Og svo kom stríð og svo kom her. Og svo kom friður og enn meiri her. -Megas

fimmtudagur, desember 20, 2007

Virðing

Í landi voru eru nokkrar starfsstéttir sem við Frónbúar berum ekki nægilega virðingu fyrir.

Strætóbílstjórar:

Mikið álag og óþýtt viðmót. Enda er öll starfsstéttin með skeifu.

Leigubílsstjórar:

Sálusorgarar og skriftastólar smáborgarans. Ef þú hefur einhvern tíma reiðst leigubílsstjóra fyrir að keyra ekki nákvæmlega sömu leið heim til þín og þú gerir, þá ertu fífl. Einu sinni var ég í leigubíl á leiðinni heim og það var stúlka sem keyrði bílinn. Hún spurði mig með skjálfandi röddu hvort mér væri sama þótt hún keyrði Sæbrautina í stað Miklubrautar. Ég hló og sagði að mér væri skítsama. Hún sagði mér að fyrr um kvöldið hafi jakkafataklæddur aristókrat nærri lamið sig fyrir að keyra ekki Miklubrautina.

Póstþjónustu- og blaðburðarfólk:

Berið virðingu fyrir því. Ef þú ert með miða í glugganum í anddyrinu sem á stendur:

ENGAN RUSLPÓST TAKK FYRIR!!!!!!!!!!!!!!!!!

þá ertu hálfviti. Hásteflingar og sautján upphrópunarmerki eru rakinn dónaskapur.

Skólaliðar:

Ímyndaðu þér ef fjórtán ára bólugrafið gerpi í mútum segði þér að halda kjafti nokkrum sinnum á dag.

Starfsfólk frístundaheimila:

Læti, áreiti. Áreiti, læti. Öskur, ískur. Grátur, hlátur. Læti, áreiti. –Allan liðlangan daginn.

Ræstingarfólk:

Erfiðasta vinnan og lægstu launin. Aldrei skaltu ganga á blautu gólfinu þegar verið er að skúra. Hinkraðu, gólfið er bara tvær mínútur að þorna. Ef þú ert á Hlöðunni og gengur á skítugum skónum yfir blautt nýskúrað gólfið þá má sá/sú sem skúraði gólfið koma til mín og fá vottorð fyrir því að það megi hella kaffi yfir næstu handskrifuðu heimildavinnuna sem þú vinnur.

5 Comments:

  • sem starfsmaður á frístundaheimili get ég ekki verið annað en hæstánægð með þessa færslu :)

    By Blogger Tinna, at 7:43 f.h.  

  • Já og afgreiðslufólk verslana sem þar jafnvel að þola barsmíðar frá viðskiptavinum og allskonar áreiti.
    Ef um litað starfsfólk er að ræða þó það sé uppalið á Íslandi frá fæðingu þá velja rasistar það fólk til að níðast á. Ég þekki það síðan ég var í þessum bransa.

    By Anonymous Nafnlaus, at 10:02 f.h.  

  • Ég er með færslu í smíðum um stelpu sem vinnur í Bónus á Laugavegi.

    Hún er búinn að vinna þar síðan í haust og ég hef fylgst með henni þegar ég versla.

    Hún er frá Austur-Evrópu og kunni ekki orð í íslensku í haust.

    Þroskasagan kemur innan skamms.

    By Anonymous Nafnlaus, at 10:21 f.h.  

  • Það var einhver kjallarabúi á Hrísateignum sem var með svona miða í glugganum hjá sér:

    OG ALLS ENGANN RUSLPÓST!!!! ÞÁ MEINA ÉG ENGANN OG REYNIÐI AÐ SKILJA ÞAÐ!!!!!!!

    Miðað við skriftina gæti reyndar hafa verið um þroskaheftan einstakling að ræða.

    By Anonymous Nafnlaus, at 11:37 f.h.  

  • Held ég viti hvaða stelpa í bónus þetta er. Man að einu sinni var hún að afgreiða einhverja konu sem var á undan mér í röðinni og kerlingarbeyglan sú gerði bara grín að grey stelpunni afþví hún talaði ekki íslensku. Kom með svona skítakomment eins og "oh, you don't speak Icelandic? Do I maybe have to speak German tomorrow?"

    Svo eru þjónar líka stétt sem nýtur lítillar virðingar þrátt fyrir að þurfa að þræla á fáránlegum vinnutímum, hlaupa eins og geðsjúklingar, alltaf í stresskasti, og yfirleitt til að snúast í kringum einhverja hrokafulla nýríka hálfvita.

    -Kári

    By Anonymous Nafnlaus, at 5:51 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home


 

Powered by Blogger