Og svo kom stríð og svo kom her. Og svo kom friður og enn meiri her. -Megas

mánudagur, júní 30, 2008

Fokking bankinn

Bankinn minn er frábær! Hann fellir krónuna og lækkar þannig launin mín og hækkar um leið verðið á þeim vörum sem ég kaupi. En það skiptir ekki máli því hann bauð mér í bíó.

Á ég að rífa miðana og sturta þeim niður í klósettið? Eða vill einhver eiga þá?

Sá/sú sem vill tvo miða á Mamma Mia í Laugarásbíói á fimmtudaginn klukkan átta, má hafa samband við mig.

sunnudagur, júní 29, 2008

Tussuklifun

Kári Páll kallaði mig dónakarl áðan vegna þess að ég klifaði á orðinu tussa í síðustu færslu.

Ef orðunum "Gunni tussa" er gúgglað, kemur þessi síða fyrst upp.

Það þykir mér dálítið skemmtilegt.

laugardagur, júní 28, 2008

Tussa

Ég hef verið að gæla við þá hugmynd að færa mig af blogspot og stofna mitt eigið lén. Fyrst athugaði ég hvort www.tussa.is væri laust og svo reyndist vera. Hins vegar er það upptekið í noregi.

Norsku tussuna má sjá hér. Hún reyndist vera orkufyrirtæki.

Íslensk orkufyrirtæki eiga það einnig til að vera tussur.

fimmtudagur, júní 26, 2008

Bensínlítrann í 200 kall

Mér finndist eðlilegast að almenningur greiddi 200 kall fyrir bensínlítrann. Það væri ágætt að miða við að bensínlítrinn væri tvöfalt dýrari en mjólkurlítrinn.

Fólk verður að átta sig á því að einkabíllinn er munaður en ekki sjálfsögð lífsgæði. Það er auðveldlega hægt að komast af án einkabílsins og bruðlið með bensín er alltof mikið. Fólk keyrir stuttar vegalengdir sem auðveldlega er hægt að labba eða hjóla. Einnig samnýtir fólk ekki bíla og tekur ekki strætó.

Tryggingar eru rándýrar. Það er fáránlegt að sá sem keyrir 5.000 km á ári greiði jafn mikið í tryggingar og sá sem keyrir 30.000 km á ári. Auðvitað ættu tryggingar að miðast við akstur. Sá sem keyrir sex sinnum meira en annar er líklegri en hinn að valda tjóni.

Þeir sem búa á þéttbýlissvæðum og verða að eiga bíla ættu að setja sér það markmið að keyra ekki meira en 5.000 km á ári. Það ætti að vera lítið mál að ná því markmiði.

Heimskreppan ásamt barnalegri íslenskri efnahagsstjórn er kannski bara gott mál. Vonandi á kreppan eftir að kenna okkur að við verðum að aðlagast umhverfinu á annan máta en við höfum tamið okkur hingað til. Við þörfnumst aðhalds frá sjálfum okkur og við verðum að hætta að bruðla. Það kemur bæði fjárhagnum okkar og umhverfinu til góða.

Annars er mér persónulega skítsama um bensínverð og tryggingar þar sem ég borga ekki krónu í hvort tveggja.

miðvikudagur, júní 25, 2008

Skynsamur nýfrjálshyggjuplebbi

Ég á til með að benda á þennan pistil eftir nýfrjálshyggjuplebbann Pawel. Þarna talar hann af mikilli skynsemi og hittir naglann svo sannarlega á höfuðið.

Annars held ég að netið sé mjög mikilvægt málþróuninni. Netið gerir það að verkum að í landinu eru í raun tvö tungmál. Netmálið er frábrugðið því hefðbundna að því leyti að það er miklu opnara. Í því verða til nýjar orðmyndir myndaðar úr því hefðbundna og nýjum orðum er mun greiðari leið inn í það en í hefðbundna tungumálið.

Því tel ég að það sé í raun lítil sem engin ógn sem stafar af slangri, styttingum og afbökunum í netmálinu því hið hefðbundna tungumál lifir sínu eigin lífi samhliða netmálinu. En auðvitað hafa tungumálin tvö snertifleti og þau skarast. Ef orð færist frá netmálinu yfir í það hefðbundna verður það að lúta reglum þess.

Sem áhugamaður um íslenska tungu fagna ég fjölbreytninni og lofa netmálið.

þriðjudagur, júní 24, 2008

Garðskálinn

Besti Garðskálinn til þessa. Samband miðaldra karlmanna og ungskálda er efni sem getur ekki klikkað.

mánudagur, júní 23, 2008

Kærleiksísbirnir

Þórhildur Halla gaf mér dvd-disk með Kærleiksbjörnunum í afmælisgjöf um daginn. Kannski maður sendi Þórunni umhverfisráðherra diskinn og vona að hún verði tregari við að gefa út skotleyfi á björninn eftir áhorfið.

Jónsmessunótt

Ef þið sjáið berrassaðan dreng velta sér upp úr dögginni við bakka Ytri-Rangár í nótt, þá mun það væntanlega vera ég.

sunnudagur, júní 22, 2008

Fokk, diss og rúnk

Það hefur verið minn skilningur - hingað til að minnsta kosti - að talsmáti ungs fólks smitaði helst niður fyrir sig. Það er að segja að þeir yngri apa eftir þeim eldri. Mér sýnist þetta blessunarlega vera að breytast.

Tveir afar áhrifamiklir spekingar, annar háaldra og hinn miðaldra hafa nú auðgað orðaforða sinn.

Jónas segir á einum stað að háskólaprófessor „fokki upp“ fræðunum og á öðrum stað talar hann um að fólk „dissi“ poppara.

Egill skrifaði um daginn um „hóprunk“ bankastjóra en ég get ekki betur séð en að hann hafi fjarlægt það.

Reyndar fær Egill ekki rokkstig vegna þess að hann skrifar rúnk með u-i. Jónas fær hins vegar tvö rokkstig.

föstudagur, júní 20, 2008

Sjálfhverfa?

Síðdegisútvarpið í dag:

Fjölmiðlamaðurinn Freyr Eyjólfsson og fjölmiðlakonan Linda Blöndal fengu í dag fjölmiðlakonuna Svanhildi Hólm og fjölmiðlamanninn Ingimar Karl Helgason til sín að ræða fréttir fjölmiðla.

Því næst kom umfjöllun fjölmiðlamannsins Héðins Halldórssonar um umfjöllun danskra fjölmiðla um umfjöllun íslenskra fjölmiðla um ísbjarnardráp.

þriðjudagur, júní 17, 2008

Fritzl í fullu fjöri fær fiskiflugu

Ég hef eignast gæludýr. Í gær sópaði ég nokkrum dauðum flugum úr gluggakistunni í lófann á mér og fór með þær út á pall. Á pallinum býr stærðarinnar könguló í miklum og fíngerðum vef. Ég lét eina flugu falla á vefinn úr lófanum á mér. Köngulóin var snögg til og vafði fluguna kyrfilega með þæði sínum. Nú í morgun var hún búin að éta fluguna.

Ég stakk upp á því við vin minn Brynjar að köngulóin yrði nefnd Jósep Fritzl. Honum fannst það óviðeigandi. Eftir málamiðlum ákváðum við að láta hana heita Kirsten Fritzl.

Nú er Kirsten vel mett úti á palli og í kvöld mun ég gefa henni feita fiskiflugu.

(Ofstuðlun fyrirsagnar er í tilefni þjóðhátíðardagsins.)


 

Powered by Blogger