Og svo kom stríð og svo kom her. Og svo kom friður og enn meiri her. -Megas

laugardagur, janúar 19, 2008

Valhopp

Um daginn var ég að koma úr vinnu og labbaði Rauðarárstíginn að Hlemmi þar sem ég ætlaði að taka strætó heim því það var mjög kalt og ég nennti ekki að labba. Þegar ég nálgaðst Hlemm laust niður í huga mér hugmynd, frábærri hugmynd. Hugdettan var snilldarleg því hún var ekki aðeins hugmynd sem veitti mér mikla fróun og blés í brjóst mér mikinn sköpunarkraft, heldur greiddi hún um leið úr smá sálarflækju sem hafði angrað mig um hríð.

Þegar hugmyndin datt í huga mér tók ég lítið hopp; valhopp, algerlega ósjálfrátt. Heilanum fannst hugmyndin greinilega jafn góð og mér og sendi því rafstrauma sem ferðuðust með taugakerfinu niður í fætur og aftur til baka svo ég valhoppaði algerlega ósjálfrátt. Mér stökk bros á kinn og ég roðnaði, svo leit ég flóttalegur í kring um mig í þeirri von að enginn hafi séð mig.

Ég fór að velta vöngum yfir því af hverju ég skammaðist mín fyrir valhoppið. Maður á ekki að skammast sín fyrir að valhoppa þegar hjartað tekur auka kipp og hugurinn fer á flug. Ekki frekar en maður ætti að skammast sín fyrir að hlæja af fyndni eða gráta af sorg.

Svo tók ég annað valhopp mér til ánægju og yndisauka og mundi hvað það er gaman að valhoppa. Klukkan var átta á laugardagsmogni. Ég fálmaði í vösunum eftir i-podinum mínum og setti Just Like Heaven með The Cure í botn. Svo ákvað ég að hundsa Hlemm og strætóinn og valhoppa heim. Því næst tók ég á rás og valhoppaði niður mannlausan Laugaveginn framhjá ælu og brotnum bjórflöskum. Þegar ég svo lenti í Bankastrætinu var ég endurnærður. Ég hafði fundið aftur fyrir barninu í sjálfum mér og það er gulls ígildi.

Kæri lesandi. Næst þegar þér líður illa, mæli ég með að þú farir út og valhoppir aðeins, úti í garði eða á bílastæðinu, jafnvel í Víðihlíð því auðvitað var Megas búinn að uppgötva dásemdir valhoppsins löngu á undan mér:

Ef þú ert kvalin örgum pínslum
illra meina sífelldri nauð
og vondra manna mörgum klækjum
mildi guðs að þú ert ekki dauð.

###

Þá valhoppaðu inn í Víðihlíð.
Í Víðihlíð og Víðihlíð
og vertu þar síðan alla tíð
alla þína tíð - alla þína tíð.

2 Comments:

  • Ég geri stundum tilraunir til valhopps. Yfirleitt eru það ferðafélagar mínir sem stöðva mig snarlega, blóðrauðir af skömm.

    By Anonymous Nafnlaus, at 9:39 e.h.  

  • Ef að ferðafélagar þínir eru steingeldir sagnfræðinemar þá undrar mig ekki.

    Það þarf að forrita samfélagið upp á nýtt. Það er asnalegt að verða blóðrauður af skömm ef þú sérð samferðamenn þína valhoppa. Ef allir væru valhoppandi væri minna um almennan fávitaskap sem er sífellt vaxandi samfélagsmein.

    By Anonymous Nafnlaus, at 9:56 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home


 

Powered by Blogger