Sirkus og orð dagsins
Fyrr í kvöld kom maður í lobbíð til mín að leita upplýsinga. Hann er miðaldra, svolítið lúðalegur útlendingur sem er einn síns liðs í skemmtiferð á Íslandi. Ég aðstoðaði hann og seldi honum ferð á Þingvelli og Gullna-hringinn og með okkur tókst spjall. Upp úr dúrnum kom að hann var ótrúlega fróður um Ísland og vissi greinilega sínu viti. Hann tjáði mér að honum hugnaðist illa niðurrif gamalla húsa í miðbænum og hann hlakkaði miklu meira til að fara á Sirkus í kvöld en að skoða þjóðgarðinn, hverinn og fossinn.
Þetta finnst mér magnað!
En hann var svolítið stressaður og hélt að hann myndi passa illa inn í umhverfið á Sirkus. Ég sagði honum að hann þyrfti ekkert að óttast, liðið sem hangir þar væri í öllum regnbogans litum (nema kannski í gráum jakkafötum). Hann sló til og þegar hann kom til baka brosti hann út að eyrum og sagði að hann hefði passað eins og flís við rass inn í hópinn og var afar sáttum við að hafa fengið sér ölkrús á heitasta, krúttlegasta og furðulegasta stað í Norður-Evrópu áður en honum væri lokað.
###
Ég var að flétta í Orðabók Menningarsjóðs (4. prentun 1990, 2. útgáfu 1983) áðan mér til ánægju og yndisauka. Þá rakst ég á oriðið "reyfari":
reyfari, a, -ar léleg skáldsaga, skemmtisaga, saga sem ekki er samin eftir bókmenntalegum, listrænum sjónarmiðum
Það er ekkert annað! LÉLEG SKÁLDSAGA. Auðvitað verður að taka með í reikninginn að árið 1983 var engin glæpasagnahefð á Íslandi og kannski skiljanlegt að virtir rithöfundar létu það eiga sig að skrifa glæpasögur þegar þesslags hugsunarháttur var ríkjandi. Þegar Birgitta Halldórsdóttir hóf að gefa út sínar yndislegu bækur var hennar grein dæmd sem ”saga sem er ekki samin eftir bókmenntalegum, listrænum sjónarmiðum”.
Ég get ekki beðið eftir því að komast heim og flétta í orðabókarútgáfunni hans Marðar og sjá hvað stendur þar um reyfara.