Og svo kom stríð og svo kom her. Og svo kom friður og enn meiri her. -Megas

laugardagur, janúar 05, 2008

Morð

Undanfarið hef ég verið afar meyr og berdreyminn. Ég held að ástæðan fyrir því sé að ég hef verið að pæla mikið í viðurstyggilegum morðum undanfarið.

Fyrir nokkru las ég Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson sem fjallar um íslenskt sakamál, morð, og sú bók situr í mér. Hún ætti að vera skyldulesning allra kynþroska Íslendinga. Nú er ég að lesa In Cold Blood eftir Truman Capote sem fjallar einnig um hræðileg morð. Milli þess sem ég les hlusta ég á Murder Ballads Nick Caves.

Eitt eiga þessir snillingar sameiginlegt. Þeir geta þvingað mann til að hafa samúð með ófreskjum svo að maður hefur nagandi samviskubit og fyllist um leið sjálfsfyrirlitningu. Svo sefur maður illa og fær martraðir.

Í svona hugarástandi getur maður ekki verið annað en frjór og íhugull og endurskoðað hluti sem maður hefur trassað allt of lengi.

###

Raúl sendi mér skeyti í dag og er að gera sig ferðbúinn. Hann hefur aðeins einu sinni komið til Reykjavíkur áður og ratar því ekki um borgina. Mér þætti vænt um ef einhver myndi sjá aumur á honum og fara með honum í gönguferð um bæinn og kannski á kaffihús. Enda þótt Raúl hafi aðeins búið á landinu í rúmt ár, hefur hann náð undraverðum tökum á íslensku svo að samskiptaörðugleikar ættu ekki að setja strik í reikninginn.

3 Comments:

  • Æ, Svartfugl er ágæt, en að setja hana á stall með Cave og Capote finnst mér óttalega skakkt. Óttalegt tilfinningaklám hjá honum nafna þínum.

    By Blogger Bastarður Víkinga, at 9:46 e.h.  

  • Nú verð ég að vera ósammála þér. Svartfugl er snilldarlega skrifuð og með bestu lesningum allra tíma.

    By Anonymous Nafnlaus, at 4:19 f.h.  

  • Góða skemmtun fyrir norðan minn kæri! Held það verði gott að anda að sér landsbyggðarloftinu og slaka í öxlum. Sorrý að ég svínaði á þér með kaffið um daginn, við verðum að taka það einhvern tímann eftir 14. jan.

    Og gleðilegt ár sömuleiðis.

    By Blogger Unknown, at 11:20 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home


 

Powered by Blogger