Tekur undir með sjálfum sér
Að öðrum þáttum löstuðum er Landsbankamörkin á Stöð 2 Sport besti íslenski þátturinn í sjónvarpi um þessar mundir. Það er frábært að fá öll helstu atriði hverrar umferðar strax á skjáinn auk vandaðar umfjöllunar.
Margir hafa í gegnum tíðina sett spurningarmerki við greind íþróttamanna og þá sérstaklega knattspyrnumanna. Áhugavert er þó að það á almennt ekki við um knattspyrnukonur. Þær virka flestar bráðgáfaðar. Iðulega klifa lýsendur í sjónvarpi á því að íslenskar knattspyrnukonur séu annað hvort læknar eða verkfræðingar.
En hvað um það. Landsbankamörkin er góður þáttur. Vissulega tekur það á að láta málfarsvillur sem vind um eyru þjóta og þykjast ekki taka eftir þeim. Ég er oft upptjúnaður eftir að mitt lið, Breiðablik, hefur leikið og vil því fylgjast vel með umfjölluninni í kjölfarið. Þá verður maður að stilla hugann af og láta heimskulegt orðfærið ekki fara um of í taugarnar á sér.
Það væri lítið skemmtanagildi í því að telja upp þær málfarsvillur sem ég heyrði í viðtölum kvöldsins enda þótt að þar sé um auðugan garð að gresja. Þess í stað læt ég orð Magnúsar Gylfasonar meðfylgjandi:
Ég tek undir þau orð sem ég sagði í síðasta þætti.