Helgin
Hún byrjaði skemmtilega. Miklir endurfundir urðu þegar gamla stjórn Mímis kom saman í vísindaferð. Sumir voru drukknari en aðrir (Óli) og ég laumaðist heim um eittleytið. Ég skemmti mér virkilega vel.
Vaknaði svo á laugardaginn og rölti um bæinn. Síðar fékk ég heimsendingu. Fjögur hefti af TMM send heim að dyrum og afhent af engum öðrum en ritstýrunni sjálfri. Rölti með henni upp í Mál og menningu þar sem ég sá Kristínu Svövu lesa upp og gamla karlinn sem gaf henni illt augnaráð. Fór síðan á kaffhús með bókmenntaelítunni þar sem aðallega var rætt um slæmar bókmenntir.
Um kvöldið var svo haldið á fjáröflunarmálsverð Röskvu sem heppnaðist afar vel. Sá Kristínu lesa upp annað skiptið þann dag. Eftið það héldum við nokkur í strætó í Hafnarfjörðinn þar sem Arngrímur bauð til afmælisveislu. Á móti okkur tóku þúsund vindstig og afmælisgjöfin var marsinnis næstum fokin út í Faxaflóann.
Afmælisgjöfin var nokkuð frumleg þótt ég segi sjálfur frá; Einkennisklæðnaður bóhemsins. Hann samanstendur af jakka sem ég keypti í Kolaportinu, ábyggilega úr einhverju dánarbúinu, og svo forláta hatti sem ég keypti í Hróaskeldu. Auk þess bætti ég við tveimur sorpritum, Fölskum fulgi Mikales og Sex augnablikum eftir Þorgrím.
Kvöldið var hörku skemmtilegt, trallað og sungið til að verða þrjú. Þá deilum við leigubíl heim sem ég og Jón skiptum, þó var hann höfðinglegur og borgaði megnið af honum. Í bænum átti ég stefnumót við tvo vini mína á Kofanum. Þegar ég sá hvers var umhorfs þar þá ákvað ég að fara bara heim og sofa. Svo þéttsetinn var staðurinn. Þegar ég kom svo að útidyrunum uppgötvaði ég mér til mikillar skelfingar að ég var lyklalaus. Hafði gleymt þeim heima hjá mömmu fyrr um daginn þegar ég hafði jakkaskipti.
Hvað gerir maður þá? Jú, maður staulast niður í leigubílaröð sem var svo löng að hún náði útfyrir Bókhlöðustíg! Í þokkabót var ég fastur á milli tveggja vinahópa fólks af ´68 kyslóðinni sem er ekki beint það fólk sem þú vilt umgangast þegar það er drukkið. Sem betur fer var ég með i-podinn minn á mér og blastaði eitthvað skemmtilegt til að losna við röflið í fólkinu. Loks rúmum klukkutíma síðar var ég sestur upp í leigubíl og brunaði heim til mömmu og bjó um mig í sófanum. Ég svaf eins og ungabarn.
mjog ahugavert, takk