Fyrirmyndarsamfélag – loksins aftur ælublogg
Á laugardaginn lýsti Zizek samfélagi sem honum hugnaðist vel, kannski ekki útópísku fyrirmyndarsamfélagi, en samfélagi þar sem hann gæti vel hugsað sér að lifa og hrærast. Í samfélaginu fullnægðu menn grunnþörfum sínum hvað sem það kostaði og köstuðu um leið fyrir róða gildum og viðmiðum sem siðferðisþrek okkar myndi þola illa, en gerðu ekkert umfram það að fullnægja grunnþörfum sínum. En það sem mestu máli skipti að allt þetta var gert með fullkomnu tilgerðarleysi.
Eflaust er tilgerðin eitt mesta samfélgasmein vesturlanda því með tilgerðinni verður ákveðið rof í samskiptum manna og allt tjáningarferli heftist. Ég fór að velta vöngum yfir því hvernig mitt fyrirmyndarsamfélag væri og langar því að segja frá tilteknu atviki í mínu lífi.
Snemma í haust fór ég á fjáföflunarmálsverð í Friðarhúsinu og skemmti mér konunglega eins og alltaf því félagsskapurinn þar er óviðjafnanlegur. Eins og svo oft þegar maður er staddur meðal skoðanasystkina er vel staupað og málbeinið lausara en alla jafna. Þegar klukkan nálgaðist miðnættið var ég orðinn vel við skál og kvaddi, labbaði á Hlemm og tók síðasta vagninn heim til mömmu í Gravarvoginn. Eitthvað fór bílferðin illa í mig og mér varð bumbult en hélt ég gæti haldið öllu niðri þangað til ég kæmi til mömmu. Svo gerðist það óumflýjanlega, strætóbílstjórinn hemlaði snarlega þegar Miklubrautin var á enda og upp úr mér stóð spýjan og hún var ekki fögur. Björk Vilhelmsdóttir eldaði fyrr um kvöldið lambalifur í bláberjasósu (!) og innhald ælunnar því eftir því í bland við rauðvín og bjór. Í örvæntingu minni rauk ég upp, útataður í ælu, hringdi bjöllunni og bjóst til að fara út í Ártúni og labba þaðan eða taka leigubíl heim til mömmu. Strætóbílstjórinn stöðvaði vagninn á stoppustöðinni en opnaði ekki dyrnar. Ég leit í átt að bílstjóranum og augu okkar mættust í baksýnisspeglinum og við það tók hann af stað. Verksummerkin blöstu við mér og ég reyndi að gera mig ósýnilegan því ég blygðaðist mín verulega. Nokkrum mínútum síðar staðnæmdist vagninn við biðskýlið hjá stoppustöðinni við heimili mömmu og dyrnar opnuðust og ég var frjáls.
Kvöldið eftir rölti ég í átt að strætóskýlinu allsgáður og velti fyrir mér atburðum gærkvöldsins og undraðist viðbrögð strætóbílstjórans. Þegar vagninn kom steig ég um borð og mér til mikillar skelfingar var þar sami vagnstjórinn og kvöldið áður. Felmtri sleginn arkaði ég aftst í vagninn og reyndi að gera mig eins smáan og ég gat og sálartetrið eftir því. Þegar ég nálgaðist áfangastað minn þrýsti ég á hnappinn, stóð upp og tók mér stöðu fyrir framan dyrnar. Vagninn staðnæmdist en dyrnar opnuðust ekki. Ég leit skelkaður í andlit bílstjórans í speglinum og hann ók af stað. Ég settist í sæti mitt og bjóst við því að hann keyrði mig inn inn á eitthvert verkstæði þar sem biðu mín tuttugu bandbrjálaðir strætóbílstjórar sem myndu fá útrás fyrir margra ára uppsafnaða bræði með því að buffa mig í köku.
Þegar ég var niðursokkinn í þessar pælingar mínar stöðvaðist vagninn og dyrnar opnuðust. Ég stóð upp undrandi því enginn hafði hringt bjöllunni og stöðvunarljósið logaði ekki. Svo leit ég í andlit bílstjórans í baksýnisspeglinum og hann glotti til mín. Þá fattaði ég hvernig lá í öllu saman, ég færði höndina upp að enni og heilsaði að hermannasið og við fórum báðir að hlæja og ég steig brosandi út úr vagninum.
Ég gæti vel hugsað mér að búa í samfélagi þar sem reglurnar væru með þessum hætti. Ég kem ölvaður í vagninn og bílstjórinn ber kennsl á mig og veit hvar ég fer alltaf út. Hann sér mig hringja bjöllunni eftir að ég kasta upp en sér aumur á mér og ákveður að aka með mig heim til mömmu í stað þess að skilja mig eftir í öðru hverfi, sótölvaðan í nístingskulda. Daginn eftir ekur hann mér aftur og ákveður að refsa mér þá með því að láta mig labba tvöhundruð metra til viðbótar og hleypir mér út á næstu stoppustöð eftir þá sem ég hafði hugsað mér að fara út við. Þetta var bráðsniðugt hjá honum og meinfyndið. Réttlætinu var fullnægt með bestu mögulegu útkomu fyrir alla og algerlega án allrar tilgerðar. Þetta var grímulaust og snilldarlegt.
Nú þurfum við öll að tileinka okkur þesslags hugsunarhátt, látum ekki skapið fara með okkur þegar náungar okkar fremja óverknaði, stillum okkur og hefnum okkar hæfilega með húmorinn að leiðarljósi.
Ég gæti hugsað mér að búa í samfélagi þar sem það væri bannað að drekka rauðvín og bjór sama kvöldið.