Og svo kom stríð og svo kom her. Og svo kom friður og enn meiri her. -Megas

fimmtudagur, júní 26, 2008

Bensínlítrann í 200 kall

Mér finndist eðlilegast að almenningur greiddi 200 kall fyrir bensínlítrann. Það væri ágætt að miða við að bensínlítrinn væri tvöfalt dýrari en mjólkurlítrinn.

Fólk verður að átta sig á því að einkabíllinn er munaður en ekki sjálfsögð lífsgæði. Það er auðveldlega hægt að komast af án einkabílsins og bruðlið með bensín er alltof mikið. Fólk keyrir stuttar vegalengdir sem auðveldlega er hægt að labba eða hjóla. Einnig samnýtir fólk ekki bíla og tekur ekki strætó.

Tryggingar eru rándýrar. Það er fáránlegt að sá sem keyrir 5.000 km á ári greiði jafn mikið í tryggingar og sá sem keyrir 30.000 km á ári. Auðvitað ættu tryggingar að miðast við akstur. Sá sem keyrir sex sinnum meira en annar er líklegri en hinn að valda tjóni.

Þeir sem búa á þéttbýlissvæðum og verða að eiga bíla ættu að setja sér það markmið að keyra ekki meira en 5.000 km á ári. Það ætti að vera lítið mál að ná því markmiði.

Heimskreppan ásamt barnalegri íslenskri efnahagsstjórn er kannski bara gott mál. Vonandi á kreppan eftir að kenna okkur að við verðum að aðlagast umhverfinu á annan máta en við höfum tamið okkur hingað til. Við þörfnumst aðhalds frá sjálfum okkur og við verðum að hætta að bruðla. Það kemur bæði fjárhagnum okkar og umhverfinu til góða.

Annars er mér persónulega skítsama um bensínverð og tryggingar þar sem ég borga ekki krónu í hvort tveggja.

1 Comments:

  • Já það er orðið dýrt að lifa í þessum heimi! En kíktu endilega á bloggið mitt Gunnar minn slóðin er:
    www.heimirjon.blog.is og commentaðu og mig vantar fleyri bloggvini!!

    Kv Heimir

    By Blogger Heimir, at 11:54 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home


 

Powered by Blogger