Og svo kom stríð og svo kom her. Og svo kom friður og enn meiri her. -Megas

mánudagur, desember 31, 2007

Heimskt úthverfapakk

Á laugardaginn var ég staddur hjá móður minni í stærsta úthverfi Reykjavíkurborgar. Ég var þyrstur og ákvað því að rölta á hverfispöbbinn og væta kverkarnar með ísköldum jólabjór og horfa á einn knattspyrnuleik. Það var glatt á hjalla og menn skeggræddu landsins gagn og nauðsynjar yfir boltanum. Þá kom sjokkið. Það var engu líkara en ég væri staddur á sellufundi róttæka arms Frjálslynda flokksins með Útvarp Sögu í botni, umkringdur holdi klæddu moggabloggi. Semsagt; í helvíti.

Formdómarnir og fáfræðin voru slík að ég átti í stökustu erfiðleikum með að taka þátt í umræðunni því rök viðmælenda minna voru lituð svo miklu óútskýranlegu hatri að ég stóð uppi ráðalaus. Hvernig er hægt að rökræða við menn sem notast ekki við eiginleg rök heldur láta málflutning sinn ráðast af tilfinningum og fyrirfram ákveðnum hugmyndum um aðra?

Allir voru þó mennirnir vel upplýstir og fundið fyrir menningarárekstrum á eigin skinni (eða nákomnir þeim):

Þegar bróðir minn bjó í Svíþjóð ´89 bjuggu múslimar í blokkinni hans og bla bla bla ...

Síðast þegar ég fór til Köben var ekki þverfóta fyrir þessu pakki sem bla bla bla ...

Konan mín sá Pólverja um daginn á skemmtistað og forðaði sér áður en hann bla bla bla ...Það kæmi mér ekki á óvart þó almenn fáfræði og heimska væri meiri í sumum póstnúmerum borgarinnar en öðrum.

fimmtudagur, desember 27, 2007

Hugvekja

Biskupinn brosti í fréttunum. Hann var ekki í kjól. Þetta var ekki það bros sem við eigum að venjast. Það bros biskupsins sem við þekkjum er kreist fram með herkjum í lok viðtalsins þegar hann áttar sig á að hann er í stöðugri vörn og að öll umfjöllun um kirkjuna er neikvæð.

Nei, nú var brosið hans einlægt. Hann lýsti yfir sigri kirkjunnar í baráttunni við heiðingja. Í sigrinum fólst aukin kirkjusókn almennings yfir hátíðirnar.

En sættir biskupinn sig virkilega við það? Kannski fagnar hann smásigrum í einstaka orrustum einlæglega og það gefur honum eflaust smá fróun, en stríðið er löngu tapað. Fólk hefur kannski í heiðri kristin gildi en kirkjan er fyrir löngu orðin óþörf, nema sem þjónustustofnun.

Meginþorri þjóðarinnar er kristinn að nafninu til en dagsdaglega er mammonsdýrkunin fólkinu ofar í huga en hrokagikkurinn frá Nasaret og pabbi hans. Íslendingar eru kristnir á jólum og þegar fólk deyr. Annars er þeim trú ekki ofarlega í huga. Það kæmi mér ekki á óvart þótt fleiri hefðu mætt á opnanir nýju leikfangaverslunanna en í kirkju um jólin.

Ég minnist þess þegar ég var í fermingarfræðslu, að við vorum skikkuð til að mæta í messu á sunnudögum. Mig minnir að við höfum þurft að mæta átta sinnum og fengum þar til gerðan stimpil í einhverja bók við innganginn í hvert sinn sem við mættum. Eitt sinn, milli þess sem ég lá á aftasta bekk og dró ýsur, leit ég fram í kirkjuna og sá prestinn messa yfir þremur hræðum. Nokkru fyrr hafði ég pirrað prestinn í fermingarfræðsu og hann tók í hnakkadrambið á mér og sagði mér til syndanna. Ekki man ég hvaða reiðilestur hann las yfir mér en lyktinni gleymi ég aldrei. Þegar andfýlan fyllti mín vit kúgaðist ég. Kaffistækja, ásamt súrum daun af óburstuðum tönnum sat föst í öndunarfærum mínum þangað til hann loksins sleppti mér og ég gat andað að mér fersku lofti. Mér fannst sem þessar þrjár hræður sem sátu á fremsta bekk hlytu að finna andfýluna úr prófastinum.

Þessar þrjár hræður gengu allar við staf eða göngugrind, enda var elliheimili við hliðina á kirkjunni.

Þetta er ástæðan fyrir reiði biskupsins, Sveins Waage og allra hinna afturhaldsuppskafninganna. Þeir eru ekki reiðir yfir því að nokkrir trúleysingjar bendi á siðleysuna í því að einum trúarbrögðum sé hyglt á kostnað annarra í almennu skólakerfi. Þeir eru reiðir yfir því að fólki er orðið skítsama um kirkjuna, nema á jólum og þegar þarf að jarða einhvern.

Einu sinni var ég staddur í fjölskylduboði um páska þar sem voru yfir tuttugu manns. Þá spyr lítil frænka mín mömmu sína: “Mamma, hvað gerðist á Hvítasunnudag?” Stelpan kom að tómum kofa vitneskju móðurinnar. Allir litu flóttalegir í kring um sig. Þarna var full stofa af kristnum Íslendingum og enginn mundi hvað gerðist á Hvítasunnudag. Trúlaust hjarta mitt tók kipp. Ég stóð upp og spurði hárri raust fólkið hvað hefði gerst á Hvítasunnunni. Gat enginn svarað litlu stelpunni? Það kom á daginn að sá eini sem vissi hvað gerðist á Hvítasunnunni var trúleysinginn ég. Auðvitað þóttust allir muna það eftir að ég sagði þeim það, en það var bara stolið úr þeim.


Með guðlausu en siðlegu hjarta, óska ég ykkur gleðilegs jólafrís. Ég fékk allar mínar óskir uppfylltar þessi jól. Fékk bæði áfengi og sígarettukarton í jólagjöf. Getur drykkjusjúkur trúleysingi óskað sér betri jóla?

Skál!

laugardagur, desember 22, 2007

Tígur

Þegar ég kom heim úr vinnunni í morgun blasti við mér fögur sjón; Aggi sofandi áfengissvefni á stofugólfinu mínu. Eftir korters samningaviðræður við rekaldið féllst það á að flytja sig í rúmið. Ég hafði ætlað mér að setjast í hægindastólinn minn og klára bókina sem ég var að lesa en vildi ekki kveikja ljósið og raska þannig friði snyrtilega ungskáldsins. Ég ákvað því að kveikja á kertum og hlusta á Megas á i-podinum og fá mér einn öl fyrir svefninn. Eftir tvö lög eða svo tók ég heyrnatólin úr eyranu og dró þá út víravirki og gúmmíið og plastið duttu í sundur. Helvítis drasl þetta Apple dót. Jæja, ég klæddi mig úr náttbuxunum og í gallabuxur og hélt af stað í Skífuna til að kaupa ný heyrnatól. Á leiðinni stoppaði ég í Tiger og keypti kerti. Þar sá ég heyrnatól á fjögurhundruðkall og hugsaði með mér að kannski ég keypti þau bara til bráðabirgða þangað til ég yrði frægur, ríkur og dáður. Þá myndi ég kaupa rándýr og flott heyrnatól. Í ljós kom að Tiger heyrnatólin eru stórfín, betri en Apple draslið. Hver þarf merkjavöru þegar maður hefur Tiger?

Enn af löglegri siðleysu

Að morgni þriðja dags jóla má búast við langri biðröð fyrir utan Valhöll. Laganemar eiga eftir að flykkjast þangað unnvörpum, ólmir viljandi skrá sig í Sjálfstæðisflokkinn með von um feitar stöðuveitingar að námi loknu.

Samkvæmt stebbafr munu þessi skrif mín vera bein og ómakleg persónuleg árás á Þorstein Davíðsson.

föstudagur, desember 21, 2007

Stjórnarslit?

Nú held ég að fjármálaráðherra og settur dómsmálaráðherra eigi skilið ærlega flengingu á beran bossann. Hann er búinn að drulla upp á bak á þessu kjörtímabili.

Hvað ætlar Samfylkingin að gera í málinu? Á síðasta kjörtímabili voru þingmenn og núverandi ráðherrar hennar æfir vegna svona vinnubragða, spillingar og valdhroka íhaldsins.

Þessi skipun kemur náttúrulega á hárréttu augnabliki, þinginu nýlokið og þrír dagar til jóla. Íhaldið vonar að þetta verði gleymt og grafið á þrettándanum.

Ef það hefur nokkurn tímann blundað í þingmönnum og ráðherrum Samfylkingarinnar að slíta stjórnarsamstarfinu þá er Nýársdagur hárrétta augnablikið. Þau geta ekki með góðri samvisku starfað með Sjálfstæðisflokknum eftir þessa skipun Árna. Átyllan er komin.

Það væri mjög kómískt og einhvern veginn kosmískt réttlæti í því ef stjórnin springi vegna afsprengi DO.


Ég vil endilega bæta þessu við, og svo fyrir þá sem vilja grenja sig máttlausa úr hlátri, þessu.

Zionistar

Þegar mér leiðist svakalega mikið í vinnunni á næturnar, horfi ég á Omega og reyni að dotta í svona korter. Yfirleitt tekst það ekki því hálfvitaskapurinn hjá þessum ósjálfstætt þenkjandi fíflum er oft yfirgengilegur.

Áðan sagði einn bjáninn frá www.zion.is að helsta ástæða þess að ekki kæmist á friður milli Ísraelsmanna og Palestínumanna væri sú að þeir hleyptu guði ekki nægilega inn í hjarta sitt.

Jæja, þá vitum við það. Átökin fyrir botni Miðjarðarhafs stafa af því að gyðingar og múslimar eru ekki nógu trúaðir.

Sjálfssprotna forheimskunin hjá þessum fábjánum er bráðfyndin. Maður nennir ekki að æsa sig yfir mönnum sem tala svona út um rassgatið á sér.

fimmtudagur, desember 20, 2007

Virðing

Í landi voru eru nokkrar starfsstéttir sem við Frónbúar berum ekki nægilega virðingu fyrir.

Strætóbílstjórar:

Mikið álag og óþýtt viðmót. Enda er öll starfsstéttin með skeifu.

Leigubílsstjórar:

Sálusorgarar og skriftastólar smáborgarans. Ef þú hefur einhvern tíma reiðst leigubílsstjóra fyrir að keyra ekki nákvæmlega sömu leið heim til þín og þú gerir, þá ertu fífl. Einu sinni var ég í leigubíl á leiðinni heim og það var stúlka sem keyrði bílinn. Hún spurði mig með skjálfandi röddu hvort mér væri sama þótt hún keyrði Sæbrautina í stað Miklubrautar. Ég hló og sagði að mér væri skítsama. Hún sagði mér að fyrr um kvöldið hafi jakkafataklæddur aristókrat nærri lamið sig fyrir að keyra ekki Miklubrautina.

Póstþjónustu- og blaðburðarfólk:

Berið virðingu fyrir því. Ef þú ert með miða í glugganum í anddyrinu sem á stendur:

ENGAN RUSLPÓST TAKK FYRIR!!!!!!!!!!!!!!!!!

þá ertu hálfviti. Hásteflingar og sautján upphrópunarmerki eru rakinn dónaskapur.

Skólaliðar:

Ímyndaðu þér ef fjórtán ára bólugrafið gerpi í mútum segði þér að halda kjafti nokkrum sinnum á dag.

Starfsfólk frístundaheimila:

Læti, áreiti. Áreiti, læti. Öskur, ískur. Grátur, hlátur. Læti, áreiti. –Allan liðlangan daginn.

Ræstingarfólk:

Erfiðasta vinnan og lægstu launin. Aldrei skaltu ganga á blautu gólfinu þegar verið er að skúra. Hinkraðu, gólfið er bara tvær mínútur að þorna. Ef þú ert á Hlöðunni og gengur á skítugum skónum yfir blautt nýskúrað gólfið þá má sá/sú sem skúraði gólfið koma til mín og fá vottorð fyrir því að það megi hella kaffi yfir næstu handskrifuðu heimildavinnuna sem þú vinnur.

miðvikudagur, desember 19, 2007

Hópslagsmál við óharnaða menntskælinga

Ég hef gaman af því að vafra um Wikipedíu og hélt ég gæti nokkurn veginn treyst henni. Áðan var ég að lesa um Íslendingasögurnar því nýverið eignaðist ég heildarútgáfu þeirra og glugga mikið í þær.

Á íslensku Wikipedíunni stendur þetta um Njálu:

Menn eru ekki á einu máli um áreiðanleika eða sagnfræðilegt gildi sögunnar. Þó er alveg óhætt að slá því föstu að helstu persónur sögunnar voru uppi á sinni tíð og að margir eða flestir atburðir sem frá er sagt áttu sér stað í raun og veru. Hins vegar er ekki víst að þeir hafi gerst með nákvæmlega þeim hætti sem sagan vill vera láta.


Þetta eru skrif óharnaðs menntskælings.

Ég hef rætt þetta mál við Félag íslenskra bókfestumanna og við höfum ákveðið í sameiningu að stofna til fjöldaslagsmála við auma sagnfestumenn. Slagsmálin munu fara fram á Austurvelli strax að lokinni friðargöngunni á Þorláksmessu.

mánudagur, desember 17, 2007

Aðdáandinn

Í dag barst mér tölvupóstur í fjórtán liðum frá aðdáanda sem dáir mig. En hann dáir víst fleiri og er vel að sér í skáldskap og hefur þróað með sér stíl sem er magnaður.

Varið ykkur Eiríkur Örn og Kristín Svava!

Þennan aðdáanda mun ég serða við fyrsta tækifæri.

Snilldina má nálgast hér.

sunnudagur, desember 16, 2007

The Sea of Pointless Pussy

Ég næ honum ekki upp.

Eru morgunbónerar einungis fylgifiskar aumrar menntaskólatilveru? Í gamla daga var maður með bóner hálfan daginn! Í dag er hann linur kvölds og morgna.

Maður spyr sig?

I´m drowning in the sea of pointless pussy!


Ef maður bara væri Hank Moody þá þyrfti maður ekki að pæla í svona sjitti.

Samt græt ég ekki hlutskipti mín. Er nokkuð sáttur, svona heilt yfir. Hvernig ætli sunnudagsmorgnar séu hjá stebbafr? Morgunbóner?

Í gær hitti ég orðheppnasta kvikindi á þessari jarðkringlu. Gellu sem er heitin. Hann er reyndar minni en ég átti von á. En hann var í fylgd orðljóta pönkskáldsins. Djöfulli finnst manni sumt fólk svalt, svona í ölvuðum svefnrofunum.

Maður verður að hugga sig við það að stundum fái maður bara úr honum andlega.

föstudagur, desember 14, 2007

Mig skortir orðEigum við að ræða þetta eitthvað frekar?

fimmtudagur, desember 13, 2007

Ágúst Borgþór!

Þú ert mesti ógreindarskerti hálfviti sem ég hef nokkurn tímann lesið stakan staf eftir.

Í framtíðarsæluríki feminismans situr einmana og einhleypur öryrki á sóðalegri krá í úthverfi. Þar gefur sig á tal við hann miðaldra kona, fyrrverandi nektardansmær. Er líða tekur á samtalið gerir konan öryrkjanum tilboð sem hann ákveður að taka enda nýbúinn að fá greiddar bæturnar sínar: Hann ákveður að slá á langvarandi einmanaleik sinn og kynsvelti um stundarsakir. Síðar um nóttina verður parinu sundurorða og konan ákveður að kæra viðskiptavin sinn fyrir vændiskaup. Félagsráðgjafi kemur í fylgd jafnréttislögreglunnar sem handtekur manninn í morungsárið. Ráðgjafinn tjáir honum að vissulega sé hann í strangasta skilningi ekki ofbeldismaður en vændi þurfi að útrýma vegna þess að um allan heim séu konur seldar mansali og þær neyddar í kynlífsþrælkun. Fangavist hans þjóni göfugum heildarmarkmiðum um heim án kynbundins ofbeldis.

mánudagur, desember 10, 2007

Ég laug að þér, kæri lesandi!

Kæru vinir, velgjörðarmenn (pabbi) og aðrir lesendur.

Þið ykkar sem trúðu orði sem stóð í þessari færslu, þekkið mig ekki vel.

Suddinn í ferðinni var yfirgengilegur.

Hin raunverulega ferðasaga verður ekki birt hér. Svo gróteskar eru lýsingarnar. Þau ykkar sem vilja fá að heyra hina raunverulegu ferðasögu er velkomið að bjalla í mig (659-9604) og um leið fá leiðbeiningar um hvernig á að ferðast.

Ef þú er bjúrókrat eða íhald þá skaltu hætta að lesa því að þér er ekki við bjargandi. Þá geturðu líka lesið The Accidential Tourist eftir Anne Tyler og verið jafn steingeldur og Macon Leary og beðið þess í vonlausum draumi að Geena Davis kyssi þig og leysi þig úr álögum þess sjálfsskapaða vítis sem þú engist um í. En þú rúnkar þér einn, rétt eins og fyrri daginn.

sunnudagur, desember 09, 2007

Dallas

Síðastliðið sumar keypti systin mín fimm diska safn með íslenskum lögum frá níunda áratugnum. Ég setti lögin inn á i-podinn minn og er búinn að vera í nostalgíukasti síðan.

Ég vildi ég væri Pamela í Dallas


...sungu Dúkkulísurnar.

Ég hefði ekkert á móti því að vera Pamela í Dallas. Í minningunni eru Pamela og Bobby ímynd fullkomnunarinnar en kannski helst til of væmin.Ég væri heldur til í að vera Lucy. Sem barn var ég afskaplega ástfanginn af henni og dreymdi marga blauta drauma um hana.Sá sem ég leit mest upp til í þáttunum var Rey Krebbs. Mér fannst hann gríðarlega svalur, sérstaklega eftir að hann sarð Lucy. Ég væri alveg til í að vera Rey Krebbs.Enda þótt ég væri til í að vera allar þessar persónur þá get ég aðeins látið mig dreyma um það. Hvað varðar mitt lundarfar og hátterni, er ég líkastur Sue Ellen.

föstudagur, desember 07, 2007

Við erum á góðri leið til andskotans!

Ég var að lesa áhugaverða færslu hjá Þórhildi þar sem ég sá þetta. (http://www.orvitinn.com/myndir/2007/dv_leidari.jpg)

Stöldrum nú aðeins við orðið siðblinda sem kemur fyrir þrisvar sinnum í leiðaranum. Um siðblindu segir Wikipedia þetta:

Amorality is the quality of believing that moral right and wrong (or good and evil) do not exist in objective reality. 'Amorality' or 'amoralism' may also refer to believing that the concepts of moral right and wrong do not have meaning, or lacking a belief in the absolute existence of any moral laws. It does not require the belief that right and wrong in the sense of truth and falsehood do not exist.


Enn fremur mæli ég með því að fólk lesi þetta svar Guðrúnar Öddu Ragnarsdóttur atferlisfræðings um siðblindu.

Siðblinda er sjúklegt ástand og er birtingarform nokkurra geðsjúkdóma. Kannski (og að öllum líkindum) telur Reynir að trúleysingjar séu hópur illa innrættra geðsjúklinga sem fari um landið og kveiki í kirkjum, skeini sér með biblíum og hvetji börn til saurlifnaðar.

Það er áríðandi að almenningur stöðvi framrás guðlausra og siðblindra. Taumlaust og óagað frjálslyndi getur aldrei orðið til annars en bölvunar fyrir alla.


Svo hættulegir eru trúleysingjarnir að helst þyrftu góðir og gegnir borgarar þessa lands að draga að húni gunnfána, taka fram atgeirinn og verja sig með kjafti og klóm fyrir þessum heiðingjum sem geta leitt þjóðina til glötunar.

Bara spurning hvenær maður sér Reyni birtast á Ómega.

Snillingar óskast

Eins og glöggir lesendur mínir hafa tekið eftir, er nýr tenglalisti búinn að líta dagsins ljós á síðunni minni.

Ef þið vitið um fleiri blogg álík þessum, þar sem snillingar og mannvitsbrekkur lýsa upp skammdegið með skrifum sínum, endilega látið mig vita.

miðvikudagur, desember 05, 2007

Þær flottustu

Glæsilegustu konur í íslensku sjónvarpi:

1. Eva María Jónsdóttir – Sunnudagskastljós
2. Brynja Þorgeirsdóttir – Kastljós
3. Þóra Tómasdóttir – Kastljós
4. Nadia Katrín Banine – Innlit - Útlit
5. Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir – Fréttir RÚV

Það er augljóst að RÚV hefur vinninginn, enda ríkisstofnun. Ég ætla ekki að hafa listann lengri af því að þetta eru flottustu stelpurnar og alger óþarfi að vera að nefna einhverjar konur sem ég er ekki skotinn í.

p.s.

Mér finnst að við ættum að nota fleiri sænskuslettur.

laugardagur, desember 01, 2007

Uppfinning aldarinnar

Frá örófi alda hafa kuklarar, gullgerðarmenn, læknar og allir sem hafa vit á náttúrulækningum reynt að finna lyf við þynnku. Eftir áralangar rannsóknir hef ég fundið ráð sem læknar þynnkuna!

Uppskrift:

Þú tekur einn bolla af sektarkennd og fleygir honum út í hafsauga.

Því næst blandarðu saman 100 grömmum af móral og einum desilítra af hausverk og sturtar þeim niður í klósettið.

Að því loknu hellirðu upp á kaffi og ferð í sturtu.

Svo berðu á þig brúnkukrem til að reyna að fela það hversu fölur og viðbjóðslegur þú ert.

Það næsta sem þú gerir er að hringja í systur þína og spyrja hana hvort hún nenni í Kolaportið. Í Portinu kaupi þið asnalega eyrnalokka, asnalegar bækur og fáið ykkur heitt súkkulaði. Svo kaupi þið harðfisk og röltið heim og vætið kverkarnar með ísköldum jólabjór.

Afleiðing:

Þú ert þynnkulaus, í góðu skapi og tilbúinn fyrir djammið í kvöld.


 

Powered by Blogger