Vitskert samfélag
Það eru pólskipti. Óskabörn þjóðarinnar steypa óskaforeldrum sínum, börnum þeirra og niðjum í skuldir um ókomin ár. Að hugsa sér. Þeir sem voru svo góðir við okkur og við svo góð við þá á meðan allt lék í lyndi. Þeir klipptu á borða og gáfu listamönnum ölmusu. Við kusum þá menn ársins og dáðumst að þeim í glanstímaritum.
Verðum við að steini ef við lítum um öxl? Sjálfur hef ég takmarkaðan áhuga á að líta við. Ekki það að ég sé hræddur við að verða að steini, mér líkar einfaldlega ekki sú sjón sem blasir við mér í baksýnisspeglinum. Borðaklippingarnar og glanstímaritin fóru alltaf í taugarnar á mér.
En hvernig líður lítilli hræddri þjóð þegar ædolin þeirra leggjast á hliðina og gefast upp (og hreinlega gufa upp í sumum tilvikum)?
Við erum stödd í miðri hringiðu siðrofs. Það veit ekki á gott en er óumflýjanlegt. Það er ekki að ástæðulausu að áfallahjálp sé í boði í neyðarskýlum því mannskepnan hefur tendens til að farga sér frekar en ella í svona umhverfi og við svona aðstæður. Það er ekkert nýtt og breytist seint. Eins sterk og við erum með byrinn í bakið þá erum við jafn veik í mótlæti. Margir hafa bent á að þessi skellur hafi verið nauðsynlegur og í raun heilbrigður. Samfélagið var vitskert og því auðsýnt að syndaflóð er þarft. Dyggðir eins og nægjusemi, aðgát og yfirvegun þóttu púkó og óþarfar. Við lifðum í lygi og vissum það flest sjálf enda kemur ástandið í dag okkur ekki jafn mikið á óvart og við viljum vera láta.
En við lærum ekkert nýtt af þessu. Við lærum aldrei neitt. Samfélagið verður alltaf vitskert. Það eina sem við getum gert er að flýja samfélagið. Helst langar mig að arka út í óbyggðirnar með ekkert nema nauðsynjar og gítarinn á bakinu og lifa af landinu.
Munum bara að elska hvert annað og að endingu læt ég fylgja með orð skáldsins Eddie Vedder: