Svo sefur maður illa og fær martraðir.

Í svona hugarástandi getur maður ekki verið annað en frjór og íhugull og endurskoðað hluti sem maður hefur trassað allt of lengi.

###

Raúl sendi mér skeyti í dag og er að gera sig ferðbúinn. Hann hefur aðeins einu sinni komið til Reykjavíkur áður og ratar því ekki um borgina. Mér þætti vænt um ef einhver myndi sjá aumur á honum og fara með honum í gönguferð um bæinn og kannski á kaffihús. Enda þótt Raúl hafi aðeins búið á landinu í rúmt ár, hefur hann náð undraverðum tökum á íslensku svo að samskiptaörðugleikar ættu ekki að setja strik í reikninginn.

fimmtudagur, janúar 03, 2008

Raúl Gonzáles

Mánudaginn næst komandi gerast undur og stórmerki í bloggsögunni, á síðuna mína mun skrifa gestapenni í heila viku.

Ég og vinur minn, Raúl Gonzáles, höfum ákveðið að setja okkur í spor hvors annars í eina viku. Hann kemur heim til mín og býr þar í viku, meðan ég fer heim til hans á Sauðárkrók.

Raúl er mesta gæðablóð og ég vona að vinir mínir taki honum vel. Hann er fæddur í Venezúela en ólst að mestu leyti upp á Kúbu. Faðir hans fór frá Venezúela til Kúbu til að berjast við hlið Fulgencio Batista gegn uppreisnarher kommúnista, en flúði til Bandaríkjanna í lok árs 1958 en Raúl varð eftir á Kúbu. Móðir Raúls lést við burð hans og því var hann munaðarlaus. Hann ólst upp á munaðarleysingjahæli í Havana þar sem var vel að honum hlúð. Síðar nam hann bókmenntir og heimspeki við háskólann í Havana en ferðaðist svo um heiminn milli þess sem hann vann fyrir sér víðsvegar.

Fyrir um ári síðan lá svo leið hans til Íslands en hann heillaðist af landinu eftir að hann komst í kynni við íslenskar bókmenntir þegar hann var í námi. Leið hans lá fljótlega til Sauðárkróks þar sem hann starfar við grunnskólann sem skólaliði og leiðbeinandi. Raúl er skáld og hefur ort nokkuð á íslensku, aðallega ljóð um Tindastól sem hann segir að sé fallegasta fjall Evrópu.

Ég get ekki beðið eftir að komast norður í sveitasæluna og bið ykkur að taka vel á móti Raúl þegar hann kemur.

Fræðilegur Moggi

Ég rak augun í þetta í Mogganum:

Sol Campbell kom Portsmouth yfir skömmu síðar eftir fræðileg mistök Marcus Hahnemann, markvarðar Reading, sem missti boltann í markteignum.


Ekki veit ég á hvaða fræðum markmaðurinn klikkaði en blaðamaðurinn og prófarkalesarinn gerðu sannarlega fræðileg mistök.

þriðjudagur, janúar 01, 2008

Judy GreerÞessi stelpa er í svolitlu uppáhaldi hjá mér því hún er frábær leikkona og það kæmi mér ekki á óvart þó að innan nokkurra ára yrði nafn hennar með þeim stærri í Hollívúdd. Sérstaklega er minnisstæð er frammistaða hennar í Adaptation og svo auðvitað í Arrested Development.

En tilefni þessarar færslu eru bólfarir þeirra persóna sem hún hefur leikið. Hún hefur opnað klofið fyrir afar svölum piparsveinum.

Fyrstan ber að nefna hetjuna mína, Hank Moody. Hann sarð hana, sem vændiskonuna Trixie, eftirminnilega í Callifornication.Druslan og alkóhólistinn Charlie Harper er svalur gaur enda þótt hann sé aðeins hálfdrættingur Hank Moodys. Hann sængaði saman með Myru, persónu leikinni af Judy, í þættinum Two and a Half Men.Að endingu vil ég bæta við einum piparsveini í viðbót, Gob Bluth, en hann fíflaði Kitty í Arrested Development, leikna af Judy.
 

Powered by Blogger