Og svo kom stríð og svo kom her. Og svo kom friður og enn meiri her. -Megas

miðvikudagur, júní 09, 2004

Frjálshyggjufólk - ágætis fólk

Aldrei hefði mig grunað að ég kynntist jafn mörgum frjálshyggjumönnum á jafn skömmum tíma. Ég þakka fyrir þau kynni og fagna þeim. Sýn mín á frjálshyggjumenn (suma a.m.k.) er ekki jafn steríótýpísk og áður, og þá tala ég um nafntogaða frjálshyggjumenn.

Í ljósi þessa nýju kynna og annarra breytinga á umhverfi mínu hef ég farið í smá naflaskoðun og endurskoðað mínar grundavallarhugsjónir. Útkoman er sú að ég hef styrkst afar mikið í skoðun minni en um leið uppgötvað nýja vinkla á henni.

Ég er hættur að sjá hluti í jafn miklu hægri-vinstri samhengi og byrjaður að hugsa út frá réttlæti (þessu barnslega, þið vitið). Kommúnismi eða frjálshyggja er ekki leiðin til hamingju. Réttlætið er það hins vegar. Án efa fer þetta saman að einhverju leyti en ég einblíni meira á hitt þessa dagana. Byltingin kemur aldrei ef við verðum ekki betri hvert við annað. Hún byrjar innan frá. Ef við verðum betri við náttúruna og komum fram við hana af virðingu; ef við verðum betri við dýrin okkar og hættum að líta á þau sem framleiðsluvörur, þá verður auðveldara að vera betri hvert við annað.

Ef við hættum að hugsa alltaf í hægri-vinstri og byrjum að hugsa hvað er rétt, þá verður veröldin betri staður.

Ég get ekki ímyndað mér að einhverjum finnist það innst inni siðferðislega rétt að eyðileggja náttúruna og skella einum hvalfirði ofan á hálendið. Sömuleiðis að rækta þúsundir hænsa, sem fá aldrei að líta dagsins ljós, í einni skemmu svo aðeins sé hægt að selja kílóið á 299 kr. í Bónus.

Ef við lítum lengra inn í okkur, framhjá öllu sem við höfum lesið eða heyrt, og hlustum á okkar innri rödd, þá segir hún okkur að þetta sé ekki rétt. Fyrst þurfum við að hugsa svona, svo getum við farið að hugsa í hægri-vinstri.

Úff, þá er maður búin að blása. Ég átti samtal við unga frjálshyggjudömu um helgina og ég held að við höfum ekki náð að tjá okkur á skynsamlegan máta (enda drukkin, allavega ég). Það gæti hugsast að við eigum fleira sameiginlegt en okkur grunar. Hlakka til að hitta hana aftur.

2 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home


 

Powered by Blogger