Símafyrirtækið sem vildi vita hver skeit á hausinn á því
Við lifum á undarlegum tímum. Mætur maður sagði eitt sinn að módernismi væri menningarstefna en póst-módernismi menningarástand. Pönkið, anarkisminn og súrrealisminn breyttu miklu í menningu þjóðarinnar fyrir hart nær þremur áratugum og hristu vel upp í stoðum samfélagsins. Nú er pönkið snúið aftur í annarri mynd. „Skítt með kerfið“ segir alþjóðlegt stórfyrirtæki í símaauglýsingu.
Kúkum á kerfið / Skítt með kerfið. Hver er munurinn á kúk og skít? Hver er munurinn á símafyrirtækjunum? Harla lítill, svipaður og á kúk og skít. Eflaust er þessari auglýsingu beint gegn Símanum og hann á að tákna „kerfið“. Almenningur gerir ekki greinarmun á þessum fyrirtækjum. Síminn er ekkert meira „kerfi“ en Vodafone.
Ef Vodafone hefði verið til 1982 hefðu Bjarni móhíkani og félagar líka kúkað á það fyrirtæki rétt eins og allt kerfið.
Við lifum á undarlegum tímum. Öllu er snúið á haus og allt er á röngunni. Er auglýsingamennska gengin af göflunum? Er símafyrirtæki virkilega að biðja almenning að gefa skít í sig?
Þó er eitt jákvætt við þessa auglýsingu; afskræming íslenska fánans. Fánadýrkun er heimskuleg og ýtir undir þjóðernisrembing.
Mér er minnisstætt símafyrirtækið Rautt, sem voru svo róttækir að selja eingöngu frelsiskort og stafa r-ið afturábak. Auglýsingarnar voru allar afar grófgerðar, örfáar sekúndur, með harðri rokktónlist og Smáratarfslúkkalækum að gefa fokkjúmerki áður en lógóið birtist.
Þetta var til að gefa fyrirtækinu þá ímynd að það væri bæði underground og á jaðri samfélagsins - jafnvel framúrstefnulegt. Mér vitanlega var það svo underground að það hvarf sporlaust aðeins örfáum mánuðum eftir að það birtist. Meira að segja áður en það hvarf vissu fáir hvar það hafði aðsetur, en ég þekkti þó einn mann sem verslaði við Rautt, og eitt sinn er hann opnaði símann sinn af hvaða ástæðu sem menn gera slíkt þá sagði ungur drengur við hann:
- Ertu með rautt?
- Já.
- Kúl. Mér hefur alltaf fundist Rautt dáldið töff.
Líklega hefur það verið á svipaðan hátt og Tony Hawk er töff.
(þessi ritgerð er kostuð af Tal, áður (Hive + Sko) + Vodafone (áður Tal))