Axlabönd, Axlar-Björn og Axlar-Bjarnarbarnabörn.
Nú er ég á síðustu vaktinni minni á hótelinu. Ég er að hætta því í sumar tek ég við sem hótelstjóri á sumarhóteli úti á landi.
Mikið hefur breyst frá því ég hóf störf hérna í ágúst og þar með talið mittismálið. Í kvöld fór ég í sömu buxurnar og ég fór í fyrsta vinnudaginn minn síðasta sumar. Þá smellpössuðu þær en nú detta þær niður um mig. Sömu sögu er að segja um beltið mitt. Það er of vítt, jafnvel í innsta gatinu. Því brá ég á það ráð að nota axlabönd og þá datt mér í hug Axlar-Björn.
Axlar-Björn er þekktasti fjöldamorðingi Íslandssögunnar og var tekinn af lífi eftir að hann slátraði átján manns á öndverðri 16. öldinni. Á vísindavefnum segir:
Axlar-Björn var dæmdur til dauða og tekinn af lífi árið 1596 að Laugarbrekku; fyrst beinbrotinn á útlimum með sleggjum, síðan afhöfðaður og þar á eftir brytjaður niður og einstakir hlutar úr líkama hans festir upp á stengur.
Ónáttúra Björns gekk í erfðir því að sonur hans Sveinn skotti var hengdur árið 1648 eftir að húsfreyjan í Rauðsdal á Barðaströnd gat látið binda hann þegar hann kom og vildi nauðga henni.
Í öðru svari á Vísindavefnum kemur fram að Axlar-Bjarnarættin er ótrúlega lítil í ljósi þess fyrir hversu löngu hann var uppi. Aðeins fjórtándi hver Íslendingur er afkomandi hans. Og viti menn, hann er ái minn og ekki nóg með það. Sveinn skotti sonur hans er einnig forfaðir minn.
Þá er bara spurning hversu langt “ónáttúra” Björns hefur gengið í erfðir. Múhahahaha.
P.s.
Til að athuga hvort þið séuð afkomendur fjöldamorðingjans þá farið á Íslendingabók skrifið inn “Björn Pétursson” og fæddur 1555.
Axlar-Björn er náttúrlega eini Íslendingurinn sem vitað er um sem var serial killer skv skilgreiningunni. Ég held að Víga-Styr, Grettir og þessir kallar gætu ekki verið skilgreindir sem slíkir.