Og svo kom stríð og svo kom her. Og svo kom friður og enn meiri her. -Megas

miðvikudagur, júní 30, 2004

Miðvikudagskímni

Mér hefur aldrei þótt mikið til George W. koma. Hann er leiðinlegur maður.

George W. Beadle var bandarískur erfðafræðingur, fæddur 1903 og hlaut Nóbelsverðlaun í læknis- og lífeðlisfræði 1958 ásamt J. Lederberg og E. Tatum fyrir rannsóknir á efnafræði gena og þætti þeirra í myndun ensíma.

Ætli Kári kannist við hann?

Kaflaskil

Þá er það orðið opinbert! Ég er kominn í b-ið. Það er ólýsanleg tilfinning að vera búinn með a-ið, en samt örlar á því að ég sé farinn að sakna þess pínulítið. B-ið er ekki nema 66 blaðsíður svo ég stefni að því að klára það á morgun og byrja á c-inu.

Sumarhátíð UVG á laugardaginn. Það er ekki nógu gott því ógöngufélagið Pollýana er búið að skipuleggja göngu á Hengil og þar sem ég er jarðfræðingurinn í hópnum er ég að sökkva mér í gríðarskemmtilegar bækur Þorleifs Einarssonar. Keypti eina bók eftir hann í gær hjá Braga. Það er alltaf notarlegt hjá Braga, líka eftir að hann flutti af Vesturgötunni yfir á Hverfisgötu (sem er mun betri staðsetning) en reykelsislyktin getur verið svolítið megn. En það er líka allt í lagi því maður er oftast svo lengi að grúska og skoða sig um að maður venst lyktinni. Ég fann Blakkar rúnir eftir Halldór Stefánsson númeraða (nr. 15) ásamt eiginhandaráritun höfundar. Bókin kom út á afmæli Máls og Menningar 1962 og er mikill kjörgripur enda þótt hún sé í kilju og hafi ljótustu forsíðumynd í heimi, sem einhver frægur vatnslitamálari málaði víst. En nóg um það. Bókin kostar 3.000 kr. svo þið vitið hvað mig langar í afmælis- eða jólagjöf. Svo langar mig líka í hjól.

þriðjudagur, júní 29, 2004

Augnlýsing já

Ég augnlýsi eftir hjóli. Það má vera flott eða ljótt, gamalt eða nýtt, lítið eða stórt o.fl. í þeim dúr. En mestu máli skiptir að það hafi tvö hjól. Þið megið selja mér hljól, lána mér hljól eða gefa mér hjól. Einnig má viðhafa vöruskipti. Endilega sendið mér póst eða kommentið eða hringið.

mánudagur, júní 28, 2004

Aberdeen Angus

Erfið helgi. Ekki að undra þó ég hafi sofið yfir mig í morgun. Það er ekki gott að sofa yfir sig þegar:

1. maður er í nýrri vinnu og reynir að koma vel fyrir.

2. maður býr í Breiðholti og vinnur í vesturbænum.

Annars var hundleiðinlegt að vinna við kosningarnar en vegna dræmrar kosingaþátttöku þá losnaði ég klukkan sex og dreif mig í bústað í Munaðarnesi. Það var yndislegt. Þó kom ástin ekki yfir mig í þessari ferð eins og gerist svo oft í óbyggðunum. Enginn Amor og enginn Cupit. Þessir gaurar eru orðnir svolítið klisjukenndir svo ég er að hugsa um að byrja að nota nýjan ástarguð; hinn skoska Aberdeen Angus sem er ástarguð í keltneskri goðafræði.

föstudagur, júní 25, 2004

Ég er alinn upp sem úthverfapakk með fordóma gagnvart öðrum hverfum borgarinnar

Það er frekar hryssingslegt veður úti, mistur og suddi, trén á stöðugri hreyfingu, þung ský hlunkast í loftinu. Skrýtið hvað gráu húsin í vesturbænum eru miklu myglulegri í svona veðri.

Þetta er nákvæmlega sú mynd sem ég hafði af vesturbænum þegar ég var yngri. Ég gat ekki skilið hvernig börn gátu búið í þessu hverfi. Mér kom ekkert annað til hugar en að einungis illa þefjandi gamalmenni héldu til í þessum miðaldakofum og öll börn væru víðs fjærri nema á afmælum gamla fólksins og kannski á sjómannadaginn.

En eftir að ég byrjaði í háskólanum og sá vesturbæinn með eigin augum og labbaði um götur hans þá varð ég svolítið skotinn í honum. Það skot hefur aukist til muna undanfarin tvö ár og nú skammast ég mín fyrir að búa í Breiðholti og þrái ekkert heitar en að komast í vesturbæinn. Nema þegar það er svona veður.

fimmtudagur, júní 24, 2004

Púl

Mér líkar vel í nýju vinnunni minni. Strax á fyrsta degi er ég byrjaður að slæpast og blogga. Það líkar mér. Nú get ég bloggað á hverjum degi.

þriðjudagur, júní 22, 2004

Kverúlantinn Gunni

Jæja, þá er maður búinn að svíkja málstaðinn. Ég hef breyst í allt það sem ég hef talað gegn öll mín fullorðinsár (sem eru u.þ.b. sex mánuðir) og hef gerst skrifstofublók. Ég mun hanga sveittur inni á kontor í sumar og plebbast.

Lifi byltingin! Hef ég kannski ekki lengur rétt á að segja þetta?

mánudagur, júní 21, 2004

Náttúrubarn

Úff, langt síðan maður hefur bloggað. En margt bloggvert hefur gerst á undanförnum dögum. Ég komst að því að Hellisheiðin er ótrúlega falleg. Það er svo skrýtið hvernig náttúran er eitthvað öðruvísi þegar maður gengum um í henni og skoðar og nemur (í sjö klukkutíma göngu) en þegar maður sér sama hraunið út um bílgluggann á leiðinn til Hveragerðar, þeirrar sem Hveragerði er kennd við. Svo var yndislegt að skola af sér svitann í heitum læk og lenda í smá ævintýri á leiðinni til baka.

En eins og náttúran leynir á sér og er ekki öll þar sem hún er séð, þá má segja það sama um ákveðin skrifstofustjóra ákveðins stjórnmálaflokks. Hann lítur út fyrir að vera góður í fótbolta, hann gefur til kynna að hann sé góður í fótbolta, en þegar öllu er á botninn hvolft, og hann sýnir sitt rétta eðli þá er hann skítlélegur. Múhahahaha.

miðvikudagur, júní 16, 2004

Bombum Mjóddina

Ísafjörður er yndislegur staður. Maður finnur virkilega til smæðar sinnar innan um þverhnípt fjöllin. Úff.

Ég legg til að við hökkum okkur inn á tölvukerfi Pentagon og setjum þjóðbúningaleiguna í Mjódd á lista yfir hernaðarleg mikilvæg skotmörk. Nei við skulum bara sýna þeim ást og umhyggju.

fimmtudagur, júní 10, 2004

Svefntruflanir

Eftir síðasta fund gærdagsins (sem var skemmtilegasti fundur dagsins, takk krakkar) var ég úrvinda. Úr varð að ég sofnaði fyrir klukkan níu í gærkvöldi og vaknaði því útsofinn um klukkan fjögur í morgun. Það var nú lagi því ég tók til og setti í uppþvottavélina og náði að vinna helling fyrir klukkan átta í morgun, en þá fór ég í morgunmat til mömmu og fékk beyglur og afar gott kaffi. Ég býst við að sofna snemma í kvöld.

miðvikudagur, júní 09, 2004

Frjálshyggjufólk - ágætis fólk

Aldrei hefði mig grunað að ég kynntist jafn mörgum frjálshyggjumönnum á jafn skömmum tíma. Ég þakka fyrir þau kynni og fagna þeim. Sýn mín á frjálshyggjumenn (suma a.m.k.) er ekki jafn steríótýpísk og áður, og þá tala ég um nafntogaða frjálshyggjumenn.

Í ljósi þessa nýju kynna og annarra breytinga á umhverfi mínu hef ég farið í smá naflaskoðun og endurskoðað mínar grundavallarhugsjónir. Útkoman er sú að ég hef styrkst afar mikið í skoðun minni en um leið uppgötvað nýja vinkla á henni.

Ég er hættur að sjá hluti í jafn miklu hægri-vinstri samhengi og byrjaður að hugsa út frá réttlæti (þessu barnslega, þið vitið). Kommúnismi eða frjálshyggja er ekki leiðin til hamingju. Réttlætið er það hins vegar. Án efa fer þetta saman að einhverju leyti en ég einblíni meira á hitt þessa dagana. Byltingin kemur aldrei ef við verðum ekki betri hvert við annað. Hún byrjar innan frá. Ef við verðum betri við náttúruna og komum fram við hana af virðingu; ef við verðum betri við dýrin okkar og hættum að líta á þau sem framleiðsluvörur, þá verður auðveldara að vera betri hvert við annað.

Ef við hættum að hugsa alltaf í hægri-vinstri og byrjum að hugsa hvað er rétt, þá verður veröldin betri staður.

Ég get ekki ímyndað mér að einhverjum finnist það innst inni siðferðislega rétt að eyðileggja náttúruna og skella einum hvalfirði ofan á hálendið. Sömuleiðis að rækta þúsundir hænsa, sem fá aldrei að líta dagsins ljós, í einni skemmu svo aðeins sé hægt að selja kílóið á 299 kr. í Bónus.

Ef við lítum lengra inn í okkur, framhjá öllu sem við höfum lesið eða heyrt, og hlustum á okkar innri rödd, þá segir hún okkur að þetta sé ekki rétt. Fyrst þurfum við að hugsa svona, svo getum við farið að hugsa í hægri-vinstri.

Úff, þá er maður búin að blása. Ég átti samtal við unga frjálshyggjudömu um helgina og ég held að við höfum ekki náð að tjá okkur á skynsamlegan máta (enda drukkin, allavega ég). Það gæti hugsast að við eigum fleira sameiginlegt en okkur grunar. Hlakka til að hitta hana aftur.

þriðjudagur, júní 08, 2004

Þriðjudagsspeki

Þegar ég verð forsætisráðherra ætla ég aldrei að hafa fundi lengur en korter ef allir í herberginu eru ekki sammála mér í einu og öllu. Það væri bara vitleysa að eyða tíma svoleiðis þras.

Er hægt að elska mann en fyrirlíta hann fyrir skoðanir hans? Nei!

En það er hægt að elska mann og fyrirgefa honum skoðanir hans!

Speki dagsins í boði Gunna, hins friðelskandi ástmanns.

mánudagur, júní 07, 2004

Gunni fremur ósmekklegur

Í dag klippti ég á mér neglurnar í strætóskýli. Nærstöddum þótti það fremur viðurstyggilegt. Sérstaklega einni konu sem horfði fyrirlitlega á mig. Ótrúlegt hvað Íslendingar eru dannaðir - eða halda það að minnsta kosti. Hefði ég þurft að prumpa, þá hefði ég látið vaða þar og þá og sagt - hafðu þetta kelling!

föstudagur, júní 04, 2004

Sýnum samstöðu

Það þarf enginn að efast um að undirskriftir geta haft áhrif.Sýnum samtöðu og ást.

Nokkrir góðir dagar

Í gær var gott veður. Í gær var góður dagur. Þá komst ég að nokkrum staðreyndum:

1. Ég sökka í hakkísakk.

2. Aldrei á að borða heita súpu í miklum hita á Austurvelli.

3. Rónar og drykkjufólk er besta fólk.

4. Fólk sem vinnur dagvinnu inni á kontor er fífl.

5. Reykfylltar sápukúlur er besta uppfinning síðan Latte var uppgötvað.


Í dag er enn betra veður en í gær og verður því enn betri dagur í dag. Dagurinn verður því notaður í vinnu fyrir hádegi en eftir hádegi ætla ég að slæpast og senda góða strauma út í alheimsandann.

fimmtudagur, júní 03, 2004

Power to the people

Loksins, loksins. Bleik flauelisbylting á næsta leiti.

þriðjudagur, júní 01, 2004

Furðuverk

Nú langri og unaðslegri helgi lokið og kallinn sestur á Hlöðunna og bloggar, svona rétt áður en hann skellir sér út í djúpu laugina og fer að vinna eitthvað að viti. Hlegin var ótrúlega skrítin, skemmtileg og fyrst og fremst kom hún mér á óvart. Ég lærði margt nýtt, t.d. að það á aldrei að dæma fólk fyrirfram. Fólk sem þú heldur máske að séu fífl getur verið ljúfastu sálir. Aldrei að dæma fyrirfram, bara elska skilyrðislaust.

Ég held að þessi texti, sem ég held að sé eftir Jóhann G., geti átt við okkur öll:

Ég á augu, ég á eyru, ég á lítið skrýtið nef.
Ég á augnabrúnir og augnalok sem lokast er ég sef.
Ég á kinnar og varir rauðar og á höfði hef ég hár.
Eina tungu og tvö lungu og heila sem er klár.

Ég á tennur og blóð sem rennur og hjarta sem að slær.
Tvær hendur og tvo fætur, tíu fingur og tíu tær.
Ég get gengið og ég get hlaupið, kann að tala mannamál.
Ég á bakhlið, ég á framhlið en innst inni hef ég sál.

Því ég er furðuverk, algjört furðuverk sem að guð bjó til.
Ég er furðuverk, algjört furðuverk, lítið samt ég skil.


 

Powered by Blogger