Og svo kom stríð og svo kom her. Og svo kom friður og enn meiri her. -Megas

mánudagur, janúar 28, 2008

Uppgjör

Síðasti laugardagur á seint eftir að líða mér úr minni. Hann hófst með heilusbótagöngu því krankleiki sökum synda gærkvöldsins er óásættanlegur þegar Zizek messar yfir hausamótunum á manni. Fyrirlesturinn var vægast sagt hressandi og ég kiknaði í hnjánum eins og fermingarstelpa þegar hann áritaði bókina fyrir mig og leyfði mér að taka mynd af sér.

Ekki versnaði það svo um kvöldið þegar ég sá Sigurrós spila á Sirkus. Ég sá líka Hjaltalín sem kom mér skemmtilega á óvart. Þessi hljómsveit hefur afar ferskt og áhugavert sánd sem ég fíla í tætlur. Ég fæ alltaf ánægjuhroll þegar ég heyri í klarínettu og samspil hennar og fiðlunnar hjá krökkunum í Hjaltalín var snilldarlegt.

Eins og allir vita er ég fordómafullur maður og ég fyrirlít saxófón jafn mikið og ég elska klarínettu. Ég veit ekki af hverju en það hlýtur að vera níunda áratugnum og fyrri hluta þess tíunda að kenna. Það er varla til sá sjónvarpsþáttur frá þessum tíma þar sem saxófónninn spilar ekki stóra rullu. Hljóðfærið var svo ofnotað að ég fæ grænar bólur þegar saxófónn á að tákna eða undirstrika trega í þáttum og bíómyndum, í staðinn framkallar hann viðbjóð.

###

Ég horfði á Spaugstofuna í endursýningu í gær og mér brá illilega í brún. Mér finnst grafalvarlegt mál hvernig þeir Spaugstofumenn gerðu grín af Ólafi borgarstjóra. Ég hef það á tilfinningunni að þessir menn geti gert hvað sem þeim sýnist og lúti engri yfirstjórn inni á RÚV. Það sem þeir sýndu á laugardaginn er glæpur ; glæpur gegn góðum húmor. Málið er einfaldlega það að þátturinn var ekki vitund fyndinn. Hann var illa skrifaður, illa leikinn og mér var misboðið sem aðdáanda góðs húmors en ekki sem geðsjúklings. Auðvitað á að gera grín að geðsjúklingum og geðsjúkdómum eins og öðrum sjúklingum og sjúkdómum. Ef Spaugstofumenn hefðu einhverja hæfileika, væru frumlegir og ekki gjörsamlega útbrunnir þá hefði verið hægt að gera þennan þátt mjög fyndinn því eins sorglegir og geðsjúkdómar eru þá geta þeir oft verið bráðfyndnir.


P.S.

Ólafur, hættu þessu fokking væli með að heilsan þín sé þitt einkamál því hún er það ekki. Ef þú ætlar að starfa í umboði okkar Reykvíkinga þá höfum við fulla heimtingu á því að þú upplýsir okkur um heilsufarsástand þitt. Mér þætti ágætt ef þú skilaðir inn læknisvottorði einu sinni í mánuði.

P.P.S.

Hey, þú þarna stelpa sem rakst tunguna upp í mig á dansgólfinu á Kofanum um fimmleytið á sunnudagsmorguninn, endilega sendu mér ímeil. Mér finnst þú svolítið sæt.

2 Comments:

  • mér er sama hvað þér finnst um eftirfarandi athugasemd mína á þér en ég ræð því sem mér finnst: þú ert agalega mikið krútt. og ég er sammála þér um saxófóninn...nema þegar Lisa Simpson spilar á hann. þá finnst mér hann í fínu lagi.

    By Blogger Tinna, at 11:31 e.h.  

  • Mig langaði alltaf til að spila á saxafón þegar ég var 9 ára, en það var bara vegna þess að ég gat bara valið milli saxafóns og básúnu... þannig ég fór í handbolta.

    By Anonymous Nafnlaus, at 11:42 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home


 

Powered by Blogger