Gamlar tussur og erlendar yngismeyjar
Ég geri mín matarinnkaup alltaf í Bónus á Laugavegi. Mér finnst það stórskemmtilegt því mér líður eins og ég sé að taka þátt í samfélgaslegri tilraun í hvert sinn sem ég versla þar. Flestir starfsmenn þar eru nefninlega ungar erlendar konur sem tala litla sem enga íslensku þegar þær hefja störf.
Það er því ómetanlegt fyrir mig sem íslenskunema að fylgjast með því hversu fljótt stelpurnar læra tungumálið. Einungis vegna þess að þeim er strax hent út í djúpu laugina og þær látnar afgreiða fólk frá fyrsta degi, læra þær íslensku ótrúlega hratt.
Eflaust er þeim lofað einhverskonar lagerstörfum þegar þær sækja um, en ég skil verslunarstjórana vel. Þeir hafa úr afar einsleitum hópi starfsfólks að velja og hafa því engra annarra kosta völ en að setja greyjin stelpurnar strax á kassa.
Þetta finnst mér stórkostlegt og ég er stoltur yfir því að hafa kennt þeim - þó ekki sé nema pínulitla - íslensku með samskiptum okkar í búðinni.
Stundum skilja þær mig alls ekki og þá þarf ég að tala ensku við þær. Þó er það yfirleitt ég sem tala ensku að fyrra bragði.
Þessar stelpur eru afar umkomulausar fystu dagana og vikurnar í vinnunni og ég man sérstaklega eftir einni sem hóf störf í haust. Hún kunni ekki orð í íslensku þegar hún afgreiddi mig og sagði mér upphæðina á vörunum sem ég keypti á ensku. Næst á eftir mér í röðinni var gömul settleg frú. Þegar unga stúlkan sagði við hana : "Threethousandsixhundredthirtyfour" þá skeit gamla tussan næstum á sig af bræði og bölvaði henni á ljótri íslensku. Aumingja stelpan roðnaði og leið greinilega mjög illa. En á meðan unga stúlkan stóð eins og illa gerður hlutur með tárin í augunum, þá taldi aldna kuntan þrjúþúsundsexhundruðþrjátíuogfjórar krónur upp úr buddunni sinni. Auðvitað skildi sú gamla nákvæmlega það sem stelpan sagði.
Það er afar áhugavert að sú kynslóð sem kenndi minni kynslóð að kurteisi og virðing væru æðst allra gilda skuli haga sér svona - að láta smávægilega samskiptaörðugleika gersneyða sig allri mannvirðingu. Kannski er það ágætt að ákveðin viðmið deyji út með þessari kynslóð. Ætli Útvarp Saga og Frjálslyndi Flokkurinn fylgi henni ekki blessunarlega í gröfina?
Ég hvet sem flesta að snúa sér að erlendu starfsfólki stórverslanna ef upp vakna spurningar. Kennum fólkinu íslensku og tölum ensku ef það skilur ekki og segjum þeim nafn hlutarins á íslensku. Þá er ég viss um að þegar næsti viðskiptavinur spyr sömu spurningar, mun starfsmaðurinn svara á íslensku.
Ekki veit ég hvort stelpurnar í Bónus eru nýbúar, íbúar, nýjir Íslendingar eða bara útlendingar. Ég ætla að leyfa þeim að skilgreina sig sjálfar. Það eitt veit ég að þær eiga hrós skilið.
Heyr, heyr!
-Kári