Og svo kom stríð og svo kom her. Og svo kom friður og enn meiri her. -Megas

fimmtudagur, desember 27, 2007

Hugvekja

Biskupinn brosti í fréttunum. Hann var ekki í kjól. Þetta var ekki það bros sem við eigum að venjast. Það bros biskupsins sem við þekkjum er kreist fram með herkjum í lok viðtalsins þegar hann áttar sig á að hann er í stöðugri vörn og að öll umfjöllun um kirkjuna er neikvæð.

Nei, nú var brosið hans einlægt. Hann lýsti yfir sigri kirkjunnar í baráttunni við heiðingja. Í sigrinum fólst aukin kirkjusókn almennings yfir hátíðirnar.

En sættir biskupinn sig virkilega við það? Kannski fagnar hann smásigrum í einstaka orrustum einlæglega og það gefur honum eflaust smá fróun, en stríðið er löngu tapað. Fólk hefur kannski í heiðri kristin gildi en kirkjan er fyrir löngu orðin óþörf, nema sem þjónustustofnun.

Meginþorri þjóðarinnar er kristinn að nafninu til en dagsdaglega er mammonsdýrkunin fólkinu ofar í huga en hrokagikkurinn frá Nasaret og pabbi hans. Íslendingar eru kristnir á jólum og þegar fólk deyr. Annars er þeim trú ekki ofarlega í huga. Það kæmi mér ekki á óvart þótt fleiri hefðu mætt á opnanir nýju leikfangaverslunanna en í kirkju um jólin.

Ég minnist þess þegar ég var í fermingarfræðslu, að við vorum skikkuð til að mæta í messu á sunnudögum. Mig minnir að við höfum þurft að mæta átta sinnum og fengum þar til gerðan stimpil í einhverja bók við innganginn í hvert sinn sem við mættum. Eitt sinn, milli þess sem ég lá á aftasta bekk og dró ýsur, leit ég fram í kirkjuna og sá prestinn messa yfir þremur hræðum. Nokkru fyrr hafði ég pirrað prestinn í fermingarfræðsu og hann tók í hnakkadrambið á mér og sagði mér til syndanna. Ekki man ég hvaða reiðilestur hann las yfir mér en lyktinni gleymi ég aldrei. Þegar andfýlan fyllti mín vit kúgaðist ég. Kaffistækja, ásamt súrum daun af óburstuðum tönnum sat föst í öndunarfærum mínum þangað til hann loksins sleppti mér og ég gat andað að mér fersku lofti. Mér fannst sem þessar þrjár hræður sem sátu á fremsta bekk hlytu að finna andfýluna úr prófastinum.

Þessar þrjár hræður gengu allar við staf eða göngugrind, enda var elliheimili við hliðina á kirkjunni.

Þetta er ástæðan fyrir reiði biskupsins, Sveins Waage og allra hinna afturhaldsuppskafninganna. Þeir eru ekki reiðir yfir því að nokkrir trúleysingjar bendi á siðleysuna í því að einum trúarbrögðum sé hyglt á kostnað annarra í almennu skólakerfi. Þeir eru reiðir yfir því að fólki er orðið skítsama um kirkjuna, nema á jólum og þegar þarf að jarða einhvern.

Einu sinni var ég staddur í fjölskylduboði um páska þar sem voru yfir tuttugu manns. Þá spyr lítil frænka mín mömmu sína: “Mamma, hvað gerðist á Hvítasunnudag?” Stelpan kom að tómum kofa vitneskju móðurinnar. Allir litu flóttalegir í kring um sig. Þarna var full stofa af kristnum Íslendingum og enginn mundi hvað gerðist á Hvítasunnudag. Trúlaust hjarta mitt tók kipp. Ég stóð upp og spurði hárri raust fólkið hvað hefði gerst á Hvítasunnunni. Gat enginn svarað litlu stelpunni? Það kom á daginn að sá eini sem vissi hvað gerðist á Hvítasunnunni var trúleysinginn ég. Auðvitað þóttust allir muna það eftir að ég sagði þeim það, en það var bara stolið úr þeim.


Með guðlausu en siðlegu hjarta, óska ég ykkur gleðilegs jólafrís. Ég fékk allar mínar óskir uppfylltar þessi jól. Fékk bæði áfengi og sígarettukarton í jólagjöf. Getur drykkjusjúkur trúleysingi óskað sér betri jóla?

Skál!

5 Comments:

  • Hvað gerðist á hvítasunnunni?

    Leit mín að "the white sun" skilar engu á Wikipediu.

    By Anonymous Nafnlaus, at 8:27 e.h.  

  • Hvítasunnan er þriðja stórhátíð kristninnar. Með hvítasunnuhátíðinni lýkur páskatímanum. Nú eru liðnar sjö vikur frá páskum, og fimmtíu dagar. Af þeirri ástæðu ber hvítasunnan á mörgum erlendum tungum nafn sem dregið er af gríska orðinu pentecosté (hinn fimmtugasti).

    By Blogger Tinna, at 2:38 e.h.  

  • Það segir mér ekki neitt.

    Eitthvað gerðist á hvítasunnunni, hvað?

    By Anonymous Nafnlaus, at 5:05 f.h.  

  • Ókei, tók þig á orðinu, svo að segja: http://en.wikipedia.org/wiki/Pentecost

    Semsé: heilagur andi kom og slúðraði því í lærisveinana og fleiri fróma menn að Kristur kæmi aftur.

    Meiri stórhátíðin það. Ekki furða að enginn muni þetta, enginn man heldur daginn þegar sami andi kom og giljaði Maríu. Af hverju er það ekki n-ta stórhátíð kristninnar?

    (engin persónuleg sneið innifalin til Tinnu)

    By Anonymous Nafnlaus, at 5:10 f.h.  

  • ó ég get ekki tekið neinu persónulega hér. ég googlaði bara hvítasunna og þetta kom upp á heimasíðu kirkjunnar. mér finnst saga kristinnar trúar vera voða sæt og sorgleg og allt það en ég sel hana ekki dýrara en ég keypti hana :)

    By Blogger Tinna, at 5:20 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home


 

Powered by Blogger