Og svo kom stríð og svo kom her. Og svo kom friður og enn meiri her. -Megas

mánudagur, maí 24, 2004

Sumarsaga úr miðbænum

Í dag sat ég á bekk á Austurvelli við hlið styttunnar af Jóni Siguðssyni. Róni kom haltrandi og settist við hlið mér. Hann hélt á lítilli bjórdós. Ég var að lesa en hallaði aðeins höfðinu niður en hélt augunum á rónanum. Þá sá ég að hann teygði sig í vasa sinn og tók upp litla plastflösku með litlu opi og sprautaði glærum vökva ofan í bjórdósina. Spíralyktin gaus upp og sömuleiðis spírablandaði bjórinn og róninn mátti hafa sig allan við að ná froðunni upp í sig. Því næst kvaddi hann kurteisislega og haltraði í burtu.

Sköllótta skáldið sat á bekk nálægt með fjölskyldu sinni. Ég er viss um að hann fylgdist með okkur í sólskininu. Ef til vill fékk hann hugmynd af persónum eða jafnvel kafla í einhverri bóka sinna þegar hann fylgdist með okkur. Ég held að ég sé fyrri til.

Svo dró fyrir sólu og þar með hvarf lesljósið mitt bjarta og golan varð köld. Þá komu upp í huga mér orð hins sköllótta skáldsins Þegar kaldir vindar haustsins blása, en það er alls ekki haust, það er vor, rétt tæpilega sumar. Ætli hitt sköllótta skáldið hafi lesið Rómeó og Júlíu? Ekki hef ég lesið Rómeó og Júlíu. Samt held ég að ég geti samið lag um örlög þeirra.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home


 

Powered by Blogger