Og svo kom stríð og svo kom her. Og svo kom friður og enn meiri her. -Megas

miðvikudagur, febrúar 13, 2008

Standpína í Köben

Þegar ég var á mínu tuttugasta aldursári og nýskriðinn úr menntaskóla tók ég skyndiákvörðun um að dvelja sumarlangt í Kaupmannahöfn með nokkrum strákum sem ég þekkti misvel. Ég tók með mér allan sjóðinn minn sem var ekki stór og ætlaði að fá mér vinnu þegar ég kæmi út. Einhvern veginn dróst það þar sem maður var með smá sparifé með sér og skemmti sérhvert kvöld. Þegar ágústmánuður gekk í garð var ég orðinn gersamlega blankur og sjálfsvirðing mín leyfði mér ekki að hringja heim og væla út meiri aur. Þá datt mér snilldar ráð í hug. Pabbi minn var staddur á Jótlandi að þjálfa krakka í æfingabúðum og ég bauð honum að koma til Köben yfir helgi til að eiga smá kvolítítæm með syninum. Ég tók á móti honum á lestarstöðinni með tvö reiðhjól og fullan bakpoka af bjór. Svo hjóluðu við saman um borgina og ég var hinn besti leiðsögumaður þar sem ég hafði mælt allar götur Kaupmannahafnar með bjór í hendi í aðgerðarleysi mínu um sumarið. Reyndar var ég ekki alveg aðgerðarlaus því ég las óhemju mikinn Kiljan það sumar. Við pabbi stoppuðum svo á þeim stöðum sem mér fannst mest til koma í borginni og drupum á bjór við hvert stopp. Síðustu krónurnar mínar fóru í að kaupa bjórinn og ég var orðinn allslaus en sagði ekki orð. Eftir að við sturtuðum okkur eftir hjólreiðatúrinn sagðist pabbi ætla að bjóða mér út að borða og munnurinn minn fylltist af vatni þar sem ég hafði ekki borðað neitt nema hrísgrjón og drukkið bjór dögum saman. Ég var um 60 kíló á þeim tíma og 188 sentímetrar. Við ákváðum að fara á Hard Rock og fengum okkur hamborgara og bjór. Maturinn var yndislegur en þegar ég leit á matseðilinn og sá hvað hamborgarinn og bjórinn kostaði langaði mig að æla matnum út úr mér og fá endurgreitt, fara út í Netto og kaupa mér matar- og bjórbirgðir fyrir nokkra daga fyrir sama verð og pabbi greiddi fyrir eina máltíð á veitingastaðnum.

En þetta er nú bara útúrdúr því þessi færsla snýst um myndband eitt sem við sáum á Hard Rock þetta kvöld. Ég er ekki frá því að ég hafi fengið standpínu þar sem ég sat með hamborgarann í annarri og bjór í hinni og horfði á myndbandið. Aldrei fyrr hafði ég séð jafn ófrítt fólk geisla af jafn miklum kynþokka.

Kæru lesendur. Horfið og njótið!



Auðvitað fylgir sögunni að pabbi gaf mér vasapening þegar við skildumst við á lestarstöðinni að helginni lokinni og ég svalt ekki síðustu dagana í köben.

Þó ég hafi komið heim með sært stolt var þetta besta sumar lífs míns.

2 Comments:

  • Ótrúlegt hversu kynþokkafullur svona feitur og ófríður maður getur verið, en þetta er klárlega eitt besta lag allra tíma.

    By Anonymous Nafnlaus, at 9:54 f.h.  

  • Gód saga!

    By Anonymous Nafnlaus, at 5:13 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home


 

Powered by Blogger